Wednesday, March 14, 2018

Instagram

Ég finn og ég sé nú til dags að það gætir vaxandi kvíða hjá unglingsstúlkum.

Ekki öllum auðvitað en mörgum. Ég þykist vita að samfélagsmiðlar séu aðalmálið og að þær skoða Instagram mikið. Ég er búin að pæla svolítið í þessu og er sjálf á Instagram að fylgjast með þeim sem ég hef valið að fylgjast með.

Þeir sem ég hef valið að fylgjast með eiga það öll sameiginlegt að vera ekki í vinnu heldur eru þau að lifa lífinu. Þetta fólk ferðast mjög mikið, eru reyndar flest barnlaus og eru flest yogafólk eða lífskúnstnerar. Þau ferðast um heiminn og eru með yogaretreats, eða eru með sína eigin yogastöð og iðullega birtast af þeim myndir þar sem þau eru skælbrosandi á mjög exotic stað þar sem það er alltaf sól.

Ég tengdi um daginn að þetta er líklegast það sem er að valda þessum stelpum og sjálfri mér kvíða. Því auðvitað langar mann að lifa svona lífi þar sem manni líður ekki eins og maður sé í vinnunni því hún er svo æðisleg. Og svo loksins hætta þær í símanum og átta sig á því, eins og ég, að lífið er ekki svona. Það getur verið dáldill skellur.

Ætla að fara að eigin ráðum sem eru þau sem ég gef stjúpdóttur minni og vera minna á Instagram.

Namaste.

(Skrifað nokkrum vikum síðar) Pha, er meira á Instagram en nokkru sinni fyrr. Ávanabindandi andskoti.


Tuesday, March 6, 2018

Bogamenn

Ég fór a skemmtilegan fyrirlestur í vetur, man ekki hvort það var í enda janúar eða byrjun febrúar. Þetta var á Yogafood við Grensásveg og Sólveig, eigandi Sólir yogastöðvarinnar var með fyrirlestur um hvernig hún hætti á framabrautinni í viðskiptalífinu til að sinna andlegri köllun sinni. Auðvitað tengdi ég.

Það var mikið um spurningar úr salnum og ein þeirra situr í mér. Þetta var reyndar ekki spurning heldur samtal frá manni sem Sólveig kannaðist greinilega við og ég líka þar sem ég hef séð greinar eftir hann í blöðunum. Hann er mikill stjörnuspekingur, þ.e.a.s hann skrifar og spáir í stjörnumerkin og svoleiðis.

Þarna sagði hann að Bogamenn séu iðullega með samviskubit yfir því að vera ekki að vinna við það sem þeir lærðu. Alveg merkilegt vegna þess að ég er einmitt með samviskubit yfir því að vera ekki að vinna við það sem menntaði mig í í háskólanum OG ég er bogamaður:)

Það er ekki laust við að þær séu þungar í takinu blessuðu gráðurnar þegar ég geng um gangana í vinnunni sem ég merki við í boxið þegar ég tek skoðanakannanir að sé fyrir ósérhæft starfsfólk. Samviskubitið er ekki síður mikið þegar ég hugsa um námslánin...

En hvað get ég sagt? Ekki fer ég að vinna vinnu þar sem ég velkist um í kvíða daglega í vegna þess að hún er ekki það sem ég vil.

Svo ég elti drauminn. Follow that dream. Því það er eina vitið fyrir mér.

Namaste.