Tuesday, September 24, 2019

Shameless

Mér finnst rosalega leiðinlegt á fundum. Þeir taka frá mér orku og gefa mér enga. Kem út í mínus.

Í síðustu viku voru haustfundir hjá krökkunum í skólanum. Fyrst á þriðjudeginum hjá Guðrúnu Höllu og svo á fimmtudeginum hjá Stefáni Mána.

Sko. Fyrri fundurinn var svona súpufundur. Nafnið trekkir kannski einhverja að. Ekki mig. Fundurinn var frá kl 16:30 - 20:00. ! 3 og 1/2 tími.

Sko. Verandi foreldri sem er búin að vera með barn í grunnskóla í 12 ár núna þá VEIT ég að þetta er bara blablabla og ég hef engan áhuga á að vera þarna. Engan. Fyrir manneskju eins og mig með vænan dash af félagsfælni og kvíða þá sjúga svona fundir úr mér orku.

Þegar fundarboðið kom þá eyddi ég því strax. Þetta er orðið reflex. Verund mín langar ekki einu sinni 1% til að vera þarna og vissi að ég myndi ekkert græða á því að mæta. Allt sem kæmi þarna fram myndi birtast hvort sem er og gerast. Það kæmu fleiri tölvupóstar með upplýsingum um það.

Vanalega fer Svanur á svona fundi en hann komst ekki. Þannig að ...það fór enginn frá okkur. BOOM.

Geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta skilja ekki margir. En það sem máli skiptir er að ég geri það. Útbrunna móðirin. Fyrst þegar ég fór frekar að sleppa svona fundum en að þola þá fékk ég massa samviskubit. Rosalegt. Núna eftir að hafa verið með 5 börn í svona mörg ár og allt sem því fylgir er ég hætt því. Núna, sérstaklega þegar súpufundurinn var kom ég mér fyrir uppi í rúmi með bókina sem ég er að lesa núna og brosti. Frá hjartanu. Takk ég. Svoleiðis brosi. Í svona aðstæðum er ég farin að velja mig. 

Þess vegna líður mér vel.

The feelz

Það eru þó nokkrir kostir við að verða orðin fertug.

Maður er aðeins vitrari. Maður er farinn að þekkja það að tilfinningar koma og fara og eru eins og ský á himninum. Allavegana í laginu. Stór, lítil, falleg, skuggaleg, kræklótt, skrýtin. 

Í dag líður mér svo skemmtilega þversagnalega. Kontrastarnir tveir, að líða vel og líða illa sameinast í miðjunni og ég er bara í einhverju "zoni." Mér líður vel eins og mér er farið að gera bara svona almennt. Bara mjög vel meira að segja. Það var mánudagskvöld í gær sem þýðir KAP kvöld. Vá, hvað þetta er eitthvað fyrir mig. Það er svo gaman að hitta hinar geimverurnar og vera skrýtin saman og tala svo um það. Mér er farið að þykja vænt um fólkið sem er þarna og stendur fyrir þessum kvöldum. Labba á Frakkastíginn og labba svo heim, hlustandi á Normið.

Mér líður illa af því að ég er komin með svæsna augnsýkingu. Aftur. Það er bara aldrei góður tími fyrir þetta. Mér líður dáldið eins og svona smáfífli. Fífli. Fólk sem er viðkvæmt fyrir öllu á ekkert að nota maskara frá Maybelline sem er með fullt af aukaefnum í. Hin yndislega gyðja Ingibjörg í Yogashala benti mér á að þetta væri líklegast maskarinn og betra væri þá að fara í heilsubúðirnar og kaupa maskara með litlum sem engum eiturefnum í. Það er rosalega óþægileg tilfinning að vera eins og með glóðarauga. Þetta er vont. Þetta er líka svo óþægilegt af því að núna er ég minn eigin atvinnurekandi og það er bara varla gott að mæta eins og fílamaðurinn til viðskiptavinanna.

Anyhows. Dagarnir eru farnir að fyllast og mér er farið að finnast ótrúlega vænt um þriðjudagana því þá hef ég tíma fyrir mig. Og heimilið. (Mér er næstum því sama að ég byrjaði setningu með "og", það á maður ekki að gera.) Ég sem ætlaði svo rosalega mikið að fara í skólann í dag er að spá í að beila á því. Aftur. 

It´s me time. 

P.s. elska hvernig alheimurinn er alltaf að passa upp á mann. Ég var rosa fúl að þurfa að gefa frá mér þriðjudagana í aðstöðunni í Yogashala. Út af skólanum. Tók þetta mjög alvarlega. Skóli frá kl. 13 til 15:30. Ég kem af þannig fólki (takk mamma) að ég er ótrúlega samviskusöm með svona hluti. Núna skil ég að ég þarf þessa þriðjudaga til að slaka á eftir KAP. KAP sem gefur mér svo mikið. Betri ég, betri líðan, tekst betur á við hlutina, betri svefn, betra kynlíf og ég nudda miklu betur svo fátt eitt sé nefnt.

Namaste.

P.p.s. skrifaði þetta með veika augað lokað, laga villurnar later (ef ég man.)

Friday, September 20, 2019

Dis ease

Fertug. 

Mér líður eins og ég sé með sjúkdóm. Einhvers konar hrörnunarsjúkdóm.

Hvað getur maður gert að því þó dagarnir komi og fari og svo er maður bara fertugur allt í einu?

Líður eins og þetta sé blótsyrði. Fertugur. Var að lesa komment á frétt á visi.is minnir mig þaŕ sem Emmsjé Gauti er að dissa Reykjavíkurdætur. Ein kommentar: hva, ertu orðinn fertugur eða eitthvað?

Blaut tuska. Andlit. Særindi innra og ytra.

Ái.

Tuesday, September 17, 2019

Normið

Ég elska og elska ekki normið.

Ég elska podcast þáttinn Normið. Er bara nýbúin að uppgötva hann og finnst hann æðislegur. Þarna eru tvær stelpur að tala um lífið og tilveruna og það sem mikið af ungu fólki er að glíma við; kvíða, þráhyggjur og árangur í lífinu. Basic. 

Þær fá til sín rosalega flott fólk sem gefur manni innblástur. Til dæmis Alda Karen, Þóra Hlín, Nökkvi Fjalar og fleiri. Sigga Dögg kynfræðingur (kynlífsfræðingur?) var hjá þeim um daginn. Brjálæðislega góður þáttur:) Líka fólk sem sem hefur lent í áföllum og hvernig það hefur dílað við það. Mæli með.


Fíla ekkert rosalega mikið normið samt. Hef alltaf verið frekar fyrir það sem á jaðrinum, kantinum, horninu en það sem er inn í kassanum, normið. Finnst það eitthvað óspennandi.

Finnst kassar og box almennt frekar aðþrengjandi nema Ikea kassar, þeir heilla mig skipulagslega séð (ggrr...) 8 - 16 kassi, vinna inni í boxi, venjulegt fjölskyldumunstur, matur kl 19 eru allt kassar sem ég er búin að brjótast út úr og er bara frekar stolt af því.

Fíla frekar svona fljótandi og frjálsa tilveru.

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil...

Næstum því Ný dönsk, næstum því.

Tuesday, September 10, 2019

Slitrur úr degi

Ég ligg á nuddbekk upp í skóla. 

Er pirruð af því að ég finn að ég er að fá hausverk. Ekki bara út af skærum ljósunum í kennslustofunni heldur líka af alltof mörgum mismunandi ilmkjarnaolíum. Kennarinn var að kynna mismunandi ilmkjarnaolíur fyrir okkur og það fór allt of mikið úr einni þeirra á mig. Skilningarvitin er undir álagi.

Það vill svo heppilega til að við erum að læra um aðferðir til að losna við hausverki. Eitthvað með mismunandi þrýsting á höfuðbeinin og tilfærslu á öllum þeim lögum sem hylja innsta kjarna okkar að gera. Við göngum það langt að við förum með latexhanska sem vörn með puttana upp í munninn á hvort öðru og hreyfum við fasíunni upp við beinin. 

Er að elska hvað mér þykir færri hlutir skrýtnir og fleiri hlutir skiljanlegri.

Losna við hausverkinn og pirringinn og labba heim sátt við guð og menn.

Wednesday, September 4, 2019

Haustið

Mér finnst voða skrýtið að það sé bara komið haust.

Mér finnst hitastigið ekki benda til þess  einhvern veginn (er ekki að kvarta) og ekki alveg kominn þessi kertaljósafílingur strax. Held að ég sé öll orðin næmari fyrir árstíðaskiptum (sem og öðru.)

Guðrún Halla byrjuð í skóla auðvitað. Ég ætla að vinna í því í vikunni að hún labbi kannski ein heim úr frístundaheimilinu. Veit ekki alveg samt. Börnin mín eru kannski ekki orðin eins stór og ég held að þau séu stundum.

Ég er svo glöð með bókina sem ég fann á bókasafninu. Síðasta bók sem ég var með var bara ekki að ná mér og ég nennti bara ekki að lesa hana. Vil samt alltaf klára það sem ég byrja á og strögglaði með hana með því að framlengja skilafrestinum. Þessi sem ég er með núna heitir Friend request og náði mér strax. Kom svo í ljós að hún fjallar að einhverju leyti um E pilluna sem tröllreið öllu í næturlífinu í níunni. Svo ég tengi. Ég var einmitt í Englandi tvisvar í níunni á þessum slóðum þar sem sagan gerist og fór á rave þar þar sem blessaða pillan sveif undir, yfir og inní öllu. Nían var eitthvað. Klikkaður áratugur.


Af sjálfri mér er það að frétta að ég er með aðstöðu tvisvar í viku og er svo í vinnustaðanuddinu. Elska að vinna hjá sjálfri mér en þyrfti reyndar að þéna aðeins meira... það væri óskandi að húsmóðursstarfið væri launað. Já og móður hlutverkið..

Ætla að elska þetta haust þó ég sakni besta sumars ever. Þessir haustlitir, ha?

Namaste bitches.