Thursday, August 29, 2024

Mmmmm

Sumarið hefur geymt það besta fyrir síðustu dagana. 

Ok, þetta þýðist ekki vel yfir; saving the best for last.

Ég hef verið frekar ringluð vinnulega séð. Var með þrjá daga í aðstöðunni en núna eru þeir bara tveir svo ég hef óþægilega mikinn frítíma. Engar áhyggjur, finn mér nú alltaf eitthvað að gera og er eiginlega bara stundum of upptekin. Vantar vel launaða hlutavinnu. Já, mér þarf reyndar að líða vel í umræddri vinnu og helst geta ráðið hvenær ég vinn af því að tja, í tveimur síðustu vinnum fékk ég frekar alvarleg kulnunareinkenni og veit að ég get engan veginn verið hvar sem er.

Verkefni vikunnar var smá djók. Munið eftir kerrunni sem ég keypti ódýrt í Barnaloppunni? Þetta er hálf svona draslaraleg kerra sem er greinilega vel notuð en hinar kerrurnar voru bara mjög dýrar. Allavega, þetta er svona Chicco kerra með rauðum skerm. Mér fannst hann eitthvað svo glataður og líður ekki vel með að vera með barnið í svona glataðri kerru. Þannig að ehemm, ég pimpaði hana smá upp. Keypti svart sprey og meira að segja primer spray undir aðal spreyið í Slippfélaginu og var að spreyja í gær. Veit ekki alveg hvað ég á að segja með útkomuna en hún er hugsanlega þannig að kerran er meira draslaraleg... 

Hápunktur vikunnar var í morgun í Elliðaárdal. Mikið ofboðslega var dalurinn flottur í morgunsólinni. Byrjaði líka í Art of yoga eftir sumarfrí í gær og mikið var gott að sjá hana Talyu mína og fá faðmlagið góða. Gaman að hitta hina yogana líka.  

Lágpunktur vikunnar var á mánudaginn þegar Styrmir Orri (15 mánaða) steinsofnaði óvart kl 11 í kerrunni í stað 11:30 heima. Hafði labbað með hann í Kringluna á Borgarbókasafnið í krakkahornið sem honum fannst mjög gaman. Fórum svo í Bónus og var því með tvo bónuspoka og sofandi barn í kerrunni og bý upp á annarri hæð í blokk og ekki vekur maður sofandi barn sem er að taka lúrinn sinn.. Þetta var ekki samkvæmt áætlun. Jú, ég panikaði smá en góð nágrannakona kom til bjargar og hjálpaði mér að bera allt heila klabbið upp stigana. (Síðan svaf hann nú bara í 40 mín svo amman var dáldið þreytt þennan dag.)

Social vikunnar hefur nú ekki verið mikið þessa vikuna. Anna Lára mín kom í heimsókn á mánudaginn sem bjargaði deginum. Hún er svo yndisleg og hjálpaði mér með Styrmi. Kemur í ljós að hún er sannkallaður barnahvíslari og mátti meira að segja skipta á honum. Hann er nú aldrei ánægður með ömmu sína þegar kemur að bleyjuskiptum. Hitti Art of yoga fólkið aftur í gær sem var æði. Við töluðum saman nokkur eftir tímann, mjög notalegt. Á leiðinni niður stigann var ég að tala við tvo menn. Við vorum að djóka með hvað tíminn hefði verið langur, mjög fyndið. Er líka að fara hitta stelpurnar í sjósund á eftir svo þetta er nú alveg eitthvað social.

Málið er að mig vantar eitthvað svona borgandi skemmtilegt verkefni þar sem ég hitti fólk. Hvað gæti það verið?

Namaste


Thursday, August 22, 2024

Öðruvísi vika aftur

Árlega veiðiferð fjölskyldunnar í Straumfjarðará á Snæfellsnesi var einkar ánægjuleg. Frá sunnudegi til þriðjudags áttum við góðar fjölskyldustundir. Þetta er einkar mikilvæg ferð alltaf, eina skiptið á árinu sem við erum öll saman og ég fæ að kynnast börnum bræðra minna betur. Ömmugullið mitt var líka á staðnum og mmmm... hvað það er gott að elska.

Krakkarnir eru líka að byrja í skólanum í vikunni svo það er full steam ahead. Stefán ákvað að skipta um braut í MK og er kominn á viðskiptafræðibraut. Honum leist ekki á opnu brautina. Það er skólasetning hjá Guðrúnu Höllu í dag og svo er skólinn byrjaður. Miklar breytingar framundan sem sagt.

Verkefni vikunnar er með smæsta móti en er samt mikilvægt. Breytingaskeiðið réðst á mig á laugardaginn. Fór í sakleysi mínu í yogatíma í Yogashala en á leiðinni út byrjaði heiftarlegt heilaþokukast og ég kom heim án yogadýnunnar minnar. Veit ekki hvar hún er. Blessaða Ingibjörg leitaði út um allt á stöðinni en án árangurs. Fer á morgun í hádegistíma og athuga hvort ég finni hana ekki.

Social vikunnar verður á laugardaginn á menningarnótt. Er hálft í hvoru búin að lofa að koma og vera með Bowenfélaginu að gera bowen á sveittum hlaupurum eftir maraþonhlaupin. Ætlaði að vera alveg með en svo er raunveruleikinn eitthvað að sýna sig og þetta er meira mál en ég hélt. Það að vera 09 - 15 niðrí bæ. Labba líklegast en svo er að verða svo kalt og áhyggjufíkillinn man vel eftir menningarnótt í fyrra þegar hún öfundaði allar konur sem voru í síðúlpum. Það var djöfull kalt. Finn að það er að kólna og hvað með nesti og mikið er þetta snemma og blablabla.. Þetta verður á bakvið Kvennó skilst mér og við höfum ekki aðgengi að salerni...

Hápunktur vikunnar var samvera með bræðrum mínum. Eitthvað þiðnaði í samskiptum okkar og ég gat talað við þá sem var sigur út af fyrir sig. 

Lágpunktur vikunnar var þegar ég svaraði spurningu í Besserwisser vitlaust. Svarið var víst ekki í samhengi við spurninguna. Það verður að hafa í huga að bróðir minn og konan hans gætu keppt fyrir Íslands hönd í þessu spili og unnið. Gerði mér svo grein fyrir því að líklegast eru þau staðreyndafíklar. Sem er dásamlegt. Skildi fullkomlega hversu óþolandi er fyrir þau þegar svarað er rangt og úr samhengi! Veit að orðið staðreyndafíklar er ekki orð og orðið fíkill er alltaf ljótt en ég er bara svona að lýsa í stuttu máli aðstæðum.

Í vikunni varð Emilía mín 19 ára. Mér er allt í einu farið að líða eins og öldung að tala um stálpuð börnin sín.

Það er svo skrýtið að eldast og fatta meira og gera sér grein fyrir hlutunum. Hélt til dæmis alltaf að mig langaði að eiga sumarbústað við vatn og vera þar ein og eitthvað. Eftir sumarbústaðaferðina í Brekkuskóg veit ég að mig langar það bara ekkert lengur. Það er bara frekar mikið einmanalegt að vera aleinn í bústað og líklegast líka alveg fullt af vinnu og áhyggjum að eiga sumarbústað. Það sem skiptir máli er félagsskapurinn. 

Namaste.

 




Thursday, August 15, 2024

Mín innri húsmóðir ljómar..

 .. ekki.

Mér líður eins og það sé eins og að labba uppí móti straumþungt fljót að gera heimilið okkar fallegt og frambærilegt. Það liggur við að ég gefist upp.

Núna er ég með auðan vegg sem gapir á mig og biður mig um að setja eitthvað snoturt á sig. Stofan er svo tómleg án þess að það sé eitthvað á þessum vegg. Nú er ég enginn innanhúshönnuður en ég fer frá því að vilja hillu á vegginn fyrir plöntur yfir í að vilja málverk á hann. Sá eina hillu í Húsgagnahöllinni á 99.990 kr og svo þegar mér datt í hug málverk eftir ákveðna konu í gær kom í ljós að það myndi kosta yfir 200.000 kr.

Ástandið á stofunni núna er þannig að eins og áður er allt út um allt. Fórum í Ikea ferð við Guðrún Halla. Hef líklegast smitað barnið af því að vilja breyta svo hún fann kommóðu og gardínur í sitt herbergi sem er ástæðan fyrir því að allt er á hvolfi í stofunni sem var nú andstæðan við það sem ég vildi.

Er svona eiginlega að gefast upp á draumnum um fallegt heimili. Samt alls ekki.

Verkefni vikunnar tókst sem sagt ekki. Fórum í Ilvu og Ikea með áðurgreindum árangri. Fann ekkert á vegginn. 

Hápunktur vikunnar var þegar ég keypti fyrstu monsteruna mína og kom með hana heim. Er að fræðast um plöntuna og hef fullan hug á að hún braggist hjá mér og verði áfram. Ég veit, spennandi vika ha? En hey, ég er miðaldra introvert hugsanlega á einhvers konar rófi.

Lágpunktur vikunnar var á þriðjudaginn þegar ferðin bar ekki árangur sem skildi og veggurinn er ennþá auður. Líka að þetta verkefni er smá búið að taka mig yfir. Þarf aðeins að slaka á. Samviskusemi er dyggð en hún getur líka verið löstur þegar hlutirnir ganga ekki upp.

Social vikunnar verður um helgina með bræðrum mínum og þeirra fjölskyldum. Fjölskylduferð. Það verður gott að komast í burt frá verkefni vikunnar. Eins og sést (eins og sést eins og sést.. Þá er ég alinn upp í gaggó Vest) þá er að ég taka verkefni vikunnar of alvarlega.

Namaste. 

P.s. Mamma, þessi monstera MUN lifa hjá mér (!)



Wednesday, August 7, 2024

Öðruvísi vika

Þessi vika er mjög ólík öðrum vikum. Dæs í Eflingarbústað kallar á öðruvísi pistil vikunnar.

Ég hef ákveðið að þegar ég fer í ferðalög tek ég eitthvað með mér sem ég skil eftir. Að þessu sinni var það falleg dagbók með auðum blaðsíðum sem ég fékk á námskeiði á Bali í Indónesíu árið 2016.

Ég lærði heilmikið í þessari ferð en hef nú vaxið upp úr því. Það er mikil hreinsun í gangi jafnt hið innra sem og ytra. 

Verkefni vikunnar: átti nú að vera að mála vegginn heima en held ég nái því nú ekki þar sem ég er ekki heima. 

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég fékk að vera ein í bústaðnum á meðan fólkið mitt fór í Landmannalaugar.

Lág punktur vikunnar var þegar ég höndlaði ekki Kerlingarfjöll. Mikið rok og skelfilegur holóttur vegur setti strik í reikninginn.

Social vikunnar verður um helgina á Gay pride þegar ég geng aftur með Kittý til stuðnings Intersex.

Namaste.

Thursday, August 1, 2024

For helvede

Svavan og mín innri húsmóðir (já við erum allavegana tvær í hausnum á mér) erum ekki par sáttar með árangur verkefnis vikunnar. Eftir stendur að ég gaf mig alla í það en verkefnið reyndist mér ofviða að þessu sinni og verður því líka verkefni næstu viku.

Verkefni vikunnar var sem sagt að mála vesturvegginn að hluta, aðallega þar sem hillueining mun koma. Er frekar spennt fyrir því. Ætla svo að setja plöntur á hillueininguna. Stofan er að öll að koma til. Gerði alla grunnvinnuna sem sagt upp á tíu, juðaði meira að segja vegginn til að gera hann sléttan og setti teip þar sem það á að vera en það var allt til einskis þar sem liturinn var einfaldlega ekki rétti liturinn. Héldum að þetta væri antikhvítt sem við máluðum með fyrir 10 árum en það var bara alls ekki málið. Var svo viss um það að ég keypti tvær dollur af því blint, án þess að skoða prufurnar í Slippfélaginu. Við sjáum mynd:

! Rauk aftur í Slippfélagið með far eftir cacaobolla dagsins á munninum ennþá og keypti réttari lit. Þrjá lítra af marmarahvítu en núna þarf ég að mála allan vegginn sem er miklu meira mál og hef ekki tíma í þetta fyrr en eftir sumarbústaðaferðina. 

Social vikunnar var skrýtið. Keypti mér þriggja skipta kort í Yogashala eins og fara aftur heim en mér fannst skrýtin stemmning þar. Þetta var á mánudegi í hádeginu og allir voru fannst mér að drífa sig, eins og þeir hefðu eiginlega ekki tíma í þetta og auðvitað væri ég þannig líka ef ég hefði verið mjög upptekin á mánudaginn en ég var það ekki. Fannst ég vera fyrir næstum því. Geri mér líka fulla grein fyrir því að það er hæpið að þetta flokkist sem social en málið er að ég gerði tvö social í síðustu viku og hef bara ekki tíma í meira í þessari viku. Hitti reyndar kollega minn Emil og við ræddum saman um bransann. Fékk líka smá flashback af því hvað mér finnst bílastæðin á bakvið óþægileg. Það er oft glerbrot á þeim og mér finnst eitthvað mjög óþægilegt við það að leggja á glerbrotum.

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég fékk faðmlög frá báðum kúnnunum mínum bæði fyrir og eftir nuddið. 

Lágpunktur vikunnar var í gærmorgun þegar ég var svo þreytt eftir svefnlitla nótt. Hvað er verið að hrella miðaldra konu með túrverkjum á næturnar?

Allavega, er að elska sumarið og birtuna þó ég sé nú ekki beinlínis að faðma náttúruna sem er auðvitað það sem maður ætti að vera gera á þessum tíma árs.

Namaste.