Tuesday, November 24, 2020

Þorsti

Sem betur fer höfum við aðgang að hreinu og tæru vatni.

En núna er ég annars konar þyrst. Lífsþyrst.

Mikið ofboðslega sakna ég eðlilegs lífs allt í einu. Að knúsa og faðmast, geta nuddað eðlilega, hitt fullt af fólki. Tengjast því. Ærslast. Fíflast. Hlægja. Dansa. Kjafta. Tísta. Brosa. Tengjast.

Eðlilega. Án undirliggjandi ótta við plágu.

Grenjaði meira að segja smá í gær af tærum söknuði.

Hlakka ofboðslega mikið til að tengjast manneskjum aftur. 

Friday, November 13, 2020

Um innri togstreitur og aðra harmleiki

Mér finnst skáldagyðjan hið innra aðeins vera að rumska. Tek henni fagnandi. Var farin að óttast um hana.

Sko.

Er farin að lenda í togstreitum. Varðandi dýr. Til dæmis í veiðiferðum fjölskyldunnar. Get ekki komið nálægt því að drepa. Sem er þversagnarkennt af því að ég get svo borðað fenginn. 

Bara get ekki drepið. 

Núna er svo komið við í sögu fjölskyldunnar að ykkar kona gafst upp fyrir þrýstingi afkvæma sinna og setti pabbann í að kaupa hamstur. 

Þegar litla ljósið mitt (7 ára) var búin að suða um að fá hamstur í nokkrar vikur lofaði ég henni að ef hún yrði góð allan október myndi hún fá ósk sína uppfyllta.

Allavega, núna er dýrið komið inn á heimilið og ég er í innri togstreitu frá því í gær. 

Þetta er bara svo ónáttúrulegt finnst mér. Þarna er hamsturinn (sem Guðrún Halla skírði Nóa (kvk)) í manngerðu búri og svo sett í manngerða plastkúlu sem rúllast um íbúðina og klessir á og allir tísta gleðilega. 

Mig langar til að frelsa dýrið. Apparantly er þetta hitabeltisdýr. Hvað er það að gera hérna?! Hvernig ætli dýrinu líði? Það hlýtur að vera með togsteitu, ef til vill áfallastreituröskun.

Innri togstreita. Hugsanlega harmleikur. 

Ég er sem sagt svokallaður empath líka. 

Tuesday, November 3, 2020

Afkáralegar hugsanir konu í vatni. Vol II

þú og ég 
dropi og dropi
frá sömu uppsprettunni
í sama alheiminum
atóm og atóm
í raun gætum
við runnið saman.

Samruni gerð úr sama efni
og stjörnurnar og jörðin.
Ég og þú 
erum eitt.
Eining.



Kvöldböðin eru svo sannarlega að gefa þessi dægrin.






Monday, November 2, 2020

Æsingur

Ég er búin að æsa (eða æra) mína innri húsmóður upp.

Þar sem ég er nú orðin tímabundið fulltime húsmóðir (aftur) er ég komin með aðgerðarplan til að halda sönsum. Ég er með þema fyrir hvern mánuð og svo undirþema fyrir hverja viku. 

Október var mánuður sófans. Við fengum nýjan sófa í brúðkaupsgjöf frá foreldrum mínum en vorum aldrei búin að actually fá hann. Var því að skoða sófa og spá í sófum en komst svo að því að eins og með alkemistann þá er fjársjóðurinn oft heima. Þetta er svo frábær sófi sem við eigum og ég (við) er búin að koma mér svo vel fyrir í honum að mig langar bara ekki annan. Endaði því með að bólstra pulluna sem var "biluð."

Þema nóvembermánaðar er (tatata dam..) PLÖNTUR. Ég náði að fókusa það mikið inn á þetta þema í gærkvöldi að ég gat ekki hætt að hugsa um stangir. Mig langar nefnilega að hafa svona hangandi plöntur í hekluðu dæmi í eldhúsglugganum en .. þú veist.. í hverju eiga þær að hanga?

Bara gat ekki hætt að hugsa um þetta í gærkvöldi. Fékk stangir eða aðrar lausnir á heilann og lá bara hálf stjörf að greina þetta mál í kvöldbaði gærkvöldsins. 

Allavega, undirþema þessarar viku er ljósmyndir. Að láta framkalla myndir og setja í albúm. Halda áfram þar sem frá var horfið. Framkallaði síðast 2016!

Er merkilega spennt yfir þessum verkefnum og finnst eins og ég sé öll að lifna við. 

Dásamlegt!

(Skrifað síðar: hér má sjá árangurinn sem er kominn núna inn í eldhúsi.)