Nú er ég ekki bara að líkjast móður minni meira og meira á hverjum degi heldur er ég orðin að ömmu minni.
Emilía okkar kom með kærastann sinn í vikunni til að kynna hann fyrir gamla settinu. Það var nú ágætlega taugastrekkjandi þar sem drengurinn, já eða maðurinn, er 27 ára en hún bara 19 ára. Maður var kannski með einhverja fyrirframgefna fordóma en okkur leist bara vel á gripinn.
Eftir matinn settumst við í sófann og hann var með vatnsglas sem hann setti auðvitað á sófaborðið. Nýja sófaborðið. Rauk til og náði í glasamottu. Auðvitað. Áttaði mig svo á því að amma mín gerði alltaf slíkt hið sama, ekki bara þegar ég var að kynna Svan fyrir henni heldur alltaf. Nafna amma mín Svava.
Líður líka eins og sé gömul. Alla vega eldri en í gær og eldri en í fyrradag.
Vikan var alls konar. Á miðvikudeginum leið mér eins og súperkonu. Hafði óvart sofið mjög vel. Í gær leið mér hræðilega. Hafði óvart sofið mjög illa. En þetta er lífið; rússibanareið. Verð sífellt vör við það að ég væri ekkert hæf í fulla vinnu. Horfi á fólk sem gerir þetta á hverjum virkum degi; fer í vinnuna og er 08-16. Skil ekkert. Ég er þjáð a.m.k. einu sinnu í viku. Ræð ekkert við það. Í vikunni var það túrverkur sem hélt vöku fyrir mér mestalla nóttina. Átti í stökustu vandræðum með allt daginn eftir vegna þessa. Hefði engan veginn verið hæf í vinnu. Þetta kemur allt í einu bara.
Verkefni vikunnar var nú samt sem áður að hafa ferilskrá og kynningarbréf klárt. Líka að kaupa bekkjarmyndina frá Hlíðaskóla frá því að Stefán útskrifaðist í fyrra. Voða skrýtið að hún eigi að kosta 9.590 kr samt. Finnst það fulldýrt og er að fatta að það verkefni er ófrágengið. Veigra mér alltaf að hringja í fyrirtæki.
Hápunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar mér fannst ég hafa sigrað heiminn.
Lágpunktur vikunnar var í gær þegar allt var erfitt. Stórfurðulegur dagur. Það hafa ekki það margir samband við mig daglega en í gær hafði ég varla undan að svara vinkonum. Veisla samt.
Namaste.
No comments:
Post a Comment