Thursday, November 17, 2022

Óður til konu

Hún býr í sömu blokk og ég. 

Margt er hægt að lesa úr fasi fólks; hvernig það labbar og ber sig.

Ég sé út um eldhúsgluggann hvernig hún labbar rösklega í bílinn og svo úr bílnum þegar hún kemur heim. 

Það er ekkert hik, hún labbar rösklega. Ekkert kjaftæði. 

Mest elska ég þegar bíllinn er varla stoppaður í stæðinu. Hún er komin út úr honum og búin að læsa. 

Ég vildi að ég væri meira eins og hún.

Sjálf hangi ég í símanum í bílnum þegar ég er búin ad leggja heima. Nenni ekki inn strax. Labba svo, allt annað en rösklega, því ég þarf náttúrulega að yfirfara bílinn. Athuga hvort allar rúður séu uppi og hvort bíllinn sé í handbremsu og svo líka hvernig bílnum líður í stæðinu. Myndi aldrei getað skilið við hann ef dekkin væru upp á kanti eða eitthvað svoleiðis. Nú, svo tekur við að læsa bílnum. Þarf að horfa á ljósin blikka læst. Nokkrum sinnum.

Hún er hjúkrunarfræðingur. Auðvitað. Elska hjúkrunarfræðinga. Þetta er no bullshit fólk. Áfram gakk af einbeitingu, áræðni og síðast en ekki síst brosi og manngæsku.

Ljósmóðirin sem tók á móti Guðrúnu Höllu var svona. Ung, áræðin og einbeitt kona. 

Blessi ykkur.



No comments: