Thursday, June 1, 2023

Léttir


Brian Tracy skrifar um yfirvitundina í bók sinni Hámarksárangur.

Um daginn, 9.mars minnir mig, tók mín yfir. Ég sá auglýsingu um ferð til Bali á vegum súkkulaðisetursins Móa. Myndirnar voru guðdómlegar og þegar heilinn minn sá að hægt var að velja einstaklingsherbergi gerðist eitthvað. Það var þá sem hún tók yfir, yfirvitundin.

Allt gerðist þetta sjálfkrafa, það var ekki ég sem bókaði mig í ferðina og greiddi staðfestingargjaldið. Það var yfirvitundin sem stýrði mér.

Þetta var dáldið svona meant to be. Ég var tilbúin með einmitt þessa upphæð fyrir einmitt eitthvað svona.

Strax daginn eftir fór ég að efast. Innistæðan í lífinu fyrir svona ferð til Bali var ekki fyrir hendi. Sirka 10 daga ferð.

Ég hef líka farið tvisvar áður til Bali! Er eiginlega búin með Bali. Mikill raki, mengað vatn og maður þarf að passa allt sem maður borðar. Guðdómleg birta hins vegar og allt hefur guðlega ásjón. Fróðlegt að fylgjast með Hindú trúarbrögðunum. Það er til dæmis engin hætta á að vera rændur þarna. Allir eru brosandi og glaðir. 

Yndislegt en búið.

Að standa við þessa skuldbindingu mína og borga afganginn og fara aftur alla þessa leið hinum megin á hnöttinn var farið að íþyngja mér. Var farin að hafa áhyggjur af þessu. Aftur, innistæðan var engin fyrir þessari ferð. Langar að komast aðeins burtu en kannski bara eitthvað aðeins nær. Þetta þarf ekki að vera svona dramatískt. 

Það var því mikill léttir þegar ég fékk tölvupóst í morgun þar sem tilkynnt var að búið sé að hætta við ferðina. Efnahagsmálin eru einmitt eitthvað skrýtin bara svona yfir höfuð þessa mánuði.

Ég hafði spurt deginum áður og þá var ferðin ennþá on.

Gaman og gott að vera svona létt. 

Phew!

No comments: