Monday, May 28, 2012

óafsakanlegt.

Í síðustu viku fór ég í sveitarferð með leikskóla yngri sonar míns. Það er svo sem ekki í frásögur færandi en það sem truflaði mig mikið eftir yndislega ferð í sveitina var þegar rútubílstjórinn svaraði gemsanum sínum þrátt fyrir að vera á fullu spani inn í Mosfellsbæ með fulla rútu af börnum og fullorðnum.

Maðurinn þakkaði þeim sem hringdi innilega fyrir að hringja. Þetta var greinilega kunningi eða vinur og hann var ekkert að biðja viðkomandi að hringja seinna eða neitt. Þú veist af því að hann var að keyra með FULLA RÚTU AF FÓLKI. Mér finnst þessi ákveðni rútubílstjóri hafa sýnt af sér ekki bara mikið dómgreindarleysi heldur einfaldlega mikla heimsku líka.

Mér varð hugsað til mjög eftirminnilegs þáttar Oprah Winfrey sem hún helgaði málefninu. Það sem stóð mest í mér og örugglega fleirum var margra mínútna myndskeið sem hún sýndi af brosandi andlitum. Myndum af fullt af börnum, unglingum, konum, ungum mönnum og alls konar fólki sem átti það eitt sameiginlegt að hafa látið lífið vegna þess að ökumaður bíls sem þau voru farþegar í var að tala í símann meðan hann var að keyra og það orsakaði bílslys. Dauðaslys.

Seinna í þættinum sýndi hún annað nokkura mínútna myndskeið af börnum, unglingum, konum, ungum mönnum og alls konar fólki sem átti það eitt sameiginlegt að hafa látið lífið vegna þess að ökumaður bíls sem þau voru farþegar í var að senda sms og það orsakaði bílslys. Dauðaslys.

Og hvað með allt fólkið sem situr eftir eyðilagt eftir öll þessi dauðaslys? Er í alvörunni þess virði að svara símtali akkúrat þegar það berst eða sms-i?

Ég fatta eiginlega ekki af hverju ég er ekki búin að hringja eitthvert og kvarta yfir þessu. Kannski, bara kannski, gæti það eitt bjargað mannslífi?

Hver veit?

(myndina fann ég hjá vini mínum honum Google. Þetta er ekki mynd af þeim bílstjóra sem ég er að vísa í.)

No comments: