Ég er svo þakklát fyrir podcöst á þessum tímum þar sem við höfum allt í einu fullt af tíma (oft lendi ég í tímaþröng samt.)
Ég er sérstaklega þakklát fyrir podcastið hans Sölva Tryggvasonar. Það hefur gefið mér svo mikið. Bæði hlátur og grátur og svo allt þar á milli.
Eins og gengur og gerist tengi ég betur við suma sem koma til hans en aðra. Eitt af eftirminnilegustu podcöstunum hingað til fyrir mig er með Ólafi Stefánssyni. Reyndar kemst viðtalið við Bubba nálægt því. Óli er einhyrningur eins og ég, þess vegna tengi ég við flest af því sem hann segir. Ég er búin að hlusta á síðustu 5 mínúturnar af podcastinu nokkrum sinnum. Þar talar hann um hvað það er mikilvægt að bera ábyrgð á gleðinni sinni. Leyfa engum að taka hana. Ef einhver rænir hjartanu þínu er ábyrgðin þín. Af því að þú leyfðir honum það. Hann brennur fyrir því að kenna krökkum þetta. Mér finnst hann mikill meistari.
Mér fannst viðtalið við Magnús Sceving vera mjög flott líka. Þar hló ég og grét. Maður áttar sig ekki alveg á hvað þetta Latarbæjar dæmi var stórt allt saman. Huge. Big in Mexico og allt. Hann var beðinn um að koma í búningnum á spítala til deyjandi barna og já, það var á þeim tímapunkti í viðtalinu sem ykkar kona fór að vatna músum.
Ég dáist svo að eldmóðinum hans Magnúsar og vil svo innilega vera þar. Er meira að segja að drekka hippa te, yogate sem leggur áherslu á orkustöð númer tvö, sköpunarstöðina. Vona það besta:)
Já, mér fannst sérstaklega eitt merkilegt sem hr. Sceving sagði og það varðar snertingu. Auðvitað þurfa allir snertingu en það var rosalega áhugavert hvernig hann útskýrði að fyrst fær nýfætt barn fullt af snertingu frá foreldrunum. Svo hættir það að fá snertingu þaðan um táningsaldur og þess vegna fara t.d. strákar að slást og stelpur saman á klósettið eða eitthvað og svo byrjar allt að snúast ómeðvitað að fá næstu snertingu og þá fer útlitið að skipta svo miklu máli. Svo fer allt til andskotans ef ekki fæst snerting.

Já, hann kom mér á óvart. Merkilegt að bæði hann og Óli Stef brenna fyrir að bæta menntakerfið. Bubbi reyndar líka og Jónas Sig, Margrét Pála og líklega fleiri. Hlustaði á viðtalið við Bubba aftur núna og er að tengja mikið við það. Finnst eins og við eigum eitthvað sameiginlegt. Einhvern sameiginlegan flöt. Skil svo vel skyggðu gleraugun núna. Er farin að vera með svona sjálf. Við þolum illa manngerðu ljósin nema þau séu vel dempuð. Rússneskar perur eru eini óvinir okkar. Elska hvað Bubbi er orðin andlegur. Líklegt að hann sé Highly sensitive person. Hver veit.
Allavegana, elska þáttinn með Ellý Ármanns, Jóhannes Kr. (þar grét ég), Jónínu Ben, Mikael Torfasyni, Frosta, Erp, Maríu Birtu, Ágústu Johnsen, tala nú ekki um Lindu P., Jónas Sig, Bjössa í Mínus, Ólaf Darra, Margréti Pálu og alla þættina sem ég hef hlustað á. Horfi ekki á þá sem ég tengi ekki við.
Mæli heils hugar með. Hressir, bætir, kætir.
Hann er greinilega beintengdur núna hann Sölvi.
No comments:
Post a Comment