Wednesday, August 20, 2025

Eitur í mínum beinum

 Nokkur orð um frekju og yfirgang.

Þoli ekki frekju og yfirgang. Ekki það að aðrir geri það en mér líður eins og aðrir höndli það miklu betur en ég. Verð vör við þetta víða; Á vinnustöðum, í stjórnmálum, viðskiptalífinu, í fjölskyldum, fjölbýlishúsum, á húsfundum, félagasamtökum.. Umferðin er frábært dæmi. Hver hefur ekki lent í frekju og yfirgangi þar? Ansi víða sem sagt og út um allt. 

Það er erfitt að útskýra hvað gerist innra með mér þegar ég upplifi frekju og yfirgang. Ætli það sé ekki minn innri sósíalisti sem fyrst vill öskra í allar áttir en koðnar svo niður og deyr í einhvers konar særindum og leiðindum. 

Sú staðreynd að sá sem er frekastur og með mesta yfirganginn vinnur oftast mun að eilífu æra mig. 

Hvernig get ég fundið frið í sálinni í kringum fólk eða fjölskyldumeðlimi sem eru með frekju og yfirgang? 

Mesta frekjan og yfirgangurinn sem ég hef upplifað var þegar ég var heima í fæðingarorlofi með Guðrúnu Höllu veturinn 2013-2014 og manneskjum hinum megin í blokkinni sáu ekkert athugavert við það að mótor sem var staðsettur beint fyrir neðan svefnherbergið mitt ylli mér sálrænu ónæði allan sólarhringinn. Hann hélt kælipressunni gangandi svo þau gætu verið með svona walk in ísskáp. (Eða var mótorinn sjálf kælipressan?) Þegar blokkin var byggð um 1955 voru ekki til ísskápar svo mikið svo þetta var gert. Útbúið kælirými sem hægt var að labba inn í. Það er svipuð blokk í Eskihlíð víst með sama kerfi. Árið 2013 var þetta löngu úrelt og flestir búnir að gera eitthvað allt annað við þessi rými nema nokkrar sálir hinum megin sem virtust standa á sama um geðheilsu mína. Sem betur fer vann ég mál gegn þeim hjá kærunefnd húsamála því þessi læti voru bókstaflega að gera mig geðveika.

Ég mun að eilífu halda með fólki sem verður fyrir ónæði, frekju og yfirgangi og að eilífu vera í nöp við og ekki tengja við fólk sem er með frekju og yfirgang. Tala nú ekki um ef þau valda ónæði.

Namaste.

No comments: