Monday, July 1, 2013

Hugleiðingar um lýðræði

Eftirfarandi eru hugleiðingar mínar um lýðræði. Þetta eru hugsanir um annan valkost en núverandi stjórnarfyrirkomulag. Ekki til að taka of alvarlega! En ætli ég sé sú eina sem orðin frekar þreytt á þessum valdablokkum og sandkassaleik þarna á Alþingi...?

Ísland er lýðræðisríki. Ætli við getum ekki öll verið sammála um það.

En hvað felst í orðinu lýðræði? Lýðurinn ræður. Fólkið ræður. Kjósendur ráða.

Að mínu viti eru núverandi stjórnarhættir ekki mjög lýðræðislegir. Á árunum fyrir hrun var Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn þrátt fyrir að vera aðeins með um 11,7% fylgi árið 2007. Þetta finnst mér ekki vera lýðræði. Flokkurinn hafði aðeins fylgi 11,7% þjóðarinnar á bakvið sig en sat samt sem áður í ríkisstjórn með sína ráðherra og gerði fjölmörg mistök.

Siv Friðleifsdóttir hunsaði álit um náttúruverndarsjónarmið og gerði Kárahnjúkavirkjun að veruleika. Virkjunin var skammtímalausn í þeirri viðleitni að auka hagvöxt. Árangurinn er líflaust Lagarfljót. Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi viðskipta- og efnahagsráðherra, afhenti Landsbankann í hendurnar á útrásarvíkingi með þeim afleiðingum að bankinn fór á hausinn - og Ísland líka. Framsóknarflokkurinn átti líka sinn þátt í því að koma 90% húsnæðislánunum á árunum fyrir hrun sem átti svo sinn þátt í hruninu.

Það sem ég er að reyna að segja er að á tímum þar sem traust almennings á stjórnmálaflokka og Alþingi hefur sjaldan eða aldrei verið minna er kannski tími kominn til að hugsa aðeins út fyrir kassann. Hvernig væri að hafa meira beint lýðræði í lýðræðisríkinu Íslandi og hafa fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur? Gefa pólitíkinni frí og leyfa vel gefnum fræðimönnum að vinna á Alþingi sem er jú löggjafarsamkunda. Út með hagsmunatengsl, hagsmunapot, valdablokkir, valdabaráttu, baktjaldamakk og inn með akademískt hlutleysi þar sem besti mögulegi valkosturinn er valinn að vel ígrunduðu máli hverju sinni. Já?

Í alþingiskosningunum á þessu ári heyrði ég minnst á þá hugmynd að hafa landið eitt kjördæmi og hefja hér persónukosningar. Mér finnst áhugavert að ræða um þessa hugmynd. Markmiðið hlýtur að vera að lágmarka hagsmunatengsl og spillingu. Af hverju ekki að ímynda sér í smá stund að það væru engir stjórnmálaflokkar heldur bara einstaklingar í framboði. Reglur yrðu settar um styrki, þ.e.a.s. að ekki væri heimilt að styrkja hvern kandidat nema að ákveðnu marki og frambjóðendur mættu ekki auglýsa sig sérstaklega heldur fengju allir sömu kynninguna. Fjórða valdið (fjölmiðlar) yrðu fljótir að upplýsa kjósendur um hvers kyns spillingu. Alþingi yrði þá ópólitísk embættismannastofnun þar sem fræðimenn ynnu og ríkisstjórnin yrði líka einstaklingskjörnir af þjóðinni. Ég sé fyrir mér að þá myndi hæfasta fólkið á hverju sviði hverju sinni vera í framboði (frambjóðendur til umhverfisráðherra myndu þá vera fróðasta fólkið á því sviði o.s.frv.) Það virðist ekki vera mikið vit í því að stjórnmálamenn í stjórnmálaflokkum raðist í ráðherrastólana eftir úrslitum alþingiskosninga eins og er núna. Þannig veljast núna menn í ráðherrastólana sem hafa ekki endilega þekkinguna á bakvið sig.

Í þessari útópíuhugsjón minni þá eru engar valdablokkir en fullt gegnsæi. Allt er upp á borðinu - alltaf. Engir leynifundir og engar ákvarðanir teknar í reykmettuðum bakherbergjum, já eða í gufunni..

Í þessari hugsjón minni eru ekki vinstri og hægri stjórnir. Það virðist ekki vera mikið vit í því að það sé til dæmis hægri stjórn. Svo gerir hún upp á bak og þá er kostin vinstri stjórn sem eyðir auðvitað kjörtímabilinu í að gera hlutina eftir sínu höfði. Þá eru aftur kosningar og hægri stjórn er kosin sem fer beint í að breyta því sem vinstri stjórnin var að vinna að. Gott dæmi er ESB aðildarviðræðurnar. Mig langar ekki einu sinni að vita hversu miklu af peningunum okkar var eytt í þessar viðræður sem eru svo bara blásnar af þegar næsta stjórn tekur við.

Þvílík endemis peninga-og orkusóun sem núverandi stjórnarhættir eru. Ísland myndi vera betur statt án pólitíkarinnar. Eða það er allavegana mitt álit. Ég held að hlutlausir, óháðir og óflokksbundnir fræðimenn í öll embætti sé alveg málið.

Yes, yes?

No comments: