Það rættist nú aldeilis úr gærdeginum.
Útlitið var alls ekki gott. Það var mígandi rigning úti, strákarnir voru búnir að vera í tölvunni allan daginn og voru erfiðir. Eftir bílferð út á Sorpu og í Bónus var ástandið bara verra, allir frekar þreyttir og pirraðir.
Skynsamir foreldrar sáu að drengirnir þurftu á útrás að halda og það kom í minn hlut að fara með þá í hjólatúr. Í grenjandi rigningunni. Ég ákvað að ferðinni skyldi haldið niðrí Vatnsmýri til að skoða sirkustjöldin. Leiðin þangað var fyrirsjáanleg. Eftir að hafa dottið fimm sinnum langaði mínum fimm ára heim og bar sig illa. En einhvern veginn komumst við á áfangastað. Rigningin hélt bara áfram og við vorum blaut frá toppi til táar og ég var sérstaklega blautt á rassinum og sokkarnir mínir voru gegnsósa (seinna kom í ljós að sólarnir eru lausir svo það er skýringin á því.)
Allavegana, ég ákveð í örvæntingu minni að kaupa miða á næstu sýningu, liggur við bara til að komast einhvers staðar inn! Hugsaði með mér þvílíkt endæmis vesen ég væri búin að koma mér í þegar ég komst að því að miðinn kostaði 4000 kr Á MANN og ég hafði enga hugmynd hvar ég ætti að geyma hlaupahjólið hans Óla og hjólið hans Stefáns á meðan..
(But out of my great despair came divinity.) Allt reddaðist þetta á endanum. Eftir að hafa staðið í röð (úti) til að kaupa poppkorn og candyfloss fyrir strákana og svo í annarri röð (líka úti) eftir að komast inn í sirkustjaldið til að sjá sýninguna tóku notalegheitin við. Ég er sannfærð um að englarnir sem fylgja mér sáu til þess að Óli minn sá laus sæti fremst til hliðar af því að það kom í ljós að blásarinn (eða hvað dótið heitir) sem sér um að blása hlýju lofti í tjaldið var akkúrat á besta stað fyrir okkur til að hlýja okkur. Ef við hefðum verið einu sæti til vinstri þá hefði allur hitinn farið á okkur og þetta hefði verið allt of heitt en ef við hefðum verið einu sæti til hægri þá hefðum við misst af hitanum. Tjaldið var smekkfullt svo það var frábært að fá akkúrat þessi sæti.
Sýningin var svo líka æðisleg og hélt athygli okkar allan tímann. Við hlógum og skemmtum okkur mjög vel. Þetta var ekki síður gaman fyrir mig en strákana. Þetta er finnskur sirkushópur sem samanstóð af ungum krökkum. Sýningin hét pluto cracy. Þetta var alveg frábært. Svo glöð með hvernig dagurinn endaði!
Það var reyndar smá panik eftir sýninguna þar sem ég hélt að hjólinu hans Stefáns hefði verið stolið en ég hafði fengið að geyma það upp við miðasöluna og hlaupahjólið hans Óla inni í miðasölunni en þá var Svanur, sem var kominn til að sækja okkur, búinn að setja það inn í bílinn (phew..!)
Ég átti nefnilega ekki von á að komast á sýningu þar sem ég hafði verið á midi.is fyrr um daginn og bara fundið miða fyrir næstu helgi (sem ég reyndar keypti líka) og hélt þess vegna að allt væri uppselt eða eitthvað.
Það er alveg frábært að sirkusinn er í bænum akkúrat þegar það er rigning og svona og skólarnir í frí og manni bráðvantar eitthvað að gera fyrir börnin. Snilld.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment