Wednesday, November 29, 2017

lasarus

Mér finnst skrýtið að ég heyrði þetta orð ekki fyrr en fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er nýtt orð fyrir mér og mér finnst það skrýtið. En þetta er það sem ég er þessa dagana. Lasarus.

Ég vaknaði á sunnudagsmorguninn og leið eins og ég hefði klesst á vegg. Mjög slöpp og þungt fyrir brjóstinu. Er búin að vera með slím að koma upp og neðri öndunarfærin ekki góð. Það var ekki fyrr en í gær í hádeginu þegar ég fór í heitan sal í yogatíma að mér leið aðeins betur í öndunarfærunum. Þá komst hiti í lungun og .... mig langar til heitari landa. Þá liði mér ekki eins og ég sé með lungnabólgu.

Mér sem sagt líður eins og ég sé með lungnabólgu en ég held að það geti eiginlega ekki verið. Allavegana, ég held að mér líði aðeins betur. Þegar ég vaknaði í morgun leið mér ekki eins og ég hafi lent í árekstri eða eitthvað. Vona að þetta sé allt að koma.

Ég er veik heima í dag. Á að vera á 8-13 vakt en hringdi í vinnuna eftir yogatímann í gær og tilkynnti áframhaldandi veikindi. Það er mjög óþægilegt að vera svona manneskja sem er bara eitt stórt samviskubit oft á tíðum. Mér finnst óþægilegt að hringja í vinnuna og tilkynna veikindi. Manni líður eins og maður sé að bregðast heildinni, sem sagt að nú þurfi að redda manneskju á vaktina og jadijadi.. Eins og vanalega var ég búin að ofhugsa málið, var að forðast þetta símtal en í endann á yogatímanum bauð Ingibjörg okkur að draga miða upp úr skál og setja svo bara aftur í. Ég gerði þetta og viti menn... hvað stóð á mínum miða?

Let go of thinking.

Ég brosti úr í annað, þessi skilaboð áttu svo vel við. Eftir tímann fór ég út í bíl, hringdi þessa blessaða símtal og fór heim og hélt áfram að vera veik.

P.s. Það truflar mig af og til að vera með tvær háskólagráður en að vera starfa í vinnu sem krefst ekki menntunar. Auðvitað. Þegar ég hef verið spurð út í þetta í vinnunni hef ég bent á eins og er að ég hafi útskrifast í maí 2007 og svo kom hrunið. Það var enga vinnu að fá. Fólk flutti til Noregs. Það var ekki fyrr en í maí 2010 að ég fékk vinnu og var þá búin að sækja um vinnu á dag í lengri tíma. Það breytir samt ekki því að lífsviðhorf mitt hefur breyst svo mikið. Ég er ekki tilbúin lengur að fórna mér í vinnu. Eins og staðan er núna langar mig ekki í meira en 50% starf þar sem ég er með 6 manna fjölskyldu sem er bara eins og er heilmikill pakki. Ég stefni ekki á að starfa sem nuddari 100% vinnu. Mig langar til að vinna einhvers staðar 50% og starfa svo sem nuddari 50%. Ég myndi ekki funkera að nudda mörg nudd á dag allan daginn. Þá myndi ég brenna út á tveimur árum líklegast.

P.p.s. Ég held líka að ástæða þess að mér líður oftast vel í núverandi vinnu minni á hjúkrunarheimili við umönnun aldraðra er skjólstæðingar mínir eru ekki kröfuharðir. Þeir eru alltaf ánægðir að sjá mig, búast ekki við neinu frá mér og eru alltaf ánægðir með störf mín. Ætli mér líði ekki bara mjög vel með börnum (í takmarkaðan tíma) og öldruðum. Það er ekki þessa endalausa krafa um afköst, titla, árangur og gæði og afköst. Ég hef aldrei höndlað það mjög vel. Þoli ekki stress og fíla illa þá sem búa til stress í aðstæðum þar sem það er ekki við hæfi.

No comments: