Monday, December 31, 2018

Bali (vibes)

Nú er örvæntingarfulla húsmóðirin okkar allra komin til Bali.

Hér er gott að vera. Það er reyndar full heitt fyrir hjónakornin en allt gasalega fallegt og framandi. Sé núna að vinsælu bali blómin sem ég kom heim með úr síðustu ferð vaxa hérna á trjánum. Eftirmyndin þ.e.a.s. hitt er plast.

Ferðalagið hingað var langt og strangt og ansi krefjandi. Fyrsta flugið var ekkert mál. Lítið mál að fljúga til Heathrow. Þegar þangað var komið fór okkar kona í kleinu þegar hún sá að fluginu til Qatar hafði verið frestað umtalsvert. Vafi lék á að við myndum ná tengifluginu okkar til Bali þá.

Allavegana, eftir margra klukkustunda bið kom í ljós að seinkunin var það mikil að við misstum af fluginu til Bali ásamt öðru fólki.

Skiptir ekki svo miklu máli. Náðum næsta flugi. Við erum allavega hér að njóta. Svavan fær nudd og fór meira að segja í ashtanga leiddan tíma í morgun og þá er hún sátt.

Bali vibes eru að ná mér og við erum að venjast hitanum sem er aðeins meiri en við eigum að kynnast. Erum líka að rétta sólarhringinn af ennþá og jafna okkur eftir 37 tíma ferðalagið.

Gaman að upplifa öðruvísi áramót svona einu sinni:)

Takk elsku mamma fyrir að vera með krakkana og gera þetta mögulegt 😘


Thursday, December 27, 2018

Jólakort

Undarleg gerjun sem á sér stað varðandi jólakort.

Ég held að þau séu að detta úr móð! Fékk bara eitt stykki í ár. Eitt! Í fyrra gat ég hengt þau upp á band með dúllulegum jólaklemmum og látið þau hanga á milli ljósanna heima.

Ég sendi mín út en er farin að finna fyrir því að vinsældirnar eru ekki svo miklar. Er farin að afsaka jólakortin við frændur mína erlendis. Held að þeir séu lítt spenntir.

Á maður í alvörunni bara að sleppa þessu?


Tuesday, December 18, 2018

Tíbeskar söngskálar (singing bowls)

Í dag fékk ég afmælisgjöfina frá mér til mín.

Fór í svona sound healing. Einka cacao dæmi þar sem Arnór í Rope yoga setrinu leiddi mig í gegnum hugleiðslu og zen-aði mig svo með því að umkringja mig með tíbeskum söngskálum og sló svo í þær með þess til gerðum kjuða. Ég lá auðvitað eins og skata á meðan með teppi og yfir augunum á meðan:)

Náði að slaka vel á og njóta. Tókum Wim Hof öndun til að endurstilla frumurnar og festa ásetninginn.

Elska svona.

Takk ég:)


Sunday, December 9, 2018

Abba

Örvæntingarfulla húsmóðirin okkar er búin að vera með Abba á heilanum í um 4 vikur núna.

Þvílíkur gleðigjafi sem Abba er. Kemst undantekningarlaust í gott skap þegar ég hlusta á Abba.

Að labba í skólann með þessa gleðigjafa í eyrunum er líka frábær leið til að byrja daginn:)

                        Thank you for the music, for giving it to me ❤

🙏


Friday, November 23, 2018

Slitrur úr degi móður

Ég sit á miðri bekkjarskemmtun í Hlíðaskóla hjá miðjunni (10 ára) þegar mér fara að berast sms frá frumburðinum (16 ára.) Stefán Máni er að fara með leiksigur á sviðinu fyrir framan fullan sal af fólki og ég er að taka það upp á símann. Hann og bekkjarfélagar hans eru búin að æfa leikritið í allt haust svo þetta er ákveðinn hápunktur.

"Mamma
Hvenær er leikritið búið??
Er að fara keppa og gleymdi takkaskónum
Er í Leikni"

Sko. Leiknir er í Breiðholti.

Barnið sem sagt þarf takkaskóna í einum grænum og er uppí Breiðholti. Hvar Leiknir er, veit ég ekki. Skórnir eru heima.

Síðar um kvöldið þegar ég, sem er svo stolt af því að muna eftir að það er vasaljósadagur á leikskólanum daginn eftir, finn vasaljósið kemst ég að því að það er batteríslaust. Kl. er 22.






Tuesday, November 20, 2018

Lumma á hlaupum

Stundum fer örvæntingarfulla húsmóðir okkar út úr húsi án þess að spá í heildarlúkkinu á sjálfri sér.

Þetta gerðist í dag. Fór út að hlaupa í svo asnalegri múnderingu að það flokkast auðveldlega undir tískuslys.

Til að passa að mér yrði ekki kalt var ég í þykku leggingsunum sem ég er alltaf í en sko neðri hlutinn var bara þannig plús skór. Á efri hluta búksins var ég bara klædd í mittissíða slitna lopapeysu (svarta og hvíta). Svo var ég með eyrnaskjól og í fjólubláu vettlingunum mínum.

Sko, það asnalega við þessa múnderingu var það að það var ekkert yfir mittinu og rassinum skiljiði, bara asnalegt munstrið á sokkubuxunum/leggingsunum.

Æ, you had to be there..

Later:)

Friday, November 9, 2018

Oh happy day:)

Í dag í skólanum vorum við að deila með hvort öðru starfskenningum okkar, þ.e.a.s. sýn okkar á nuddstarfið, hvaðan við erum að koma, bakgrunnur okkar og hvernig við viljum starfa. Flest okkar deildum tilfinningum okkar og sögum. Svo var tekin æfing þar sem við horfðumst í augu og föðmuðumst. Síðan æfðum við hliðarnudd.

Ég held að ég sé í himnaríki.

Wednesday, November 7, 2018

A confession from a desperate housewife

Þáttaröðin Hversdagsreglur er skemmtileg þáttaröð sem leggur línurnar um ýmislegt í mannlegum samskiptum. Þetta eru þættir þar sem margvísleg málefni eru tekin fyrir og svo er sett regla um málið í enda þáttarins. Dæmi: eiga Íslendingar að heilsast í útlöndum? Komist var að þeirri niðurstöðu að það þyrfti ekki að heilsast ef við erum á fjölförnum ferðamannastöðum í t.d. Evrópu en ef Íslendingar hittast t.d. í Asíu eða Afríku þá ber þeim að heilsast.


Annað málefni var hvenær ber manni að skila því sem maður fær lánað hjá nágrannanum. Komist var að þeirri niðurstöðu að ef um væri að ræða undir t.d. líter af mjólk þyrfti maður ekki að skila.


Allavegana, ung kona hér í borg var ekki að eiga sinn besta dag í dag. Eiginmaður hennar hafði ákveðið að nota Hue ljósið til að vakna í morgun (nótt) og hafði samstillt það vekjaraklukkunni svo blessuð ljósaperan í svefnherberginu fór að líkja eftir sólarupprás of snemma fyrir hennar smekk eða kl 06:38. Hún veit þetta því þetta var tíminn sem hún vaknaði vegna ljóssins.

Eftir skólann var konan mætt til kírópraktorsins dauðþreytt og með maskarann niður á kinnar. Þetta vissi hún ekki fyrr en seinna. Verandi í nuddskólanum hafði maskarinn farið út um allt þegar hún var að þiggja smá nudd. Allavegana, verandi hálf pirruð fer hún að spyrja út í tímann sinn þegar hún er búin að bíða í korter. Þetta er kannski en kannski ekki ég sjálf. Stuttu eftir það kemst hún loksins að, lítur loks í spegil og sér að maskarinn er í þremur lögum undir augunum. Útlitið var skelfilegt sem sagt.

Mín spurning sem ég beini til Hversdagsreglna er sem sagt (þættirnir eru hættir en ég segi bara svona): hvenær látum við hvort annað vita þegar svona lagað er í gangi? Ef við sjáum að manneskjan sem við erum að tala við er með lafandi hor eða með einhvers konar klessu á andlitinu, t.d. maskaraklessur, eigum við að láta hana vita eða ekki?

Mitt atkvæði er: JÁ 


Monday, October 29, 2018

og ég sem ætlaði aldrei aftur í skóla...

... sit nú hérna og geri skýrslur. Skil ekki á morgun heldur hinn.

Fyrstu dagarnir í nuddskólanum voru svo yndislegir. Engar áhyggjur, engin verkefnaskil, engar kynningar. Bara gefa nudd og fá nudd og brosa.

Þetta er nú reyndar tímabundið. Nú er klassíska nuddið búið. Prófið búið og ritgerðin búin. Svæðanuddið er líka að klárast. Vorum í prófi í morgun og skil á verkefnum á miðvikudaginn. Við tekur sogæðanudd (sem er víst frekar umfangsmikið) og að klára inngang að heilsunuddi.

Ef þetta væri bara eins einfalt og að fá nudd og gefa nudd alla daga, ha?

Væl búið.

Later;)

Monday, October 8, 2018

Lífið er nudd

Í dag lærði ég meira um svæðanudd, gaf svæðanudd og þáði svæðanudd. Svo fór ég í nudd þar sem það er eitt verkefnið í skólanum. Að fara í nudd og skrifa ritgerð um upplifunina.

Ég er því nokkuð slök í dag:)

Kannski of slök meira að segja. Dæs

Wednesday, October 3, 2018

Ó ljúfa líf!

Frá og með deginum í gær er þessi (örvæntingarfulla) húsmóðir ekki með kerrubarn. Jahú!!

Eftir hrókeringar í íbúðinni þar sem Óli (16 ára) fékk innra barnaherbergið alfarið fyrir sjálfan sig vantaði okkur pláss fyrir alls konar dót í geymslunni. Þar sem Guðrún Halla (5 ára) var búin að segja nokkrum sinnum að hún vill ekki nota kerruna lengur ákvað ég að losa mig við hana. Auglýsti hana á "Gefins, allt gefins" síðunni á facebook og hún var farin á 0,1 eins og maður segir.

Fyrir sjálfan mig var þetta stór stund þar sem þetta færir mig einu skrefi nær því að komast aðeins meira út af heimilinu þar sem börnin eru að eldast og verða meira sjálfstæðari. Það að vera ekki með kerrubarn þýðir minna vesen og að börnin eru að vaxa úr grasi.

Allavegana, annað svona "milestone" átti sér stað í dag þegar Stefán Máni (10 ára) fékk leyfi hjá mér til að ná í Guðrúnu Höllu á leikskólann. !! Gæti verið, eftir rúm 15 ár af því að sækja alltaf kl. 16, að örvæntingarfulla húsmóðirin okkar sé við það að losna við það?

Ekki misskilja. Ég elska börnin mín út af lífinu. En næstum 16 ár af því að eftirmiðdagurinn snúist um að sækja kl 16 er kvöð.

Frelsi, frelsi, ég sé þig við sjónarrönd. Komdu, komdu, komdu nú.

: D

Saturday, September 22, 2018

Andagift

Oh, það sem lífið hefur upp á að bjóða:)

Var búin að vera lengi á leiðinni að prufa að fara í tónheilun og djúpslökun, tíma sem er í boði í stundaskrá Andagiftar. Fór loksins í morgun með Beggu vinkonu og sé ekki eftir því.

Tvær seiðkonur tóku á móti okkur og létu okkur líða vel frá fyrstu stundu. Við tók ævintýri hugleiðslna, óma, möntrusöngva, djúpslökunar og ekki síst blessað cacao-ið.

Það sem þetta cacao hefur gefið mér mikið í formi vellíðunar og slökunar.

Allavegana, fór hoppandi glöð þarna út og sé bjart framundan. Klárlega eitthvað sem ég kem til með að gera aftur fyrir sjálfa mig.

If you want to be enlightened, lighten up. (Keith/Tinna)


Friday, August 24, 2018

Slitrur úr degi. Part II

Allt í einu finnur maður sig á nuddbekk í nuddnáminu og karlmaður á að læra að liðka liðamótin á mér. Ég var búin með hann og núna átti hann að æfa sig á mér.

Á þessum augnablikum sem eru blessunarlega liðin er ég mjög meðvituð um götin á klofsvæðinu á lífrænu bómullarbuxunum mínum úr Org í Kringlunni. Ég hef keypt þrjár svona buxur af því að það gerist alltaf það sama; það slitnar aðeins upp úr saumunum á innanverðum lærunum.

Allavega, þannig að ég segi við hann "það eru smá göt á buxunum en ekki vera feiminn" sem var náttúrulega mjög vanhugsuð athugasemd. Maður nær bara ekki alltaf að hugsa allt sem maður segir fyrirfram.

Allavegana, þessi tiltekni karlmaður er ekki íslenskur en talar góða íslensku samt og svaraði tilbaka að hann myndi aldrei fara þangað eða eitthvað svoleiðis.

Æ, mér finnst þetta ennþá vandræðalegt og finnst allavega núna að andrúmsloftið á milli okkar sé skrýtið eða svoleiðis.

En kannski ekki, þetta virðist vera frekar líbó strákur. Við vorum þau einu sem vorum á tásunum (ekki í sokkum) svo mér finnst að við ættum að geta unnið okkur í gegnum þetta.

Lífið maður.

Slitrur úr degi

Ég er stödd á neðri hæðinni í Kringlunni að labba fram hjá Donkin donuts þegar ég sé mann sem ég vann með, mjög kunnuglegt andlit. Hann situr þarna og er að tala í símann. Ég er dáldið frá en vinka glaðlega.

Í þeim augnablikum sem ég labba nær honum geri ég mér grein fyrir því að þetta er ekki hann. Hann kinkar kolli en vill greinilega engin frekari samskipti.

Skiljanlega, því ég þekki manninn ekki neitt!

Þetta tiltekna vandræðalega moment hélt mér vandræðalegri og asnalegri í heila mínútu. Sirka.

Ég er ennþá vandræðaleg yfir öðru vandræðalegu mómenti sem ég er ennþá vandræðaleg yfir. Það móment átti líka sér stað í samskiptum við hitt kynið.

Hef aldrei kunnað almennilega á karlmenn.

Monday, August 13, 2018

Rútína

Það er merkilegt hvað maður sækist í rútínu.

Núna er mér farið að finnast hálf óþægilegt, allt þetta frí.

Ég er nú reyndar ekki búin að vera í "fríi" nema í mánuð, set bitrar gæsalappir vegna þess að það er ekki svo mikið frí að vera með krakka upp um alla veggi alltaf. Núna erum við búin að gera allt sem við ætluðum að gera í fríinu; fara í fellihýsið (tvisvar), fara í húsdýragarðinn (bara einu sinni þar sem ekki er hægt að fara með yngsta barnið neitt þar sem söluvara blasir við en það gerir það einmitt í húsdýragarðinum þar sem maður þarf að labba í gegnum verslun á leiðinni út.) Búin að fara á Rey cup, búin að fara í sund (þó nokkuð mikið), búin að fara í Gong ho og fleira. Núna er bara beðið eftir að skólinn byrji á þessu heimili.

Unglingarnir hafa lítið fyrir stafni og eru mestmegnis í sínum raftækjum, símum og tölvum, því miður. Það er dáldið álag að hafa þrjú svoleiðis börn og unglinga á heimilinu, eða svoleiðis.

Ég verð bara svo glöð þegar skólinn loksins byrjar og krakkaskarinn fer í skólann. Mikið verður það gott fyrir okkur öll.

Vildi bara deila þessari tilhlökkun minni með ykkur.

Wednesday, August 8, 2018

Umvafin englum

Undanfarið hefur mér liðið eins og ég sé frekar vel tengd.

Ekki allir sem skilja kannski hvað ég á við, sérstaklega þeir sem eru ekkert að spá í andlegum efnum en undanfarið, þegar ég hef litið á klukkuna til að vita hvað tímanum líður þá hefur klukkan verið t.d. 10:10, 11:11, 12:12, 12:34, 13:13, 14:14, 15:15, 16:16, 17:17 og svo framvegis.

Á tímabili var þetta að fríka mig dáldið út en ég brosi alltaf þegar ég sé þessar tölur því ég álít þetta vera merki frá englunum. (Internetið segir mér líka að þetta sé merki frá englunum.) Ekki það að ég trúi því að uppi á himninum sitji guðs englar saman í hring heldur frekar merki frá alheiminum um að allt sé eins og það eigi að vera.

Í byrjun sumars var ég dáldið ósátt við á hvaða hillu ég er í lífinu. Alls ekki viss um hvort ég sé á réttri braut því að jú, allt snýst þetta um peninga (sem mér finnst svo erfitt btw.) Hvernig ætla ég að lifa á því að vera nuddari? Hvar ætla ég að vera með aðstöðu? Hvað er ég eiginlega að gera við líf mitt??!! Þið vitið, svona pælingar. (Oft hefur mér dottið í hug að gefast upp á þessari hugsýn minni og reyna að finna 8-16 vinnu þar sem ég get nýtt mér menntun mína og fengið almennilega útborgað.)

En svo man ég quotið: Never pawn your dream for a 9-5. 

Ég er jú mjög andlega þenkjandi og tel alveg vera ástæðu fyrir því að mér hefur ekkert gengið að fá vinnu við það sem ég er menntuð í. If the door does not open its not your door. Ég neita að trúa því að ástæðan sé að ég sökki feitt. Því að ég veit að ég get staðið mig fjandi vel í vinnu. Það er óþolandi hvað ég er samviskusöm (ef ég fæ verkefni þá skila ég því, á réttum tíma og hætti ekki að hugsa um það fyrr en það er búið.) Svo er ég líka skemmtileg:) (Að eigin mati.)

Allavegana, ég ætla að fylgja þeirri hugsýn sem ég fékk á Balí í fyrstu cacao seremóníunni minni þar sem ég sá mig fyrir mér vera að veita einhvers konar meðferð við fólk liggjandi á bekk. Ég ætla að treysta því að þetta verklega nám í nuddinu skapi ný tækifæri fyrir mig. Ég vil vinna við það sem ég elska og þó mig dagdreymi nú ekki um að nudda ókunnugt fólk þá held ég að það komi til með að eiga vel við mig.

Mér myndi finnast ég vera dáldið sigruð ef ég myndi eyða ævinni í að vinna fyrir einhvern annan við eitthvað sem ég hef engan áhuga á. En ég myndi vera fjárhagslega örugg aftur á móti.

Damn, hvað lífið getur verið flókið. En nóg um það.

Namaste.

Monday, July 30, 2018

Au natural update

Jæja.

Notaði sem sagt ekkert sjampó í 10 daga. Hafði lesið á internetinu að eftir 10 daga ætti hárið að vera farið að virkja sína eigin fituframleiðslu/hreinsi dæmi en nei... hárið á mér var bara drulluskítugt. Notaði hárnæringu og djúpnæringu á þessum 10 dögum en eftir sveittan yogatíma á sunnudegi á 10 degi sirka ákvað ég að komið væri að þolmörkum. Var farin að *gross myself out.*

Eeeen. Tók út kaffi í staðinn.

Og líður bara svo vel með það. Minni stressverkir í hálsi og baki. Minni kvíði. Betri svefn. Já, kaffi er bara komið út og mér líður svo miklu betur, andlega og líkamlega.

Það er nú bara rúmlega vika síðan ég tók kaffið út. Núna er ég bara í te-inu. Ekkert mjög spennandi. En ávinningurinn vel þess virði.

Yes!

P.s. það er nefnilega ekki alltaf málið að bæta hlutum við. Oft er málið að taka hluti út og *aflæra* suma hluti sem manni var innprentað fyrr í lífinu.

Kveðja, minimalisti

P.p.s. elska að vera minimalisti. Henda, henda, henda...

Wednesday, July 18, 2018

slitrur úr degi örvæntingarfullrar húsmóður.

Ég er í World class. Börnin eru ein heima. 5 ára og 10 ára og ég er að fríka út. Ákvað að fara í spinning og pabbinn sagðist geta verið heima á meðan. En svo seinkaði honum.

Áður en ég fór fann ég Garðabrúðuna á leigunni fyrir litlu að horfa á (Tangled á ensku.) Ákvað svo að drífa mig af stað og sagði Stefáni að vera með símann sinn.

Fattaði á leiðinni að kannski finnur hann ekki símann sinn.

Ég er ekki með vatnsbrúsa. Mundi eftir honum, þeir eru allir í jeppanum. En pabbinn er á honum.

Phew, Stefán svaraði símanum.

Omg.

Monday, July 16, 2018

Au natural

Ég ætla að gera smá tilraun.

Mig langar til að gera eitthvað fyrir umhverfið og ætla að prufa að hætta að nota sjampó og hárnæringu. Internetið (bland.is) segir mér að það taki sirka 10 daga að verða fallegt.

Ætla að prufa þetta og skrái það hér til að vita dagsetninguna á hvenær ég byrjaði.

Gangi mér vel. Vona að þetta verði ekki of klístrað!

Friday, July 13, 2018

Um manngæði

Í dag hitti ég svo góða manneskju. Eins konar gull af konu.

Hún er fyrirmynd að því leyti að hún skilur svo mikið eftir sig. Ég hlakka alltaf til að hitta hana. Eftir að hafa verið með henni í dag þó það hafi ekki verið meira en sirka þrír tímar er ég rólegri, umburðarlyndari og hef meiri hugarró heldur en áður að ég hitti hana í dag. Hún var með 4ra og 2ja ára börnin sín í dag líka samt.

Ég vil hafa svona áhrif á fólk. En hvað það væri frábært ef fólki liði svona vel eftir að hafa hitt mig.

Tinna mín, þú ert gyðja.

Tuesday, July 3, 2018

Grái fiðringurinn

Já, nei nei.

Það greip mig eitthvað æði á föstudaginn. Get ekki alveg útskýrt það. Fékk óvart pening og langaði að gera eitthvað fyrir útlitið. Fertugsaldurinn er handan við hornið og ég er farin að sjá hrukkur og grátt hár. Ég er að vinna með ungum stelpum og finn að ég er sú gamla í hópnum. Mjög stutt í að ég fari að haka við 40 - 45 ára boxið í skoðanakönnunum. Þetta er greinilega búið að vera að krauma í undirmeðvitundinni því að ég ákvað þarna eftir hádegi að gera eitthvað fyrir útlitið og þá strax og eftir smá fund með hr. google pantaði ég tíma í húðfegrun. Þessi sérstaka meðferð heitir Dermapen.

Þetta geri ég aldrei aftur. Hvað er fólk að spá??! Heyrði í vinnunni í gær að þetta sé það sem Kardashian systur gera. Láta nála á sér andlitið þannig að ysta húðlaginu er basically eytt til að fá svo slétta og hrukkulausa og nýja húð.

Dagarnir eftir að ég fór í þetta dæmi á föstudaginn hafa verið martraðakenndir. Ekki nóg með að það leið næstum því yfir mig eftir aðgerðina þá náði ég að hræða nágranna minn daginn eftir. "Þetta geri ég þá aldrei" sagði hún.

Það var ekkert verið að láta mig vita að ég myndi líta út eins og skrímsli í framan næstu vikuna. Jú, ég hefði getað kynnt mér það sem ég var að fara í betur. Viðurkenni það en leiðbeiningarnar sem ég fékk EFTIR aðgerðina bentu ekki til að ég gæti varla verið á meðal fólks næstu vikuna. Ég þurfti að fara í bankann núna áðan, þremur dögum eftir aðgerð, og það var erfitt af því að manni finnst eins og allir séu að stara á mann svona fyrir utan að mér líður mjög heimskulega að hafa gert þetta. Þetta er ekki ég að gera eitthvað svona!

Það sem kemur mér mest á óvart fyrir utan það hvað ég er hégómagjörn er að maður þarf víst að fara í nokkur skipti (4 - 6 skipti) til að fá sem bestan árangur! Núna er húðin farin að flagna hjá mér sem er einstaklega amalegt finnst mér og maður á þá actually að fara aftur eftir mánuð og láta rista upp nýgróna húð! Oj!

Ok, ef maður fókusar á árangurinn þá vilja flestir auðvitað vera með flotta og slétta húð en þessi aðferð er allavega ekki fyrir mig. Augnpokarnir undir augunum hafa lengi farið í taugarnar á mér en ég vildi samt að ég hefði sleppt þessu. Þetta er eitthvað svo brutal.

Sýni hérna myndir sem ég fann á internetinu til að gefa ykkur einhverja hugmynd um hvað ég er að tala um. Að ÉG skuli hafa gert þetta er mér óskiljanlegt. Þetta er kannski sniðugt fyrir fólk með húðlýti en allavegana. Þetta geri ég aldrei aftur. Feel like a fool.


Monday, June 18, 2018

Vöntun á ráði

Á hvaða prógrami þvæ ég (skítuga) hvíta strigaskó í þvottavélinni? Þeir eiga að vera skjannahvítir segir unglingurinn! 

Svar óskast ASAP

Ykkar örvæntingarfulla húsmóðir á yfirsnúningi

Tuesday, June 12, 2018

100 daga hamingja

Já maður.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar eins og Guðni í Rope yoga setrinu talar um. Eftir að ég ákvað að taka þátt í 100 daga hamingju áskoruninni á facebook er ég að læra meira og meira um sannleiksgildi þessara orða.

Þegar maður leitar markvisst að því jákvæða í lífinu og því sem veitir manni hamingju því auðveldara er að finna það. Það er mér einnig orðið ljóst að það er svo misjafnt hvað veitir fólki hamingju. Suma daga þegar það er mikið að gera gleður mig ekkert meira en fá að vera ein heima og lesa bók. Fyrir aðra er það eitthvað allt annað.

Þessa dagana er ég að leggja mig alla fram um að gera brúðkaupsdaginn stresslausan. Er að leitast við að gera allt og redda öllu sem þarf að redda svo að allt gangi þetta nú ljúft fyrir sig. Næst á dagskránni er að semja við veðurguðina. Það gengur ágætlega held ég, þeir eru búnir að láta rigna hressilega undanfarið og ætla að gera sitt besta við að halda sér þurrum á jónsmessunni.

Við hittum prestinn í dag og hún hvatti okkur til að íhuga að hafa trúbador í athöfninni. Erum nú að skoða það mál og já, brúðkaupstertu..

Já, já, já, já. Mikið í gangi þessa dagana. Hef því verið stopult hér inni.

Later.

Saturday, May 19, 2018

Krísa

Hef verið að upplifa aldurstengda krísu undanfarið þar sem stórafmælið (40 ára) er rétt handan við hornið.

Undarlegir líkamlegir annmarkar hafa verið að gera vart við sig eins og þynnri, lausari og já eldri húð, einstaka grá hár og unun af því að fara í göngutúra ein sem ég geri mér nú grein fyrir að er greinilegt merki um öldrun.

Veit ekki hvort að það sé þessu tengt en ég get ómögulega vakað til miðnættis lengur og veit fátt betra en að fara snemma að sofa og vakna snemma.

Þetta er einhvern veginn allt að hellast yfir mig í formi br.. brr... mjög erfitt að skrifa þetta orð en það er breytingaskeiðið (euw.)

Googlaði orðinu um daginn og gat tikkað í ansi mörg box á listanum yfir einkennin. Mér finnst þetta hálf skelfilegt allt saman.

Fór í sund um daginn og var að koma armbandinu að skápnum fyrir á handleggnum og fann svo greinilega hvernig húðin er allt önnur og slappari en áður.

Er ekki til einhver lífelíxer, einhvers konar eilíf-æska drykkur sem maður getur keypt?! Er dáldið að fríka út yfir þessu.

Er farin að fá marbletti út af engu virðist vera og mér finnst líklegasta skýringin vera samkvæmt internetinu að húðin þynnist hjá "konum á þessum aldri." Annað hvort það eða èg er með hvítblæði eða einhvers konar blóðsjúkdóm samkvæmt hr. Google.

Ó, æska og betra kollagen, komdu aftur!

P.s. þetta minnir mig á myndina Death becomes her með Meryl Streep (1992.) Frábær mynd!



Monday, April 30, 2018

Brillup

aahh, brúðkaups undirbúningur.

Dáldið gaman bara. Núna er ég að spá í boðskortunum því að það fer að koma tími á þau. Auðvitað langar mann í eitthvað alveg æðislega elegant og lekkert en ég er eiginlega hætt við það. Nenni ekki fullkomnunaráráttu núna.

Svo ég ætla bara að gera þetta easy og simple sem er eiginlega þemað mitt fyrir þetta brúðkaup. Ekkert stress, engar sætaskipanir, engin skemmtiatriði, ekkert vesen, engin kirkja.

Og maður lifandi hvað mig langar að vera berfætt í grasinu á stóru stundinni. Sko, í brúðkaupskjólnum að sjálfsögðu.

:)

Later peeps.



Monday, April 16, 2018

Ashtanga yoga

my passion.

Ég hef mikla ástríðu fyrir ashtanga yoga. Iðkunin skilar mér alltaf sem betri eintaki af sjálfri mér og ég elska iðkunina. Bæði líkamlega og andlega. Þetta kerfi af stellingum eða asanas losar mikið af líkamlegum og andlegum stíflum.

Eftir að ég breytti mataræðinu og tók kjöt og mjólkurvörur út gekk mér betur að komast í erfiðustu æfingarnar og fékk þess vegna ennþá meira út úr þessu. Ég hef stundað ashtanga yoga núna í yfir áratug og ást mín á þessu yoga stækkar bara og stækkar. Það er eitthvað alveg sérstakt við þetta sem höfðar til mín.

Ég hef einu sinni áður farið á svona workshop þar sem frægur yogi kom til landsins en það var Mark Robberds. Núna um helgina var ég á workshopi í Yogashala þar sem ég stunda mitt yoga sem Harmony Slater stjórnaði og var með. Ég fékk gífurlega mikið út úr því og er alveg endurnærð. Það er einhvern veginn þannig að maður fer í svona "bliss" ástand þegar maður er búinn og oft er maður að vinna í sínum málum á mottunni þó það eigi ekki alltaf við.

Allavegana, hann heitir Sri Pattabhi Jois sem er aðal guruinn í Ashtanga yoga. Viðurkenni fúslega að ég veit ekki hvort hann er lífs eða liðinn en frægir kennarar hafa flestir lært hjá honum og stunda hans yoga. Það er að segja það er hans yoga sem við stundum í ashtanga yoga. Það er farið með upphafsmöntru á sanskrít í upphafi og lok tímans. Ég syng með eins og allir og þykist vita að þýðingin er góð þó ég geti ekki skilgreint hana. Hún er jú á sanskrít.

Út um allan heim er farið með þessar sömu upphafs og lokamöntrur og sama serían iðkuð alls staðar í heiminum. Þetta eru víst fjórar seríur að ég held en við gerum oftast bara fyrstu seríuna sem er nú alveg nógu erfið:) Núna um helgina vorum við að fara inn í aðra seríuna og vá, andleg raðfullnæging!

Læt hér fylgja með mynd af guru-inum en hana er að finna alls staðar í heiminum þar sem þessi tegund af yoga er iðkuð.

Namaste indeed.


Monday, April 9, 2018

Brúðkaup

Ja hérna hér.

Í sögu lífs míns gifti ég mig. Sem er skrýtið vegna þess að ég var nú ekki á þeim buxunum. Sko biðilsbuxunum. En svo bað ég hann bara að giftast mér og jú jú, það er að fara ske. Í sumar.

Sko. Ég vil hafa þetta frjálslegt og flæðandi. Ekkert partý, bara okkar nánustu, fjölskylda og vinir viðstaddir. Úti. Það er mikið atriði fyrir mig. Mér finnst allt æðislegt sem gerist úti. Ég er búin að hafa samband við prestinn, finna location, gera boðslista og gera útlínurnar í kringum þetta nokkuð skýrar en samt óskýrar. Aðal pælingin núna eru veitingarnar.

Er að spá í að senda boðskortin svona mánuði til 6 vikum fyrir brúðkaupið. Það er ekkert atriði fyrir mig endilega að allir mæti. Þetta á bara að flæða áreynslulaust fyrir sig. Bara kaffiboð bæði af því að sálin mín er sirka 100 ára og líka af því að mig langar ekki í partý og líka af því að þetta er ekki heima hjá mér heldur hjá foreldrum mínum. Það breytir samt engu, myndi ekki vilja hafa þetta meira en áfengislausan hitting.

Að sjálfsögðu sé ég mig fyrir mér sem gullfallega brúður svífandi um í algleymingi í einhverjum gorgeous hvítum kjól með Bali blóm í hárinu. En raunveruleikinn er stundum ekki alveg nákvæmlega eins og maður ímyndar sér. Vona það samt.


Wednesday, March 14, 2018

Instagram

Ég finn og ég sé nú til dags að það gætir vaxandi kvíða hjá unglingsstúlkum.

Ekki öllum auðvitað en mörgum. Ég þykist vita að samfélagsmiðlar séu aðalmálið og að þær skoða Instagram mikið. Ég er búin að pæla svolítið í þessu og er sjálf á Instagram að fylgjast með þeim sem ég hef valið að fylgjast með.

Þeir sem ég hef valið að fylgjast með eiga það öll sameiginlegt að vera ekki í vinnu heldur eru þau að lifa lífinu. Þetta fólk ferðast mjög mikið, eru reyndar flest barnlaus og eru flest yogafólk eða lífskúnstnerar. Þau ferðast um heiminn og eru með yogaretreats, eða eru með sína eigin yogastöð og iðullega birtast af þeim myndir þar sem þau eru skælbrosandi á mjög exotic stað þar sem það er alltaf sól.

Ég tengdi um daginn að þetta er líklegast það sem er að valda þessum stelpum og sjálfri mér kvíða. Því auðvitað langar mann að lifa svona lífi þar sem manni líður ekki eins og maður sé í vinnunni því hún er svo æðisleg. Og svo loksins hætta þær í símanum og átta sig á því, eins og ég, að lífið er ekki svona. Það getur verið dáldill skellur.

Ætla að fara að eigin ráðum sem eru þau sem ég gef stjúpdóttur minni og vera minna á Instagram.

Namaste.

(Skrifað nokkrum vikum síðar) Pha, er meira á Instagram en nokkru sinni fyrr. Ávanabindandi andskoti.


Tuesday, March 6, 2018

Bogamenn

Ég fór a skemmtilegan fyrirlestur í vetur, man ekki hvort það var í enda janúar eða byrjun febrúar. Þetta var á Yogafood við Grensásveg og Sólveig, eigandi Sólir yogastöðvarinnar var með fyrirlestur um hvernig hún hætti á framabrautinni í viðskiptalífinu til að sinna andlegri köllun sinni. Auðvitað tengdi ég.

Það var mikið um spurningar úr salnum og ein þeirra situr í mér. Þetta var reyndar ekki spurning heldur samtal frá manni sem Sólveig kannaðist greinilega við og ég líka þar sem ég hef séð greinar eftir hann í blöðunum. Hann er mikill stjörnuspekingur, þ.e.a.s hann skrifar og spáir í stjörnumerkin og svoleiðis.

Þarna sagði hann að Bogamenn séu iðullega með samviskubit yfir því að vera ekki að vinna við það sem þeir lærðu. Alveg merkilegt vegna þess að ég er einmitt með samviskubit yfir því að vera ekki að vinna við það sem menntaði mig í í háskólanum OG ég er bogamaður:)

Það er ekki laust við að þær séu þungar í takinu blessuðu gráðurnar þegar ég geng um gangana í vinnunni sem ég merki við í boxið þegar ég tek skoðanakannanir að sé fyrir ósérhæft starfsfólk. Samviskubitið er ekki síður mikið þegar ég hugsa um námslánin...

En hvað get ég sagt? Ekki fer ég að vinna vinnu þar sem ég velkist um í kvíða daglega í vegna þess að hún er ekki það sem ég vil.

Svo ég elti drauminn. Follow that dream. Því það er eina vitið fyrir mér.

Namaste.

Thursday, February 22, 2018

Afkáralegar hugsanir konu í vatni

Oft hugsar kona hvernig lífið væri ef hún væri enn ein. Kona hugsaði þetta í sundlauginni í dag og svarið stóð ekki á sér.

22.2 stóð á skiltinu. 1234 birtist á hinu skiltinu. Tveir fuglar (reyndar ekki svanir) flugu yfir laugina. 

2 eru par. 4 eru börnin. Er á réttum stað .Fæ þetta svar iðullega þegar ég spyr þessa dagana.

Voðalega er ég ljóðræn í kvöld.

Segir hún og ýtir á publish.


Monday, February 19, 2018

Tenerife

Get ekki líst því með orðum hvað ég er þakklát fyrir þessa sólarlandaferð. Get þakkað Svani fyrir hana. Skammdegið á Íslandi er bara ekki fyrir alla, eða flesta.

Allavegana, eitthvað var ég stressuð nóttina sem við lögðum af stað því ekki svaf ég. Var að muna eftir ýmsum smáhlutum sem mig langaði til að taka með, hafa áhyggjur af veðrinu en það var gul og appelsínugul viðvörun þegar við lögðum af stað. Bauð þar af leiðandi tollverðinum á flugvellinum góða ferð sömuleiðis...;)

Leið sirka hundrað sinnum betur þegar við vorum loksins lent og ég fann fyrir sólinni. Varð allt í einu smá flughrædd líka.. Tala nú ekki um þegar við vorum loksins komin á hótelið og ég gat actually lagst á sólbekk og farið í sólbað. Himnaríki og pálmatré. Þakklæti og sólskin.

Fyrsta daginn í himnaríki eyddum við í hótelgarðinum sem er yndislegur en hávær. Það er kannski viðeigandi að minnast á það núna að ég er 39 ára going on 90 (years old.) Það eru sem sagt hyper ofvirkir ungir karlmenn (og fleiri) sem sjá um "animation" og þeir hafa kveikt á glymskrattanum allan liðlangan daginn með fjörugri tónlist við sundlaugarbakkann. Fyrst fannst mér það gaman af því að það minnti mig á zumba tímana en svo fannst mér þetta truflandi þar sem það er nú alveg nógu mikill skarkali fyrir. Er oft að lesa bók í sólbaði..

Allavegana, þennan fyrsta dag kom frændi minn í heimsókn í hótelgarðinn með konuna sína og börnin. Það var auðvitað frábært að hitta þau. Ég lít mikið upp til þeirra þar sem ég ágirnist lífið þeirra. Finnst frekar spennandi það sem þau eru að gera en staðurinn þeirra upp í fjöllunum á Tenerife heitir Elska organics. Þetta er svona bed and breakfast og herbergin eru hellar. Þau bjóða upp á yoga og grænmetisfæði og halda námskeið því tengt. Ég sé mig klárlega fyrir mér í svona kringumstæðum í framtíðinni og vinna þá meðal annars sem nuddari undir berum himni. Svanur bauð mér upp á nudd undir berum himni í hótelgarðinum (sko af nuddara ekki honum sjálfum) og það var æðislegt:)

Það er svo upplífgandi að hitta svona easy going fólk eins og þau. Konan hans frænda er svo mikil fyrirmynd. Algert ljós. Ljósberi eins og sagt er í andlega heiminum. Brosir og hlær út í eitt og týpan sem sér bara jákvæðu hliðarnar á lífinu. Dásamleg. Auðvitað var gaman að hitta börnin þeirra líka, litla frænda og litlu frænku; Owl Bo og Cub Tigerlilly. Alger heiður. Falleg börn.

Daginn eftir fórum við í Siam park. Það var dásamlegt. Auðvitað. Krakkarnir nutu sín í botn og fóru í rennibrautirnar en þetta er sko vatnsleikjagarður. Stefán fékk mig meira að segja með sér í eina. Maður labbaði hátt upp og rann sér svo niður á eins konar yogadýnu í nokkrum þrepum niður (hratt.) Ég var hrædd og öskraði alla leiðina og fékk svo hláturskast í endann. Gegt.


Við Emilía fengum svo sólbaðsdag heima daginn eftir sem var auðvitað dásamlegt. Ég er að kenna henni nokkrar lífsreglur ef svo má að orði komast. Mér finnst það gaman og finnst ég hafa frá ýmsu að miðla þó ég segi sjálf frá. Fór í acuagymið í sundlauginni í hádeginu og pantaði vax (snyrtimeðferð) á vel valda staði á líkamanum sem var forvitnileg reynsla því ég hafði ekki farið áður í vax. Það mætti sem sagt dama heim á hótelherbergið með bekk og jái, þetta var vont. En tók fljótt af og árangurinn flottur:)

Daginn eftir, í gær sem sagt, fórum við í Loro park sem minnir mig aftur á hvað ég er í miklu betri ásigkomulagi núna en 2015 þegar við fórum þangað síðast en þá var ég svo þreytt, þjáðist af blóðleysi/járnleysi ennþá og var ennþá í stressvinnunni sem ég var í þá (aldrei aftur takk fyrir.) Dagurinn gekk eins og í sögu. Þurftum að vakna snemma til að ná rútunni en hún var alveg einn og hálfan tíma á leiðinni til dýragarðsins. Svanur var svo spenntur að ná öllum fjórum sýningunum að ég sá lítinn mun á honum og börnunum:)


Þetta var of mikill asi og stress fyrir minn smekk en það skiptir ekki máli. Í dag fékk ég aftur relax dag sem ég naut of mikils og náði að brenna í sólinni. Glæsilegt Svava. Takk. Svanur fór með Emilíu í mollið að versla. Fórum niður að strönd áðan sem var fínt.

Fórum svo aftur í Siam park sem var óvenju kalt og erum núna komin heim. 


Monday, February 12, 2018

Kúst og fæjó

Unglingnum á heimilinu fannst ekki mikið til koma að mamma hans hélt með laginu Kúst og fæjó með Heimilistónum í Söngvakeppninni í ár. Honum fannst það aaalveg glatað.

En það var eitthvað sem heillaði mig við lagið. Stelpurnar að hittast í saumó og allt svo stelpulegt og hresst og gaman. Mikið sakna ég vinkvenna minna. Það hefur einhvern veginn verið svo erfitt að hittast upp á síðkastið. Allar með börn undir 5 ára liggur við og allar svo uppteknar.

Synd og skömm. Því það er svo nauðsynlegt að næra andann með því að hitta vini sína og blása aðeins út og kjafta og hlægja.

En hvað getur maður gert? Ég ætla að setja aðeins meiri kraft í að reyna að koma okkur saman. Þetta hlýtur að hafast á endanum. Já, já, já.

Læt hér fylgja eina mynd af stelpunum í Heimilstónum, bara upp á gannið.

Vinkonur eru bara ómetanlegar.

Tuesday, February 6, 2018

So far so good.

Þessi vorönn leggst alveg hreint ágætlega í mig.

Það er miklu minna álag heldur en á síðustu önn sem er auðvitað gott fyrir örvæntingarfullu húsmóðurina okkar. Ég er í einu fagi í dagskólanum sem er Vöðvafræði. Það er mjög áhugaverður áfangi en líka erfiður. Kann mjög vel að meta að það er ekki lokapróf í honum heldur símat svo það eru þrjú próf yfir önnina. Gott fyrir Svövu:)

Ég er svo í einum kúrs í fjarnámi sem er sjúkdómafræði 203. Það verður eina lokaprófið sem ég fer í vor sem er líka fínt. Svo tek ég skyndihjálp á þessari önn líka og líkamsbeitingu en báðir þessir kúrsar eru svona nokkurs konar helgar námskeið. Er til að mynda að fara á skyndihjálparnámskeiðið núna um helgina og svo verður líkamsbeitingarnámskeiðið helgi í mars.

Þannig að miðað við síðustu önn er þessi önn auðveld. Ég er svo að vinna á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð með skólanum sem er alveg ágætt. Ég vil frekar vera á kvöldvöktum þarna svo ég geti lært um morgnana á virkum dögum, en ég er að sirka tveimur morgunvöktum á viku frá kl. 08-13 og svo kvöldvöktum aðra hverja helgi 16-22 frá föstudegi til sunnudags.

Já já, svo að lífið er frekar gott núna. Er alltaf frekar þreytt í janúar og febrúar svo að ég er búin að ná að hvíla mig sem er vel. Mér líst líka rosalega vel á þetta ár. Sólarlandaferð og gifting eru á dagskránni og verknám í haust svo að allt gengur lífið samkvæmt áætlun. Ekki spillir fyrir að birtan og lífsins ylur er á næsta leiti. Það verður komið vor áður en við vitum af:)

Later peeps.

Tuesday, January 30, 2018

Svo góð helgi að baki

Í síðustu viku var ég óvenjudugleg.

Fékk Stefán Mána til að máta skíðaskóna sína og komst að því að auðvitað eru þeir orðnir of litlir. Fór með þá og skíðin í Everest á skiptimarkaðinn og skipti þeim út fyrir stærri. Hann kom með og mátaði og við fundum í sameiningu skíðaskó og skíði. Ég þurfti að koma aftur daginn eftir til að ná í þau úr endurstillingu og gerði þetta bara eins og hersforingi. Góð tilfinning.

Við fórum svo upp í Bláfjöll báða dagana, laugardag og sunnudag og ég naut þess að vera upp í fjalli og anda að mér hreinu lofti og þjálfa Stefán Mána aðeins. Hann stóð sig rosalega vel og gafst ekki upp þrátt fyrir að detta ansi oft fyrst um sinn. Í endann datt hann bara ekki neitt og gat farið sjálfur í lyftuna, án þess að fá aðstoð.

Það sem ég er stolt af drengnum mínum! Hann sýndi þrautseigju og gafst ekki upp. Við fórum meira að segja í lyftuna sem er sunnanmegin og er löng og í brattri brekku. Honum brá fyrst að vera kominn svona hátt upp og var dáldið hræddur en komst niður og hélt svo bara áfram og fannst þetta æðislegt.

Góður Stefán Máni:)

Image may contain: 2 people, people smiling, hat, selfie, closeup and outdoor

Thursday, January 18, 2018

Karma stig

Ég er með dásamlega útópíska draumsýn þar sem peningum er skipt út fyrir karma stig.

Hugmyndin byggist á því að bankareikningurinn manns er hversu mörg karmastig maður hefur safnað sér í formi góðverka eða því sem maður hefur gert í umhverfisverndarskyni eða eitthvað slíkt. Þú færð líka karmastig ef þú ert að vinna við það sem þú hefur ástríðu fyrir og vilt vinna við. Sem dæmi fær manneskja sem keyrir ekki á bíl í vinnuna og mengar þar af leiðandi minna til dæmis 500 karmastig á mánuði. Ef þú nærð að koma auga á spillingu, 1000 karmastig, ef þú nærð að uppræta þessa spillingu, 5000 karmastig.

Nú, ef manni langar til að gera eitthvað grand eins og til dæmis að halda stórt og dýrt brúðkaup eða kaupa stórt einbýlishús þá þarf maður aldeilis að gera stórt góðverk í staðinn eins og til dæmis að koma með hugmynd sem er svo sett í framkvæmd um hvernig megi minnka kolefnisspor stofnunar eða meðalstórs fyrirtækis um 50% og koma því í framkvæmd.

Innblásturinn af þessari útópíu er sú ósanngirni sem felst í þeim ójöfnuði að í kringum 5% eiga um 95% auðsins. Eða eru það ríkustu 1% sem eiga 99% auðsins? Einhvern veginn svona er það og jafnaðarmanneskjan sem ég er hef alltaf átt bágt með ad þola þennan ójöfnuð.

Það gefur því augaleið að þessi draumsýn mín myndi vera góð fyrir flesta nema siðblinda, já og kannski þá sem hafa bara engan áhuga á karmastigum og karma yfir höfuð. Siðblindir eru eitthvað í kringum hva, 5% og þeir sem hafa ekki áhuga á þessu.. hva, 20% Allavegana, gott fyrir sirka 75%.

Vegna þess hvað það er gott að gefa þá myndi almenn vellíðan aukast. Hversu mikil snilld?

Þeir sem ekki geta unnið sér inn karmastig vegna þess að þeir eru veikir eða fatlaðir geta gefið karmastig. Þeir hafa til dæmis 2000 karmastig að gefa á mánuði. Það ætti því að vera eftirsóknarvert að sinna þeim. Ef þú getur bætt aðbúnað og aðgengi þessa fólks færðu fullt af karmastigum líka.

Hvað um þá sem vinna til dæmis í banka? Nú þeir vinna í karmabankanum og ættu því að fá góð karmastig að launum. Þeir vinna þá við það að reikna út góðverk allan daginn og hversu hamingjusamt fólk er í vinnunni sinni.

Í þessari draumsýn minni er yfirvinna ekki vel séð. Fólk á að vera úthvílt og líða vel. Fjölskyldan er í fyrirrúmi og það að foreldrar hafi tíma til að vera með börnunum sínum er í fyrirrúmi.

Þeir sem vinna í heilbrigðisþjónustu fá auðvitað fullt af karmastigum í laun en launakerfið virkar þannig að ef þú vinnur meira en átta tíma á dag þá færðu refsistig. Vegna þess hvað störfum er að fækka í tæknivæðingu nútímans þá ætti að vera til nóg af fólki sem getur starfað í heilbrigðis- og umönnunargeiranum. Vegna þess hve þau gefa mörg karmastig eru þau eftirsóknarverð. Í mínum heimi, í þessari draumsýn minni, þá eru þetta hæst launuðustu störfin. Klárlega jafn vel launuð og þingmannastarf. Ráðherrar myndu lækka í launum í framtíðinni vegna þess að það leiðinlegum málum fækkar einfaldlega í mínum heimi.

Auðvitað eru mörg svið atvinnulífsins sem verður að sinna en eru bara ekki karmaleg eins og til dæmis vegavinnugerð. Þau eru samt nauðsynleg svo að auðvitað eru þau vel launuð. Það er líka flott ef að þeir sem spá ekki í karma geta sinnt þeim.

Þeir sem hafa engan áhuga áhuga á þessu og langar bara að vinna við vegavinnu og sjómennsku eða hvað sem er annað gætu auðvitað gert það, þessi hugsýn er ekki fasísk en laun þeirra myndu samt sem áður vera svipuð og hjúkrunarfræðinga og umönnunaraðila sem eru ansi hátt settir í draumsýn þessari.

Hvað um þá sem vilja bara græða og eru með valdafíkn? Nú, þú græðir fullt af karmastigum ef þú ert rosalega góður í góðverkum og umhverfisvernd og upprætingu spillingar. Ef þú kemur auga á spillingu og kemur svo í veg fyrir hana verðuru auðugur maður. Ef þú finnur upp aðferð sem kemur í veg fyrir allt þetta plast í sjónum og kemur henni svo í framkvæmd, bingó, þú ert stjarna! Þú getur líka haldið góðgerðasöfnun (hostað svona charity event) og unnið þér inn fullt af karmastigum ef málefnið er verðugt. Það yrði þá kannski til Karmamálaráðuneyti.

Æ, ætli pabbi myndi ekki kalla mig komma núna. Það verður bara að hafa það. Annars finnst mér svona stimplar margir hverjir vera óvægnir og ekki alveg gefa rétta mynd af fólki. Lífið er ekki svona svart og hvítt. Það er grátt svæði allt í kring!

Tónlistarfólk og leikarar eru líka háttskrifaðir í þessum heimi þar sem fólk kæmi til með að eiga meiri frítíma og karmastig til að fara á tónleika og í leikhús.

Allavegana, nóg um þetta, en þetta er skemmtileg útópía, ekki satt?

Thursday, January 4, 2018

Ég elska þig Caras

Vó, hvað mér líður vel.

Á sirka mánaðarfresti fer ég að finna að ég þarf að fara til kírópraktorsins. Líkaminn minn er bara þannig, ég er með hryggskekkju og henni fylgja alls konar vandamál eins og til dæmis vöðvabólga og stirðleiki í öxlum.

Allavegana, í síðustu skiptin sem ég hef verið hjá kíró er það eiginlega bara það síðasta sem hann gerir sem ég þarf en þá hnykkir hann hálsinum til þegar ég sit á stól. Svo líður mér vel á þessu svæði í nokkrar vikur.

Mér hefur reyndar fundist eins og hálsliðirnir séu ekki rétt raðaðir saman núna í langan tíma (disaligned.) Var búin að vera drepast í dag og vissi ekki hvað ég gæti gert. Þetta er ekki eitthvað sem yogað getur hjálpað mér með einu sinni þannig að í örvæntingu minni hringdi ég á nuddstofu hér í bæ vitandi að ég þurfti að gera eitthvað og gat fengið tíma eiginlega strax.

Það er alger tilviljun að ég lenti á þessum ljúfling sem hann Caras er. Honum var strax mjög umhugað um þetta vandamál mitt og nuddaði og nuddaði. Sagðist geta hnykkt þetta en væri nú reyndar ekki með leyfi svo hann var hálf feimin með þetta en staðráðinn í að vilja hjálpa mér samt. Hann vildi til dæmis ekki að ég segði kírópraktornum mínum frá þessu.

Svo að eftir nuddið þegar ég sat þarna fullklædd reyndi hann að hnykkja mig til hliðanna með höfuðið en ekkert gekk. Svo afræður hann að taka eitthvað "advanced" kíróbragð og lét mig leggjast á bekkinn (bað mig) og vafði einhverju utan um hálsinn á mér og hnykkti svo svona upp þannig að hálsinn og höfuðið fóru uppávið.

Omg. Sveif þarna út og gleymdi næstum því skónum mínum. Alsæla. Halló. Þarna losaði hann um margra mánaða gamla spennu. Ég veit ekki hvernig nafnið hans er skrifað en vá, vá, vá hvað þetta var gott.

Vá. Takk Caras.

Wednesday, January 3, 2018

Gleðilegt nýtt ár! :)

Elska nýárs fílinginn.

Nýtt ár. Ný byrjun. Vibe the plate clean. Fresh start. Eitthvað nýtt og spennandi sem aldrei hefur gerst áður. Spennandi.

Áramótaheitið mitt í ár er að uppræta streitu í lífi mínu. Það er ansi háleitt markmið já. Held samt að aðal streituvaldurinn í lífinu mínu sé bara ég sjálf svo áramótaheitið er þá að slaka meira á og vera ekki svona stressuð. Vera meira í núinu. Meira "zen"-uð eins og ein facebook vinkona mín orðaði það.

Klisja, ég veit en.. thats it.

Meira seinna,

(er að horfa á Seinfeld..)