Friday, September 26, 2025

Styrjöld úti, friður í Skipholtinu

Ok, kannski smá dramatískt!

Mætti á foreldrakynningu á miðvikudagsmorgun í Hlíðaskóla eins zenuð og hægt er að vera. Hefði allt eins getað verið postermyndin fyrir zen. Ástæðan var að ég var vel sofin enda er ég það eiginlega alltaf eftir yogað hjá vinum mínum í Art of yoga í Skipholtinu. Set það í forgang, alltaf, að ná þessum tímum. 

Síðan fór allt að gerast og Svavan að ofhugsa og fara í klemmu með allt. Það er líka foreldrafundur á mánudagsmorgun. Það hentar mér engan veginn þar sem ég er með tvö nudd þann daginn. Eitt í hádeginu og eitt kl 16. Þegar ég er að nudda þá er ég nudda. Finnst voða óþægilegt að trufla orkuna með öðru. Allavegana, fór í hálfgerða fýlu af því að það er líka fundur í handboltanum á mánudaginn eftir æfingu hjá stelpunum. Er að lenda í þessu viku eftir viku að það hlaðast allt á sama daginn og svo er bara voða lítið á dagskrá hina dagana. 

Þetta handboltamót í Vestmannaeyjum er að fara með mig. Það er helgina 3.-5. okt og ég er þegar farin að missa svefn yfir því. Hver gerir það?! Ekki aðrar mömmur. Málið er að ég er að upplifa mig sem liðleskju. Maður á að vera ofboðslega hress mamma og bjóða far með sér til Landeyjarhafnar. Það er þrennt sem er að halda fyrir mér vöku varðandi það: 

1) Ég treysti jeppanum okkar það illa að síðast þegar ég átti að bjóða ókunnugu fólki far í svett út á landi fékk ég svo slæmt kvíðakast um nóttina að ég man ennþá eftir því. Þetta var fyrir sirka tveimur árum og ennþá er ég á sama bílnum. Málið er að þó hann hafi staðið sína plikt og fylgt mér öll þessi ár þá hefur hann líka brugðist okkur hrapalega. Misst kraftinn í kömbunum og bilað í fjölskylduferðalagi (held að þaðan komi kvíðinn.) Svo hef ég líka lent í því að missa stjórn á honum á Miklabrautinni vegna einhvers sem gerist með hann og brugðið alveg svakalega illa. Ég treysti sem sagt bílnum ekki. Fólk sem er með OCD eins og ég er í grunninn gott fólk sem vill ekki bregðast neinum eða klúðra. Hence, the kvíði. Get ekki boðið ókunnugum far. Það býður bara upp á gífurlega vanlíðan fyrir mig. Það er líka draugur í bílnum. Stundum detta stefnuljósin út og þá er ekki hægt að loka gluggum eða læsa bílnum. Martröð.

2) Fyrir utan þetta er það almennur ferðakvíði. Hef aldrei keyrt til Landmannahafnar, hef aldrei farið til Vestmannaeyja og síðast þegar ég fór kambana stöðvaði ég alla umferð því ég fór á 20 km hraða. Þoli ekki hvað þetta er glannaleg brekka. Ég vil lifa sko!

3) Fíla mig enn og aftur utangátta í heimi A týpna og extroverta. Fíla ekki einu bolta íþróttir og keppnisskap er eitthvað sem ég var kannski einhvern tímann með en er ekki með lengur. Mér líður aldrei vel í aðstæðum sem ég valdi mér ekki sjálf og hef enga stjórn á. Þetta handboltamót er víst stórt því það er ekki bara 5. flokkur kvenna heldur líka kk.! Hvernig ég á að halda mér eitthvað zenaðri eða líða vel yfir höfuð í þessum aðstæðum öllum veit ég bara ekkert um. Dont like crowds.

Allavegana. Það var ekki nóg með að líða illa yfir þessu öllu saman. Stefán minn fór á menntaskólaball aðfaranótt fimmtudags, kom heim um nóttina og hélt fyrir mér og okkur vöku í lengri tíma. Mætti því ósofinn á svefnnámskeiðið og leið illa allan tímann. Þess vegna er ég á þessu svefnnámskeiði. Þegar ég missi svefn, þó það sé ekki nema ein nótt, þá fer líðan mín út og suður. Aðallega suður. Hefði engan veginn getað mætt í vinnu þennan dag út af þessari nótt.

Beið eftir því allan daginn að komast í Skipholtið, í friðinn minn. Stund á milli stríða. 

Vildi að ég færi að fara ein í einhvers konar yogamót í Vestmannaeyjum en ekki skarkali.is boltamót. 

Hjálp.

Namaste. 

Friday, September 19, 2025

Góðar venjur

Stundum hlustar maður á viðtal við einhvern og fær svo mikinn innblástur að maður breytir venjum sínum. 

Núna hef ég ekki farið inn á Instagram, tiktok eða Facebook í nokkra daga og líður vel. Við Guðrún Halla fórum í Forlagið (bókabúð) á sunnudaginn og keyptum nokkrar bækur, ég keypti þrjár! Núna ver ég þeim tíma sem vanalega hefði farið í að skrolla í að lesa. Það er æði, elska það:)

Ég hef eitthvað storkað örlögunum í síðasta bloggi. Mér leið svo vel en svo er mér ekki búið að líða eins vel þessa vikuna. Kenni því smá um rauðvínið á laugardaginn. Núna er OCD heilinn búinn að gera rútínu úr því að fá mér í glas á laugardagskvöldum. Ég verð aldrei full en núna fékk ég Tinnu með mér í syndina og við fundum báðar fyrir slæmum áhrifum daginn og dagana eftir. Kvíðinn læddist inn hjá mér og svona einhver vanlíðan. Af hverju bý ég ekki í hippaþorpi þar sem dagarnir einkennast af yoga og öndun og vín er bara ekki valmöguleiki?

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég var með þrennt á dagskrá. Það er mikið fyrir mig þar sem ég til dæmis var með ekkert á dagskrá daginn undan. Fyrst var það klukkutíma fundur með ráðgjafanum mínum í Virk. Hún vill endilega senda mig á námskeið fyrir konur á rófinu! Svo var það beint á svefnnámskeiðið niðrí bæ. Það var ágætt, fór eftir ráðleggingunum í gær og hélt mér vakandi til 23 (!) til að byggja upp svefnþéttni. Fannst það erfitt en ég hafði bókina mína. Keypti sem sagt bók á sunnudaginn eftir höfund sem ég þekkti ekki (Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur) og svo reynist bókin svona bráðskemmtileg. 

Þriðja atriðið var að krakkarnir komu í mat; Óli minn, Katrín og Styrmir Orri minn. Hann er 2ja ára og 4ra mánaða og það hefur svo mikið gerst hjá honum í þroska undanfarna mánuði að amman sá stóran mun! Hann er orðinn næstum altalandi og með miklar meiningar. Það er bara allt í gangi hjá honum! Það var yndislegt að fá þau í mat. Var ekki þreytt, þetta var bara allt fullkomið:)

Lágpuntur vikunnar var hvað ég var eitthvað lágstemmd fyrri hluta vikunnar. Minnir að það sama hafi verið upp á teningnum í síðustu viku. 

Framundan á þessum haustlega föstudegi er hot yoga og kannski sjórinn. Hann hefur ekkert verið að kalla en mér finnst ég skuldbundin vinkonum mínum í sjósundshópnum Valkyrjurnar að sýna smá lit.

Namaste. 

Friday, September 12, 2025

Er á tímabili..

.. sem ég vil aldrei að hætti.

Mér líður svo vel. 

Við konur fáum vanalega sirka 10 daga í tíðahringnum sem okkur líður eins og Superwoman. Er á því tímabili og líður bara svo skratti vel. Hef á tilfinningunni að þetta tímabil eigi eftir að endast lengur en vanalega einfaldlega vegna þess að ég er komin á þann aldur að tíðahringurinn er ekki eins og vanalega og er líka á hormónauppbótameðferð svo að estrogenið lækkar ekki af eins miklum þunga og það gerði hér áður fyrr. (Langar að segja "droppar ekki" því það lýsir því sem gerist betur.)

Man eftir mér síðasta vetur í svo mikilli vanlíðan vegna einhvers sem var alltaf í gangi með móðurlífið. Túrverkir, allt of langar og þungar blæðingar, alls konar verkir tengdir blöðrum á eggjastokkum og öðru svoleiðis drasli. EUW.

Vikan var góð. Núna er Virk programið byrjað. Er á svefnnámskeiði sem er vandræðalegt af því að ég hef aldrei sofið eins vel og núna. Óvart. Líkaminn er góður þessa stundina og er ekki að angra mig með veseni. Er að læra slatta um svefn samt. Var líka á dk námskeiði í gær (tölvubókhald) og ætla að reyna að senda reikning úr því á næstu dögum. 

Partur af Virk er að vera hjá sálfræðingi og ég mætti ókvíðin á Kvíðameðferðastofuna og fann að ég hafði ekki svo mikið að segja. Hef ekki lent í meiriháttar áföllum í lífinu en er að díla við að vera neuro divergent manneskja í heimi neuro typical fólks. Vorum því aðallega að tala um hvað gæti hentað mér vinnulega séð. Ætla að gera þetta rétt en ekki fara beint í einhverja vinnu sem drainar mig og gerir mig kvíðna. Aðallega skiptir fólkið á vinnustaðnum mig máli. Að mér líði vel með samstarfsfélögunum og geti verið ég sjálf.

Leið meira að segja það vel eftir tímann hjá sálfræðingnum að ég sendi fyrirspurn um vinnu á Borgarleikhúsið. Hvort það væri eitthvað laust í miðasölunni!

Hápunktur vikunnar var vikan öll í heild sinni. Mér hefur bara sjaldan liðið eins vel.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudagskvöldið þegar við Svanur fórum saman í Sundhöllina á meðan elskuleg dóttir eldaði matinn. Snappaði þegar ég var búin að synda nokkrar ferðir en svo var allt í einu kominn krakki á sundbrautina "mína." Mér til varnar þá gerðist það sama um daginn í Lágafellslaug en þá vorum við þrjár sem snöppuðum saman og í einu. Útlendingar að fara í sundlaugina eins og þetta væri einhver barnasundlaug. Á miðri sundbraut! Við vorum ÞRJÁR sem snöppuðum þá og vorum alveg jafn snöggreiðar. Sundbraut er sundbraut er sundbraut er SUNDBRAUT. 

Ég ætla að halda áfram að líða vel. Ætla að sleppa því að fá mér rósavín um helgina ef ég er bara ein. Verð að minnsta kosti að finna mér drykkjufélaga. Ekki það að ég slagi hér um þegar ég fæ mér í glas nei, nei. Það er ekki þannig. En fann samt áhrifin frá síðasta laugardagskvöldi langt fram í vikuna..

Namaste.


Friday, September 5, 2025

prinsessan..

.. var að vakna af góðum nætursvefni og er til í tuskið.

Eða hvað?

Angistin kallar: af hverju ertu ekki í skemmtilegri vinnu með góðum félagsskap? Afsökunin kemur strax: þetta er í ferli! Núna er Virk programið byrjað og fyrsti dagur fyrsta námskeiðsins var í gær. Betri svefn. Tókst að mæta um 10 mínútum seint en hér eru samgönguleiðir í óreiðu á heimilinu eftir að Stefán tók yfir bílinn. Ætlaði nú bara að taka strætó en stoppistöðin var óvirk vegna framkvæmda á Miklubraut svo ykkar kona ákvað að labba. Kemur í ljós að hún er lengur en hálftíma að labba niður á Lækjartorg!

Er því farin að skrá svefninn og smá skýtið að vera með "svefnvandamál" en sofa svo eins og steinn fyrstu nótt skráningar á svefnvenjum. Það er auðvitað Talyu minni að þakka en þessir yogatímar sem ég fer í í Art of yoga í Skipholtinu eru allt í senn; geðlyf og svefnlyf. Þessi elska skutlaði mér meira að segja heim eftir tímann:)

Vikan er búin að vera góð. Mér hefur liðið vel og allt er í fína Bína. Finn samt að ég hefði gott af auka vinnu og vantar eitthvað aðeins meira að gera. Þetta er reyndar fín lína. Auðvelt að fara yfir hana og hafa of mikið að gera. 

Allavegana. 

Hápunktur vikunnar hlýtur að vera þegar ég kom inn á fyrsta dag fyrsta námskeiðs Virk másandi og blásandi afsakandi mig út í eitt vegna óvirkrar strætóstoppistöðvar. Svitnaði svo smá. Þetta var samt allt í lagi. Ætla bara að passa mjög vel að vera ekki sein aftur.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar ég var mætt upp á höfða í barnabilstolar.is. Ætlaði sko aldeilis að laga vandamálið sjálf með þessu en Styrmir virðist hafa vaxið úr stólnum sem er allt í einu voða framstæður og lítill fyrir hann. Bílstóllinn á samt að duga til 4ra ára. Forsaga málsins er kannski sú að ég nenni aldrei í búðir eða sinna svona erindum svo ég varð frekar mikið hlessa og hissa (og stelpan líka) þegar ég opnaði bílinn til að sýna henni vandamálið og enginn barnabílstóll var í bílnum! Held að hún hafi roðnað fyrir mína hönd, þetta var svo vandræðalegt. Bílstóllinn er alltaf í bílnum og ég er búin að banna Stefáni að taka hann út. Hringdi auðvitað í Stefán sem hafði jú samt tekið bílstólinn út og sett inn í geymslu til að koma vinunum og golfsettunum öllum fyrir! 

Amman var ekki hress með þetta auðvitað! Var pirruð í sirka klukkutíma en hugsaði svo um hvað hann er góður strákur og hvað ég er heppin með hann og hvað ég sjálf var að brasa þegar ég var 17 ára ... allt fyrirgefið. Reyni bara aftur síðar.

Framundan er trommuhringur og hippalæti. Ætli það sé ekki strætó eða eitthvað.

Namaste