Friday, September 19, 2025

Góðar venjur

Stundum hlustar maður á viðtal við einhvern og fær svo mikinn innblástur að maður breytir venjum sínum. 

Núna hef ég ekki farið inn á Instagram, tiktok eða Facebook í nokkra daga og líður vel. Við Guðrún Halla fórum í Forlagið (bókabúð) á sunnudaginn og keyptum nokkrar bækur, ég keypti þrjár! Núna ver ég þeim tíma sem vanalega hefði farið í að skrolla í að lesa. Það er æði, elska það:)

Ég hef eitthvað storkað örlögunum í síðasta bloggi. Mér leið svo vel en svo er mér ekki búið að líða eins vel þessa vikuna. Kenni því smá um rauðvínið á laugardaginn. Núna er OCD heilinn búinn að gera rútínu úr því að fá mér í glas á laugardagskvöldum. Ég verð aldrei full en núna fékk ég Tinnu með mér í syndina og við fundum báðar fyrir slæmum áhrifum daginn og dagana eftir. Kvíðinn læddist inn hjá mér og svona einhver vanlíðan. Af hverju bý ég ekki í hippaþorpi þar sem dagarnir einkennast af yoga og öndun og vín er bara ekki valmöguleiki?

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég var með þrennt á dagskrá. Það er mikið fyrir mig þar sem ég til dæmis var með ekkert á dagskrá daginn undan. Fyrst var það klukkutíma fundur með ráðgjafanum mínum í Virk. Hún vill endilega senda mig á námskeið fyrir konur á rófinu! Svo var það beint á svefnnámskeiðið niðrí bæ. Það var ágætt, fór eftir ráðleggingunum í gær og hélt mér vakandi til 23 (!) til að byggja upp svefnþéttni. Fannst það erfitt en ég hafði bókina mína. Keypti sem sagt bók á sunnudaginn eftir höfund sem ég þekkti ekki (Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur) og svo reynist bókin svona bráðskemmtileg. 

Þriðja atriðið var að krakkarnir komu í mat; Óli minn, Katrín og Styrmir Orri minn. Hann er 2ja ára og 4ra mánaða og það hefur svo mikið gerst hjá honum í þroska undanfarna mánuði að amman sá stóran mun! Hann er orðinn næstum altalandi og með miklar meiningar. Það er bara allt í gangi hjá honum! Það var yndislegt að fá þau í mat. Var ekki þreytt, þetta var bara allt fullkomið:)

Lágpuntur vikunnar var hvað ég var eitthvað lágstemmd fyrri hluta vikunnar. Minnir að það sama hafi verið upp á teningnum í síðustu viku. 

Framundan á þessum haustlega föstudegi er hot yoga og kannski sjórinn. Hann hefur ekkert verið að kalla en mér finnst ég skuldbundin vinkonum mínum í sjósundshópnum Valkyrjurnar að sýna smá lit.

Namaste. 

No comments: