Friday, October 31, 2025

Ég get vel…

… hugsað mér að búa ein.

Finn hvað mér líður vel hér á Hliðsnesi, alein í náttúrunnar friði.

Mér finnst leiðinlegt að þetta tímabil, þegar ég er ein í höllinni, er að enda. Hér hef ég átt dásamlegar stundir. Í gær og í fyrradag stoppaði ég í miðri yoga asönu til að stara á svan (fugl) á sjónum. Allt svo friðsælt.

Vorkenni Svani að fá mig heim. Ég þoli ekki drasl og núna er heimilið mitt á hvolfi! Flotið klikkaði og gerði allt verra og núna er ekki pláss fyrir parketið undir hurðarnar. Klúður. Hann Etibar í Parki geymir parketið mitt.

Hápunktur vikunnar voru allar gòðu stundirnar þar sem ég var dansandi hér um. Loksins ein og í friði. Gæti verið hér minnst viku í viðbót.

Lágpunktur vikunnar var þegar ég hvæsti smá á Guðrúnu Höllu eða Svan. Já eða bæði. Það er að koma hart í bakið mitt að hafa ekki komið mér í húsmæðraorlof FYRR því jú allar húsmæður þurfa að komast vel og rækilega í burtu frá heimilinu endrum og eins og oft.

Mig langar ekki heim. 

Verkefni vikunnar var nú bara að passa upp á geðheilsuna. Aðallega að missa hana ekki. Það er eitthvað sem gerist þegar heimilið manns er á hvolfi sem erfitt er að útskýra.

Það er ekki eins og ég hafi vitað að við ætluðum að strauja allt út úr WC líka.

Mig langar ekki heim.

Blessi mig og þig.

Namaste

Friday, October 24, 2025

What a week

Mín innri húsmóðir ljómar ekki í dag.

Heimilið hefur fyllst af iðnaðarmönnum og mér finnst nóg um stússið og fyrirferðina í karlmönnum, tækjum og ryki. Það er líka mín versta martröð að finna gólfið heima á 2.hæð hristast vegna þess að slípirokksvél eða einhver andskotinn er að slípa nakið gólfið. 

Ég er flúin út á Álftanes í foreldrahús þar sem allt er með kyrrum kjörum og engin gólf hrisstast. Það er búið að taka allt af WC-inu líka heima og mig langar alls ekki heim.

Keyrði þrisvar í bæinn í gær og var orðin verulega þreytt í gærkvöldi. Guði sé lof fyrir vetrarfrí hjá Guðrúnu Höllu í dag þar sem ég þurfti ekki að vakna til að skutla henni.

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég var að sjálfboðaliðast fyrir Rauða krossinn. Erfitt að útskýra vellíðanina sem fylgir því.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar ég stressöskraði í bílnum. Of mikið í gangi, þurfti að flytja út á núll einni liggur við, átti að vera á námskeiði á sama tíma og svo voru ónefndir fjölskyldumeðlimir með óraunhæfar kröfur. Allt á sama tíma. Það var svo sannarlega Skúla fúla sem mætti í sund þann morguninn!

Verkefni vikunnar … glætan, hef ekki tíma fyrir verkefni vikunnar!

Namaste vinir🙏

Friday, October 17, 2025

Merkilegt ...

 ... hvað ég er róleg yfir þessum framkvæmdum hérna heima. 

Við tókum gamla parketið af síðustu helgi. Í ljós komu þessir fínu gólfdúkar undir. Linoleum dúkur í stofunni og svo eins konar korkdúkur á ganginum. Fjarlægðum skóskápinn sem var gott því að neðsta og stærsta hillan var brotin og virkaði ekki. 

Núna er sem sagt enginn staður til að leggja eitthvað frá sér!

Fengum teikningarnar frá Ikea í gær og erum að djúppæla í þeim. Það er eyja á þeim og þar með væri hálf stofan farin (ég vil líka skjóta inn að hún myndi vera beint fyrir neðan gluggann fyrir ofan svalirnar sem verður alltaf að vera opinn fyrir frú Svövu.)

Það er sem sagt allt á hvolfi hjá okkur og erfitt að sjá fyrir endann á því. 

Hápunktur vikunnar var mánudaginn þegar kúnni kallaði mig galdrakonu. Mér þykir svo vænt um þegar einhver kann að meta það sem ég er að gera:)

Lágpunktur vikunnar var þegar ég þurfti að fara til osteópatans vegna þess að mér er illt í vinstri mjöðminni. Aftur er það spjaldið eða eins og Jói osteópati útskýrði fyrir mér ... stíft liðband þar eða eitthvað svoleiðis. 

Verkefni vikunnar ... OK. Ég þrái einhvers konar skipulag og stefnu mér til góðs en það fór lítið fyrir verkefni vikunnar að þessu sinni þar sem ég var að skrá inn vörubílaaksturinn fyrir Grjótavík ehf. Smá skondið að Svanur skar sem sagt gamla parketið af en skildi eftir smá bút þar undir skrifborðinu þar sem ég er núna og skrifborðsstóllinn úr Ikea nemur við það. Það tekur alltaf smá á bakið mitt að sitja lengi við tölvu og vikan var engin undantekning. 

Guði sé lof fyrir Sundhöll Reykjavíkur! Það er smá horn í einum af heitu pottunum sem er með nuddi sem er búið til fyrir mjaðmirnar mínar.


Namaste


Friday, October 10, 2025

Upstream

 Þessi vika er búin að vera þannig.

Er búin að djöflast í gegnum þessa viku á hnefanum. Kom heim frá Eyjum með hálsbólgu, kvef og nokkrar kommur og vissulega slöpp en gerði allt sem á dagskrá vikunnar var bæði samviskunnar vegna og vegna þess að mig vantar sárlega þessa fáu félagslegu viðburði sem þó eru á dagskránni. Það er nú oftast ekki svo mikið sem ég er að gera dags daglega og ekki kann ég að vera veik svo ég hef bara gert allt eins og vanalega. Er loksins farin að líða aðeins betur. 

Ég var rosalega ánægð með Vestmannaeyjar. Ánægð með að hafa staðið mína plikt og verið liðsstjóri og horft á alla leikina og svona. Það var rok í Eyjum og það réðst á mig svo óþægileg hálsbólga þessar tvær nætur sem ég var þarna að ég gat varla kyngt. Frekar lame. Fór ein að út að borða á föstudagskvöldinu sem var nú bara allt í lagi. Kynntist fólki á laugardeginum sem var æði. Var virkilega ánægð með mig. Það var hálfnorsk stelpa samferða okkur heim í bílnum hennar mömmu og það var líka góð reynsla. Góð stelpa. 

Þegar mér líður illa hlusta ég á Abraham Hicks. Hún Ester (sem miðlar Abraham auðvitað) kemur manni í The vortex og allt verður betra. Ester talar um að auðvitað eigum við að vera downstream. Allt flæðir eðlilega til okkar og frá okkur og allt er í goodí. Við eigum ekki að vera upstream sem er nú bara að synda á móti straumnum. 

Hápunktur vikunnar var þegar ég fékk faðmlag frá Styrmi mínum þegar ég sótti hann í leikskólann í vikunni. Loksins er hann sáttur við ömmu sína. Ég passaði auðvitað að eiga nóg bláber fyrir hann:)

Lágpunktur vikunnar var þegar við Guðrún Halla komum heim frá Eyjum og sáum að það var ekki búið að gera handtak í heimilisstörfum heima. Allt eins og við skildum við það. Mér féllust svo hendur að ég held að það hafi verið tímapunkturinn sem ég varð slöpp. 

Framundan eru það skýtnir tímar að mér líður skringilega í hausnum. Í vikunni fór ég og keypti parket í Parki. Við fáum að geyma það í búðinni vegna þess að við eigum eftir að taka gamla af og flota og tadaradada! ... færa eldhúsið yfir í stofuna! Bomba.

Namaste vinir.

Thursday, October 2, 2025

Rebel to a fault

 Ég er dáldið búin að vera synda upstream þessa vikuna.

Skúla fúla. Þar sem ég er bekkjarfulltrúi núna þurfti ég endilega að koma með smá leiðinda komment í bekkjarfulltrúahópinn um hversu stór árgangurinn hjá krökkunum er. 2013 árgangurinn er með um 78 nemendur í Hlíðaskóla og fyrirhugaður er fjöldafundur þar sem á að nást að gera sáttmála um fyrirhugaðar breytingar á bekkjarkerfinu. Það reddaðist fyrir horn. Finnst bara ekki gaman á stórum fundum. Sjálfselskan uppmáluð. Það er ég.  

Þarf alltaf að vera the odd one out. Sú sem fylgir ekki straumnum. Gerir ekki það sama og hjörðin bara vegna þess að allir gera það. Það er eilíf barátta að vera umkringd A týpum og extrovertum þó ég viti að svoleiðis týpur eru bráðnauðsynlegar allri framþróun. Ef allir væru eins og ég myndi líklegast aldrei neitt gerast. 

Þar sem ég neita að lífi mínu og limum sé stjórnað alfarið af áðurnefndum týpum er ég sem sagt að fara með seinni ferðinni til Eyja á morgun. Er ekki alfarið til í að missa af morgunhugleiðslunni og ræktinni og er ekki til í að stressið sé í hámarki fyrir handboltamót hjá dóttur minni. Jú, flestir aðrir fara um morguninn og leggja af stað kl 08. Þekkjandi mig myndi það eyðileggja daginn að leggja af stað svona snemma. Myndi koma til Eyja með tóman tank.

Ég er orðin svo vön því að vera utanveltu í heimi A týpna og extroverta að ég hef ekki einu sinni áhyggjur af því að þekkja engan á mótinu. Það er eins og hinar mömmurnar go way back. Allt í lagi. Ég á pantaðar tvær nætur á Hótel Vestmannaeyjum og væri sátt við að eyða dögunum þar introvertinn sem ég er. Verð nú líklegast sem allra minnst á hótelinu samt. 

Vonandi kynnist ég fólki. Það er kominn tími til. 

Þið megið gjarnan hugsa fallega til mín um helgina. Gæti þurft á því að halda.

Namaste.