Þó að ég sé orðin vön því að allt sé á hvolfi á heimilinu er gott og gaman að sjá útkomuna. Árangurinn.
Það urðu svo miklar breytingar í gær. Eins fúlt og það var að fá erlenda verkamenn bankandi og takandi í húninn kl 07:53 þá var ég svo ánægð með þá þegar ég kom heim af námskeiði. Ekki það að ég hafi neitt á móti erlendum verkamönnum. Þeir voru bara líka deginum áður og voru eins og Svanur orðaði það hálfgerðir skrattar. Horfðu ekki á mann, töluðu ekki við mann, voru bara hálfgerðir skrattar. Viðmót þeirra var allt annað í gær, sá þá brosa tvisvar ef ekki þrisvar.
Annars er þetta allt orðið hálf langdregið. Svanur hefur greinilega ákveðið að taka þetta með trukki því það er málað einn daginn, upp með innréttinguna næsta dag, svo á að parketleggja í dag. Hann talaði um að flísaleggja líka en ég veit ekki. Er eiginlega farin að hafa stórkostlegar áhyggjur af honum. Hann er búinn að sinna þessum framkvæmdum alla daga í marga mánuði, vinna með og sinna alls konar málum sem hafa komið upp á. Hann er orðinn verulega þreyttur.
Það má samt teljast gott að í öllu þessu ferli hef ég bara snappað á hann einu sinni og hann á mig einu sinni. Mér finnst það góður árangur.
Vikan var .. hún þaut frá mér. Er þreytt en Svanur er líklegast þrisvar sinnum þreyttari. Hann er samt strax byrjaður að hamast hérna kl 08:02 þrátt fyrir að hafa þrælað sér út í gærkvöldi líka. Miðað við áganginn á íbúðina frá alls konar mönnum og það sem ég held að sé að fara gerast líka í dag ætla ég að forða mér í foreldrahús. Það er rosalega langt síðan ég horfði á Gísla Martein (Vikan) í sófa í stofu með gólfefni. Það væri nú gott að fá sér smá vín með. Kannski, bara kannski.
Ég er búin að hugsa til elsku Styrmis míns alla vikuna. (Fæ kökk í hálsinn núna.) Mér finnst svo leiðinlegt að hann hefur ekkert getað komið til ömmu Svövu í langan tíma. Ég tók reyndar barnabílstólinn út úr bílnum einhvern tímann þegar draugurinn kom. Mikið ofboðslega langar mig í nýjan bíl! Vanalega þegar draugurinn kemur get ég ekki læst. Draugurinn kom aftur í gær og núna get ég ekki opnað (nema bílstjóramegin.) Er samviskusöm kona og vil ekki að barnabílstóll sem ég er að leiga og á ekki og sem ég kann ekki að setja í né taka út sé í ólæstum bíl.
Hápunktur vikunnar var nýr ánægður viðskiptavinur í nuddinu. Líka að aðili frá RUV hafði samband og vill fá nudd. Næsta vika er að fyllast af alls konar kúnnum, aðallega nýjum og ég kann vel við það.
Lágpunktur vikunnar var kannski bara í gær þegar við Svanur vorum þreytt og hann hvæsti á mig. Er með ljósfælni og get eiginlega ekki verið inn í stofu með öll þessi ljós eins og kastara á mér. Er búin að nota sólgleraugun sem elsku Tinna gaf mér daglega. Þetta eru svona smart gleraugu sem eru gerð úr drasli úr sjónum. Elska þau. Aðallega af því að Tinna gaf mér þau.
Maður minn, hvað ég er þreytt. Svavan sefur ekki vel þegar maðurinn hefur hvæst á hana rétt fyrir svefninn.
Namaste.

No comments:
Post a Comment