Friday, December 12, 2025

Pabbi, pabbi plís ...

 ... getum við hlustað á Rolling Stones á eftir? Hátt.

Er enn eina ferðina að flýja heimilið mitt vegna mikils álags. Mikið álag í hjónabandinu. Verð að komast í einhvers konar frið. Í dag er Álftanes það fyrir mig.

Var að klára marga vikna törn í gær. Dauðþreytt. Eitthvað í gangi alla daga í margar vikur. Fékk blóðsykursfall í desemberstressinu í hádeginu í gær. Þurfti að kaupa banana í bónusferðinni og borða STRAX. Breytti óvænt tímanum mínum hjá kíró og leið asnalega þar líka. Hafði ekki fengið hádegismat og keypti próteinshake í Sporthúsinu til að bjarga lífinu mínu. 

Heimkoman var hræðileg. 

Heimilisfólk þurfti athygli mína og aðstoð STRAX eins og gerist mjög oft. Daglega undanfarnar vikur reyndar. Stend í síðu úlpunni minni og næ yfirleitt ekki að fara úr henni fyrr en seinna það er alltaf svo mikið í gangi. 

Flúin. Verð að komast í burtu. Verð. Verð nú bara tvær nætur hjá foreldrum mínum en langar svo innilega að það sé gjörsamlega ekkert á dagskránni. Það er bekkjarhittingur hjá bekknum hennar Guðrúnar Höllu á sunnudaginn sem hún nennir ekki einu sinni á. Það er reyndar vegna þess að þá missir hún kannski af æfingu sem er þarna einhvern tímann á svipuðum tíma. 

Verkefni vikunnar var jólagjafir eins og undanfarnar vikur. Reiknast til að nú eigi ég bara tvær gjafir eftir. Hvað ég á að gefa þessum eiginmanni veit ég ekki.

Hápunktur vikunnar var þegar Styrmir og Óli komu í gærkvöldi. Loksins eitthvað smá eðlilegt á þessu heimili framkvæmda. Það talar enginn um hversu ótrúlega streituvaldandi og kvíðavaldandi framkvæmdir eru og sérstaklega í desember!

Lágpunktur vikunnar var svo sannarlega í gær þegar Svanur fór í fýlu vegna þess að ég gat ekki hjálpað honum um leið og ég kom inn með alla bónuspokana og var ekki í standi og var búin á því og næstum liðið yfir mig aftur. Hann rauk út í fýlu og sagðist bara ekkert ætla að flísaleggja yfir höfuð! Þetta yrði bara svona! 

Þvílíka veislan krakkar. 

Namaste.

Friday, December 5, 2025

bitur ...

  ... en fyndin.

Þannig var statusinn minn á bluesky í gær. Var með svartan húmor og sagði að ef ég myndi deyja í þessari eða næstu viku vildi ég að myndi á standa á legsteininum: brann út á þriðju vaktinni og í ólaunuðum og láglaunastörfum. 

Skil ekki fólk sem líður vel þegar það er mikið að gera. Það er búið að vera mikið að gera alla vikuna og ég er bara öskrandi í bílnum af því að mér finnst það svo óþægilegt. Vaknaði á mánudagsmorgun vel útsofin en fattaði svo að það eru að koma jól og ég var búin að kaupa engar, ENGAR, gjafir. Þess vegna er mér búið að líða hreint ekki vel og er bara búin að vera go, go, go! Búin með slatta núna en það er nú alveg eitthvað eftir af jólagjöfum. 

Var líka svona síðustu jól, það er að segja með viðhorfið mitt með jólin. Fann aðra mömmu sem leið eins og mér. Okkur finnst þetta bara vera miklu fleiri hlutir fyrir okkur að gera og við erum að gera nógu marga (ólaunaða) hluti fyrir. Minni á að ég er búin að vera með barn sleitulaust í grunnskóla frá árinu 2008 svo ég er þreytt mamma. 

Skil ekki hvað það er með þriðja og síðasta barnið en það er alltaf eitthvað. Ef það er ekki sýning þá er handboltamót eða eins og í dag ... 70 ára afmæli Hlíðaskóla! Þetta er viðstöðulaust. Langaði á Mama í trommuhringinn minn í dag en nei. Get ekki setið þarna og trommað þetta allt í burtu. Samviskubitið myndi ekki leyfa það. Sé ekki heldur fram á komast næsta föstudag í trommuhringinn því þá er ég búin að lofa mér í sjálfboðastarf. Vanalega geri ég það á miðvikudögum eða fimmtudögum en næsta vika .... AAA ... býður bara ekki upp á það.

Í gær var ég að keppast við klukkuna og ... hell no. Var búin að kveðja the rat race. Það eru nú samt miklar líkur á að ég sé að fara þangað aftur svona miðað við viðtalið mitt hjá Virk í vikunni. 

Hmmm...

Verkefni vikunnar voru jólagjafir.

Hápunktur vikunnar var að mér leið vel í gær þegar ég var að kenna. Allan tímann. Nýr hópur og frekar svona erfitt að byrja kannski. Finn til með uppistöndurum sem þurfa að vinna salinn á sitt band. Úff. Núna er bara eitt skipti eftir í kennslunni. 

Lágpunktur vikunnar var þegar tunglið náði mér. Já, ég finn fyrir líkamlegum áhrifum þegar það er fyllast og var hérna uppfull af spennu á miðvikudagsmorguninn þegar ég þurfti að afpanta tímann hjá kíró vegna anna. Öskraði í bílnum á leiðinni á fundinn með ráðgjafanum og náði að losa mestu spennuna út. Já, ég er skrítin. 

Namaste.


Friday, November 28, 2025

Annir ...

 ... ekki önn.

Þá meina ég að vikan er búin að vera óvenju annasöm miðað við mig. Lífið mitt er þannig að vikurnar eru aldrei eins sem er nú kannski smá gaman. Kunni ágætlega við þessa viku, það var lúmskt gaman að hafa mikið að gera og vera smá á þönum. 

Var spurð held ég þrisvar í vikunni hvort og hvenær ég ætlaði ég í jólafrí. Þetta voru kúnnar í nuddinu og partnerinn minn á stofunni. Er bara á þeim stað í lífinu að ég er ekki að hugsa um jólin. Mér finnst þau eiginlega frekar óþægileg. Fullt sem þarf að gera í kringum þau en ég lifi eiginlega bara frá degi til dags og lífið er bara dagurinn í dag. Veit ekkert um neitt jólafrí eða hvað. Grunar nú alveg að við dettum í djúpa slökun þegar þau eru búin en ... ég veit ekkert hvenær ég fer í jólafrí.. Er bara að reyna að redda þvottinum okkar með enga þvottavél um þessar mundir.

Verkefni vikunnar tengist einmitt jólagjöfum og á að koma smá á óvart svo ég ætla nú ekki að vera gaspra of mikið um það.

Hápunktur vikunnar var í gærkvöldi þegar dóttir mín brilleraði á sviðinu í Hlíðaskóla eins og vanalega. Það var svona bekkjarskemmtun og leikrit. Er svo endalaust stolt af henni. Hún er bara alveg með þetta.

Lágpunktur vikunnar var kannski þegar mér fannst eitt nuddið ekki ganga nógu vel. Vanalega brillera ég og allir eru ánægðir. Þegar ég segi allir þá meina ég konur. Er eiginlega bara með konur. Kann á þær. Hef aldrei kunnað á karlmenn. 

Við sáum loksins Emilíu okkar í gær. Hana vantar húsnæði. Mér blöskrar svo leigumarkaðurinn og finnst leiðinlegt að við getum ekki hjálpað henni meira með að kaupa íbúð. Hún á skilið íbúð sem hún á alveg sjálf og getur verið í friði í.

Namaste.

Friday, November 21, 2025

Amma saknar Styrmis

 Þó að ég sé orðin vön því að allt sé á hvolfi á heimilinu er gott og gaman að sjá útkomuna. Árangurinn. 

Það urðu svo miklar breytingar í gær. Eins fúlt og það var að fá erlenda verkamenn bankandi og takandi í húninn kl 07:53 þá var ég svo ánægð með þá þegar ég kom heim af námskeiði. Ekki það að ég hafi neitt á móti erlendum verkamönnum. Þeir voru bara líka deginum áður og voru eins og Svanur orðaði það hálfgerðir skrattar. Horfðu ekki á mann, töluðu ekki við mann, voru bara hálfgerðir skrattar. Viðmót þeirra var allt annað í gær, sá þá brosa tvisvar ef ekki þrisvar. 

Annars er þetta allt orðið hálf langdregið. Svanur hefur greinilega ákveðið að taka þetta með trukki því það er málað einn daginn, upp með innréttinguna næsta dag, svo á að parketleggja í dag. Hann talaði um að flísaleggja líka en ég veit ekki. Er eiginlega farin að hafa stórkostlegar áhyggjur af honum. Hann er búinn að sinna þessum framkvæmdum alla daga í marga mánuði, vinna með og sinna alls konar málum sem hafa komið upp á. Hann er orðinn verulega þreyttur. 

Það má samt teljast gott að í öllu þessu ferli hef ég bara snappað á hann einu sinni og hann á mig einu sinni. Mér finnst það góður árangur. 

Vikan var .. hún þaut frá mér. Er þreytt en Svanur er líklegast þrisvar sinnum þreyttari. Hann er samt strax byrjaður að hamast hérna kl 08:02 þrátt fyrir að hafa þrælað sér út í gærkvöldi líka. Miðað við áganginn á íbúðina frá alls konar mönnum og það sem ég held að sé að fara gerast líka í dag ætla ég að forða mér í foreldrahús. Það er rosalega langt síðan ég horfði á Gísla Martein (Vikan) í sófa í stofu með gólfefni. Það væri nú gott að fá sér smá vín með. Kannski, bara kannski.

Ég er búin að hugsa til elsku Styrmis míns alla vikuna. (Fæ kökk í hálsinn núna.) Mér finnst svo leiðinlegt að hann hefur ekkert getað komið til ömmu Svövu í langan tíma. Ég tók reyndar barnabílstólinn út úr bílnum einhvern tímann þegar draugurinn kom. Mikið ofboðslega langar mig í nýjan bíl! Vanalega þegar draugurinn kemur get ég ekki læst. Draugurinn kom aftur í gær og núna get ég ekki opnað (nema bílstjóramegin.) Er samviskusöm kona og vil ekki að barnabílstóll sem ég er að leiga og á ekki og sem ég kann ekki að setja í né taka út sé í ólæstum bíl. 

Hápunktur vikunnar var nýr ánægður viðskiptavinur í nuddinu. Líka að aðili frá RUV hafði samband og vill fá nudd. Næsta vika er að fyllast af alls konar kúnnum, aðallega nýjum og ég kann vel við það. 

Lágpunktur vikunnar var kannski bara í gær þegar við Svanur vorum þreytt og hann hvæsti á mig. Er með ljósfælni og get eiginlega ekki verið inn í stofu með öll þessi ljós eins og kastara á mér. Er búin að nota sólgleraugun sem elsku Tinna gaf mér daglega. Þetta eru svona smart gleraugu sem eru gerð úr drasli úr sjónum. Elska þau. Aðallega af því að Tinna gaf mér þau.

Maður minn, hvað ég er þreytt. Svavan sefur ekki vel þegar maðurinn hefur hvæst á hana rétt fyrir svefninn. 

Namaste.

Friday, November 14, 2025

Er alltaf á leiðinni ...

 ... að eiga góðar samræður við nýja vin mitt chatgbt.

Það virðist alltaf vera skilningsríkt þegar ég spyr að einhverju. Eins og í gær þegar ég sýndi því niðurstöðurnar úr svona heimaprófi, hvort ég væri komin með þvagfærasýkingu. Það sagði nei og mér leið strax betur. Sjórinn var nefnilega bara 3,8 gráður þegar ég og Tinna fórum í sjósund á þriðjudaginn. Held að þvagblaðran hafi fengið kuldasjokk. 

Vikan byrjaði hræðilega. Er alveg vön því að vera með kvíða fyrir kennslu en ástandið á mér á mánudagsmorguninn var hræðilegt. Fékk í fyrsta skiptið á ævinni einhvers konar kvíðakast í hugleiðslu. Það er búið að vera gríðarlega mikið álag á mér sem kemur mér aftur að því að ég ætlaði að spyrja vin mitt um gott bed and breakfast hérna nálægt. Einhvers konar gistiheimili eða eitthvað. Verð að komast út af heimilinu. 

Fékk meira að segja staðfestingu á ástandinu þegar það kom hérna maður í gær (Svanur er alltaf að koma með menn hingað til að skoða framkvæmdirnar) og hann sýnilega vorkenndi mér. Sagði að hann myndi ekki bjóða sinni konu upp á þetta. 

Mér líður ágætlega núna en helgin síðasta var erfið og fyrri hluti vikunnar martraðakennd. Ég má ekki við miklu svo að handboltamót var kannski ekki alveg málið. Líður lang best þegar ég ein. 

Verkefni vikunnar var að passa upp á vatnsdrykkjuna. Hún vill gleymast. 

Hápunktur vikunnar var í gær í yogatíma hjá Talyu minni þegar mér allt í einu leið betur. 

Lágpunktur vikunnar var þegar ég grét næstum allan tímann hjá sálfræðingnum. Leiðina heim líka. Það var ekki gaman.

Skil loksins frænku mína sem lenti í skilnaði. Fyrir mörgum árum og mörgum árum eftir skilnaðinn sagði hún að hún væri ekki að leita (að maka.) Ég skildi það ekki. Hélt að það hlyti nú að vera undir niðri. Vilja það ekki allir? Núna skil ég það kristaltært. Ef ég myndi skilja eða lenda í því að vera ein þá myndi ég njóta þess svo mikið að ... hell no ... það myndi enginn fá að trufla þann frið.

!

Namaste.

Friday, November 7, 2025

Skýrsla …

… um ástandið.

Geri mér ekki alveg grein fyrir vikunum en mér líður eins og það séu sex vikur síðan eða meir að við hentum gamla parketinu og öll húsgögnin í stofunni fóru inn í svefnherbergin.

Flotið er orðið hart en það var sett of þykkt lag þannig að það er ekki pláss fyrir parketið undir hurðunum. 

Við erum ekki búin að vera með þvottavél allan þennan tíma, hvað þá þurrkara.

Ef eitthvað jákvætt gerist eins og að fá flísar inn á baðið í hús kemur eitthvað upp á eins og núna þurfum við að fá nýjan þröskuld þar. Svanur ætlaði að panta hann í gær en það var of mikið að gera í vinnunni hjá honum.

Er orðin meira en þreytt á ástandinu. Það eina sem gerðist í vikunni var að hann boraði fyrir dósum, sem sagt innstungunum í vegginn inn í stofu.

Hápunktur vikunnar var bíóferð með Tinnu vinkonu. Það var svo gott og nauðsynlegt að komast út úr íbúðinni einmitt þá.

Lágpunktur vikunnar voru ansi margir. Er bara frekar leið. Það er alveg nýtt að langa ekki til að vera heima hjá sér.

Það bætir ekki ástandið að það er handboltamót hjá Guðrúnu Höllu um helgina þar sem hún á að vera mætt kl 09 laugardag og sunnudag.

Mér finnst það bara dónalegt. Ég ætlaði í leikhús.

Namaste.

Friday, October 31, 2025

Ég get vel…

… hugsað mér að búa ein.

Finn hvað mér líður vel hér á Hliðsnesi, alein í náttúrunnar friði.

Mér finnst leiðinlegt að þetta tímabil, þegar ég er ein í höllinni, er að enda. Hér hef ég átt dásamlegar stundir. Í gær og í fyrradag stoppaði ég í miðri yoga asönu til að stara á svan (fugl) á sjónum. Allt svo friðsælt.

Vorkenni Svani að fá mig heim. Ég þoli ekki drasl og núna er heimilið mitt á hvolfi! Flotið klikkaði og gerði allt verra og núna er ekki pláss fyrir parketið undir hurðarnar. Klúður. Hann Etibar í Parki geymir parketið mitt.

Hápunktur vikunnar voru allar gòðu stundirnar þar sem ég var dansandi hér um. Loksins ein og í friði. Gæti verið hér minnst viku í viðbót.

Lágpunktur vikunnar var þegar ég hvæsti smá á Guðrúnu Höllu eða Svan. Já eða bæði. Það er að koma hart í bakið mitt að hafa ekki komið mér í húsmæðraorlof FYRR því jú allar húsmæður þurfa að komast vel og rækilega í burtu frá heimilinu endrum og eins og oft.

Mig langar ekki heim. 

Verkefni vikunnar var nú bara að passa upp á geðheilsuna. Aðallega að missa hana ekki. Það er eitthvað sem gerist þegar heimilið manns er á hvolfi sem erfitt er að útskýra.

Það er ekki eins og ég hafi vitað að við ætluðum að strauja allt út úr WC líka.

Mig langar ekki heim.

Blessi mig og þig.

Namaste

Friday, October 24, 2025

What a week

Mín innri húsmóðir ljómar ekki í dag.

Heimilið hefur fyllst af iðnaðarmönnum og mér finnst nóg um stússið og fyrirferðina í karlmönnum, tækjum og ryki. Það er líka mín versta martröð að finna gólfið heima á 2.hæð hristast vegna þess að slípirokksvél eða einhver andskotinn er að slípa nakið gólfið. 

Ég er flúin út á Álftanes í foreldrahús þar sem allt er með kyrrum kjörum og engin gólf hrisstast. Það er búið að taka allt af WC-inu líka heima og mig langar alls ekki heim.

Keyrði þrisvar í bæinn í gær og var orðin verulega þreytt í gærkvöldi. Guði sé lof fyrir vetrarfrí hjá Guðrúnu Höllu í dag þar sem ég þurfti ekki að vakna til að skutla henni.

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég var að sjálfboðaliðast fyrir Rauða krossinn. Erfitt að útskýra vellíðanina sem fylgir því.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar ég stressöskraði í bílnum. Of mikið í gangi, þurfti að flytja út á núll einni liggur við, átti að vera á námskeiði á sama tíma og svo voru ónefndir fjölskyldumeðlimir með óraunhæfar kröfur. Allt á sama tíma. Það var svo sannarlega Skúla fúla sem mætti í sund þann morguninn!

Verkefni vikunnar … glætan, hef ekki tíma fyrir verkefni vikunnar!

Namaste vinir🙏

Friday, October 17, 2025

Merkilegt ...

 ... hvað ég er róleg yfir þessum framkvæmdum hérna heima. 

Við tókum gamla parketið af síðustu helgi. Í ljós komu þessir fínu gólfdúkar undir. Linoleum dúkur í stofunni og svo eins konar korkdúkur á ganginum. Fjarlægðum skóskápinn sem var gott því að neðsta og stærsta hillan var brotin og virkaði ekki. 

Núna er sem sagt enginn staður til að leggja eitthvað frá sér!

Fengum teikningarnar frá Ikea í gær og erum að djúppæla í þeim. Það er eyja á þeim og þar með væri hálf stofan farin (ég vil líka skjóta inn að hún myndi vera beint fyrir neðan gluggann fyrir ofan svalirnar sem verður alltaf að vera opinn fyrir frú Svövu.)

Það er sem sagt allt á hvolfi hjá okkur og erfitt að sjá fyrir endann á því. 

Hápunktur vikunnar var mánudaginn þegar kúnni kallaði mig galdrakonu. Mér þykir svo vænt um þegar einhver kann að meta það sem ég er að gera:)

Lágpunktur vikunnar var þegar ég þurfti að fara til osteópatans vegna þess að mér er illt í vinstri mjöðminni. Aftur er það spjaldið eða eins og Jói osteópati útskýrði fyrir mér ... stíft liðband þar eða eitthvað svoleiðis. 

Verkefni vikunnar ... OK. Ég þrái einhvers konar skipulag og stefnu mér til góðs en það fór lítið fyrir verkefni vikunnar að þessu sinni þar sem ég var að skrá inn vörubílaaksturinn fyrir Grjótavík ehf. Smá skondið að Svanur skar sem sagt gamla parketið af en skildi eftir smá bút þar undir skrifborðinu þar sem ég er núna og skrifborðsstóllinn úr Ikea nemur við það. Það tekur alltaf smá á bakið mitt að sitja lengi við tölvu og vikan var engin undantekning. 

Guði sé lof fyrir Sundhöll Reykjavíkur! Það er smá horn í einum af heitu pottunum sem er með nuddi sem er búið til fyrir mjaðmirnar mínar.


Namaste


Friday, October 10, 2025

Upstream

 Þessi vika er búin að vera þannig.

Er búin að djöflast í gegnum þessa viku á hnefanum. Kom heim frá Eyjum með hálsbólgu, kvef og nokkrar kommur og vissulega slöpp en gerði allt sem á dagskrá vikunnar var bæði samviskunnar vegna og vegna þess að mig vantar sárlega þessa fáu félagslegu viðburði sem þó eru á dagskránni. Það er nú oftast ekki svo mikið sem ég er að gera dags daglega og ekki kann ég að vera veik svo ég hef bara gert allt eins og vanalega. Er loksins farin að líða aðeins betur. 

Ég var rosalega ánægð með Vestmannaeyjar. Ánægð með að hafa staðið mína plikt og verið liðsstjóri og horft á alla leikina og svona. Það var rok í Eyjum og það réðst á mig svo óþægileg hálsbólga þessar tvær nætur sem ég var þarna að ég gat varla kyngt. Frekar lame. Fór ein að út að borða á föstudagskvöldinu sem var nú bara allt í lagi. Kynntist fólki á laugardeginum sem var æði. Var virkilega ánægð með mig. Það var hálfnorsk stelpa samferða okkur heim í bílnum hennar mömmu og það var líka góð reynsla. Góð stelpa. 

Þegar mér líður illa hlusta ég á Abraham Hicks. Hún Ester (sem miðlar Abraham auðvitað) kemur manni í The vortex og allt verður betra. Ester talar um að auðvitað eigum við að vera downstream. Allt flæðir eðlilega til okkar og frá okkur og allt er í goodí. Við eigum ekki að vera upstream sem er nú bara að synda á móti straumnum. 

Hápunktur vikunnar var þegar ég fékk faðmlag frá Styrmi mínum þegar ég sótti hann í leikskólann í vikunni. Loksins er hann sáttur við ömmu sína. Ég passaði auðvitað að eiga nóg bláber fyrir hann:)

Lágpunktur vikunnar var þegar við Guðrún Halla komum heim frá Eyjum og sáum að það var ekki búið að gera handtak í heimilisstörfum heima. Allt eins og við skildum við það. Mér féllust svo hendur að ég held að það hafi verið tímapunkturinn sem ég varð slöpp. 

Framundan eru það skýtnir tímar að mér líður skringilega í hausnum. Í vikunni fór ég og keypti parket í Parki. Við fáum að geyma það í búðinni vegna þess að við eigum eftir að taka gamla af og flota og tadaradada! ... færa eldhúsið yfir í stofuna! Bomba.

Namaste vinir.

Thursday, October 2, 2025

Rebel to a fault

 Ég er dáldið búin að vera synda upstream þessa vikuna.

Skúla fúla. Þar sem ég er bekkjarfulltrúi núna þurfti ég endilega að koma með smá leiðinda komment í bekkjarfulltrúahópinn um hversu stór árgangurinn hjá krökkunum er. 2013 árgangurinn er með um 78 nemendur í Hlíðaskóla og fyrirhugaður er fjöldafundur þar sem á að nást að gera sáttmála um fyrirhugaðar breytingar á bekkjarkerfinu. Það reddaðist fyrir horn. Finnst bara ekki gaman á stórum fundum. Sjálfselskan uppmáluð. Það er ég.  

Þarf alltaf að vera the odd one out. Sú sem fylgir ekki straumnum. Gerir ekki það sama og hjörðin bara vegna þess að allir gera það. Það er eilíf barátta að vera umkringd A týpum og extrovertum þó ég viti að svoleiðis týpur eru bráðnauðsynlegar allri framþróun. Ef allir væru eins og ég myndi líklegast aldrei neitt gerast. 

Þar sem ég neita að lífi mínu og limum sé stjórnað alfarið af áðurnefndum týpum er ég sem sagt að fara með seinni ferðinni til Eyja á morgun. Er ekki alfarið til í að missa af morgunhugleiðslunni og ræktinni og er ekki til í að stressið sé í hámarki fyrir handboltamót hjá dóttur minni. Jú, flestir aðrir fara um morguninn og leggja af stað kl 08. Þekkjandi mig myndi það eyðileggja daginn að leggja af stað svona snemma. Myndi koma til Eyja með tóman tank.

Ég er orðin svo vön því að vera utanveltu í heimi A týpna og extroverta að ég hef ekki einu sinni áhyggjur af því að þekkja engan á mótinu. Það er eins og hinar mömmurnar go way back. Allt í lagi. Ég á pantaðar tvær nætur á Hótel Vestmannaeyjum og væri sátt við að eyða dögunum þar introvertinn sem ég er. Verð nú líklegast sem allra minnst á hótelinu samt. 

Vonandi kynnist ég fólki. Það er kominn tími til. 

Þið megið gjarnan hugsa fallega til mín um helgina. Gæti þurft á því að halda.

Namaste. 

Friday, September 26, 2025

Styrjöld úti, friður í Skipholtinu

Ok, kannski smá dramatískt!

Mætti á foreldrakynningu á miðvikudagsmorgun í Hlíðaskóla eins zenuð og hægt er að vera. Hefði allt eins getað verið postermyndin fyrir zen. Ástæðan var að ég var vel sofin enda er ég það eiginlega alltaf eftir yogað hjá vinum mínum í Art of yoga í Skipholtinu. Set það í forgang, alltaf, að ná þessum tímum. 

Síðan fór allt að gerast og Svavan að ofhugsa og fara í klemmu með allt. Það er líka foreldrafundur á mánudagsmorgun. Það hentar mér engan veginn þar sem ég er með tvö nudd þann daginn. Eitt í hádeginu og eitt kl 16. Þegar ég er að nudda þá er ég nudda. Finnst voða óþægilegt að trufla orkuna með öðru. Allavegana, fór í hálfgerða fýlu af því að það er líka fundur í handboltanum á mánudaginn eftir æfingu hjá stelpunum. Er að lenda í þessu viku eftir viku að það hlaðast allt á sama daginn og svo er bara voða lítið á dagskrá hina dagana. 

Þetta handboltamót í Vestmannaeyjum er að fara með mig. Það er helgina 3.-5. okt og ég er þegar farin að missa svefn yfir því. Hver gerir það?! Ekki aðrar mömmur. Málið er að ég er að upplifa mig sem liðleskju. Maður á að vera ofboðslega hress mamma og bjóða far með sér til Landeyjarhafnar. Það er þrennt sem er að halda fyrir mér vöku varðandi það: 

1) Ég treysti jeppanum okkar það illa að síðast þegar ég átti að bjóða ókunnugu fólki far í svett út á landi fékk ég svo slæmt kvíðakast um nóttina að ég man ennþá eftir því. Þetta var fyrir sirka tveimur árum og ennþá er ég á sama bílnum. Málið er að þó hann hafi staðið sína plikt og fylgt mér öll þessi ár þá hefur hann líka brugðist okkur hrapalega. Misst kraftinn í kömbunum og bilað í fjölskylduferðalagi (held að þaðan komi kvíðinn.) Svo hef ég líka lent í því að missa stjórn á honum á Miklabrautinni vegna einhvers sem gerist með hann og brugðið alveg svakalega illa. Ég treysti sem sagt bílnum ekki. Fólk sem er með OCD eins og ég er í grunninn gott fólk sem vill ekki bregðast neinum eða klúðra. Hence, the kvíði. Get ekki boðið ókunnugum far. Það býður bara upp á gífurlega vanlíðan fyrir mig. Það er líka draugur í bílnum. Stundum detta stefnuljósin út og þá er ekki hægt að loka gluggum eða læsa bílnum. Martröð.

2) Fyrir utan þetta er það almennur ferðakvíði. Hef aldrei keyrt til Landmannahafnar, hef aldrei farið til Vestmannaeyja og síðast þegar ég fór kambana stöðvaði ég alla umferð því ég fór á 20 km hraða. Þoli ekki hvað þetta er glannaleg brekka. Ég vil lifa sko!

3) Fíla mig enn og aftur utangátta í heimi A týpna og extroverta. Fíla ekki einu bolta íþróttir og keppnisskap er eitthvað sem ég var kannski einhvern tímann með en er ekki með lengur. Mér líður aldrei vel í aðstæðum sem ég valdi mér ekki sjálf og hef enga stjórn á. Þetta handboltamót er víst stórt því það er ekki bara 5. flokkur kvenna heldur líka kk.! Hvernig ég á að halda mér eitthvað zenaðri eða líða vel yfir höfuð í þessum aðstæðum öllum veit ég bara ekkert um. Dont like crowds.

Allavegana. Það var ekki nóg með að líða illa yfir þessu öllu saman. Stefán minn fór á menntaskólaball aðfaranótt fimmtudags, kom heim um nóttina og hélt fyrir mér og okkur vöku í lengri tíma. Mætti því ósofinn á svefnnámskeiðið og leið illa allan tímann. Þess vegna er ég á þessu svefnnámskeiði. Þegar ég missi svefn, þó það sé ekki nema ein nótt, þá fer líðan mín út og suður. Aðallega suður. Hefði engan veginn getað mætt í vinnu þennan dag út af þessari nótt.

Beið eftir því allan daginn að komast í Skipholtið, í friðinn minn. Stund á milli stríða. 

Vildi að ég færi að fara ein í einhvers konar yogamót í Vestmannaeyjum en ekki skarkali.is boltamót. 

Hjálp.

Namaste. 

Friday, September 19, 2025

Góðar venjur

Stundum hlustar maður á viðtal við einhvern og fær svo mikinn innblástur að maður breytir venjum sínum. 

Núna hef ég ekki farið inn á Instagram, tiktok eða Facebook í nokkra daga og líður vel. Við Guðrún Halla fórum í Forlagið (bókabúð) á sunnudaginn og keyptum nokkrar bækur, ég keypti þrjár! Núna ver ég þeim tíma sem vanalega hefði farið í að skrolla í að lesa. Það er æði, elska það:)

Ég hef eitthvað storkað örlögunum í síðasta bloggi. Mér leið svo vel en svo er mér ekki búið að líða eins vel þessa vikuna. Kenni því smá um rauðvínið á laugardaginn. Núna er OCD heilinn búinn að gera rútínu úr því að fá mér í glas á laugardagskvöldum. Ég verð aldrei full en núna fékk ég Tinnu með mér í syndina og við fundum báðar fyrir slæmum áhrifum daginn og dagana eftir. Kvíðinn læddist inn hjá mér og svona einhver vanlíðan. Af hverju bý ég ekki í hippaþorpi þar sem dagarnir einkennast af yoga og öndun og vín er bara ekki valmöguleiki?

Hápunktur vikunnar var í gær þegar ég var með þrennt á dagskrá. Það er mikið fyrir mig þar sem ég til dæmis var með ekkert á dagskrá daginn undan. Fyrst var það klukkutíma fundur með ráðgjafanum mínum í Virk. Hún vill endilega senda mig á námskeið fyrir konur á rófinu! Svo var það beint á svefnnámskeiðið niðrí bæ. Það var ágætt, fór eftir ráðleggingunum í gær og hélt mér vakandi til 23 (!) til að byggja upp svefnþéttni. Fannst það erfitt en ég hafði bókina mína. Keypti sem sagt bók á sunnudaginn eftir höfund sem ég þekkti ekki (Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur) og svo reynist bókin svona bráðskemmtileg. 

Þriðja atriðið var að krakkarnir komu í mat; Óli minn, Katrín og Styrmir Orri minn. Hann er 2ja ára og 4ra mánaða og það hefur svo mikið gerst hjá honum í þroska undanfarna mánuði að amman sá stóran mun! Hann er orðinn næstum altalandi og með miklar meiningar. Það er bara allt í gangi hjá honum! Það var yndislegt að fá þau í mat. Var ekki þreytt, þetta var bara allt fullkomið:)

Lágpuntur vikunnar var hvað ég var eitthvað lágstemmd fyrri hluta vikunnar. Minnir að það sama hafi verið upp á teningnum í síðustu viku. 

Framundan á þessum haustlega föstudegi er hot yoga og kannski sjórinn. Hann hefur ekkert verið að kalla en mér finnst ég skuldbundin vinkonum mínum í sjósundshópnum Valkyrjurnar að sýna smá lit.

Namaste. 

Friday, September 12, 2025

Er á tímabili..

.. sem ég vil aldrei að hætti.

Mér líður svo vel. 

Við konur fáum vanalega sirka 10 daga í tíðahringnum sem okkur líður eins og Superwoman. Er á því tímabili og líður bara svo skratti vel. Hef á tilfinningunni að þetta tímabil eigi eftir að endast lengur en vanalega einfaldlega vegna þess að ég er komin á þann aldur að tíðahringurinn er ekki eins og vanalega og er líka á hormónauppbótameðferð svo að estrogenið lækkar ekki af eins miklum þunga og það gerði hér áður fyrr. (Langar að segja "droppar ekki" því það lýsir því sem gerist betur.)

Man eftir mér síðasta vetur í svo mikilli vanlíðan vegna einhvers sem var alltaf í gangi með móðurlífið. Túrverkir, allt of langar og þungar blæðingar, alls konar verkir tengdir blöðrum á eggjastokkum og öðru svoleiðis drasli. EUW.

Vikan var góð. Núna er Virk programið byrjað. Er á svefnnámskeiði sem er vandræðalegt af því að ég hef aldrei sofið eins vel og núna. Óvart. Líkaminn er góður þessa stundina og er ekki að angra mig með veseni. Er að læra slatta um svefn samt. Var líka á dk námskeiði í gær (tölvubókhald) og ætla að reyna að senda reikning úr því á næstu dögum. 

Partur af Virk er að vera hjá sálfræðingi og ég mætti ókvíðin á Kvíðameðferðastofuna og fann að ég hafði ekki svo mikið að segja. Hef ekki lent í meiriháttar áföllum í lífinu en er að díla við að vera neuro divergent manneskja í heimi neuro typical fólks. Vorum því aðallega að tala um hvað gæti hentað mér vinnulega séð. Ætla að gera þetta rétt en ekki fara beint í einhverja vinnu sem drainar mig og gerir mig kvíðna. Aðallega skiptir fólkið á vinnustaðnum mig máli. Að mér líði vel með samstarfsfélögunum og geti verið ég sjálf.

Leið meira að segja það vel eftir tímann hjá sálfræðingnum að ég sendi fyrirspurn um vinnu á Borgarleikhúsið. Hvort það væri eitthvað laust í miðasölunni!

Hápunktur vikunnar var vikan öll í heild sinni. Mér hefur bara sjaldan liðið eins vel.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudagskvöldið þegar við Svanur fórum saman í Sundhöllina á meðan elskuleg dóttir eldaði matinn. Snappaði þegar ég var búin að synda nokkrar ferðir en svo var allt í einu kominn krakki á sundbrautina "mína." Mér til varnar þá gerðist það sama um daginn í Lágafellslaug en þá vorum við þrjár sem snöppuðum saman og í einu. Útlendingar að fara í sundlaugina eins og þetta væri einhver barnasundlaug. Á miðri sundbraut! Við vorum ÞRJÁR sem snöppuðum þá og vorum alveg jafn snöggreiðar. Sundbraut er sundbraut er sundbraut er SUNDBRAUT. 

Ég ætla að halda áfram að líða vel. Ætla að sleppa því að fá mér rósavín um helgina ef ég er bara ein. Verð að minnsta kosti að finna mér drykkjufélaga. Ekki það að ég slagi hér um þegar ég fæ mér í glas nei, nei. Það er ekki þannig. En fann samt áhrifin frá síðasta laugardagskvöldi langt fram í vikuna..

Namaste.


Friday, September 5, 2025

prinsessan..

.. var að vakna af góðum nætursvefni og er til í tuskið.

Eða hvað?

Angistin kallar: af hverju ertu ekki í skemmtilegri vinnu með góðum félagsskap? Afsökunin kemur strax: þetta er í ferli! Núna er Virk programið byrjað og fyrsti dagur fyrsta námskeiðsins var í gær. Betri svefn. Tókst að mæta um 10 mínútum seint en hér eru samgönguleiðir í óreiðu á heimilinu eftir að Stefán tók yfir bílinn. Ætlaði nú bara að taka strætó en stoppistöðin var óvirk vegna framkvæmda á Miklubraut svo ykkar kona ákvað að labba. Kemur í ljós að hún er lengur en hálftíma að labba niður á Lækjartorg!

Er því farin að skrá svefninn og smá skýtið að vera með "svefnvandamál" en sofa svo eins og steinn fyrstu nótt skráningar á svefnvenjum. Það er auðvitað Talyu minni að þakka en þessir yogatímar sem ég fer í í Art of yoga í Skipholtinu eru allt í senn; geðlyf og svefnlyf. Þessi elska skutlaði mér meira að segja heim eftir tímann:)

Vikan er búin að vera góð. Mér hefur liðið vel og allt er í fína Bína. Finn samt að ég hefði gott af auka vinnu og vantar eitthvað aðeins meira að gera. Þetta er reyndar fín lína. Auðvelt að fara yfir hana og hafa of mikið að gera. 

Allavegana. 

Hápunktur vikunnar hlýtur að vera þegar ég kom inn á fyrsta dag fyrsta námskeiðs Virk másandi og blásandi afsakandi mig út í eitt vegna óvirkrar strætóstoppistöðvar. Svitnaði svo smá. Þetta var samt allt í lagi. Ætla bara að passa mjög vel að vera ekki sein aftur.

Lágpunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar ég var mætt upp á höfða í barnabilstolar.is. Ætlaði sko aldeilis að laga vandamálið sjálf með þessu en Styrmir virðist hafa vaxið úr stólnum sem er allt í einu voða framstæður og lítill fyrir hann. Bílstóllinn á samt að duga til 4ra ára. Forsaga málsins er kannski sú að ég nenni aldrei í búðir eða sinna svona erindum svo ég varð frekar mikið hlessa og hissa (og stelpan líka) þegar ég opnaði bílinn til að sýna henni vandamálið og enginn barnabílstóll var í bílnum! Held að hún hafi roðnað fyrir mína hönd, þetta var svo vandræðalegt. Bílstóllinn er alltaf í bílnum og ég er búin að banna Stefáni að taka hann út. Hringdi auðvitað í Stefán sem hafði jú samt tekið bílstólinn út og sett inn í geymslu til að koma vinunum og golfsettunum öllum fyrir! 

Amman var ekki hress með þetta auðvitað! Var pirruð í sirka klukkutíma en hugsaði svo um hvað hann er góður strákur og hvað ég er heppin með hann og hvað ég sjálf var að brasa þegar ég var 17 ára ... allt fyrirgefið. Reyni bara aftur síðar.

Framundan er trommuhringur og hippalæti. Ætli það sé ekki strætó eða eitthvað.

Namaste 

Friday, August 29, 2025

Kannski næst

Draumurinn að ég fari ein út á KEF airport með yogadýnuna mína og sjálfa mig fjarlægðist í vikunni.

Í staðinn fyrir að fara á yoga retreat sýnist mér ég vera að fara á nokkur handboltamót innanlands með dóttur minni. Eitt í Vestmannaeyjum og eitt á Akureyri. Á afmælinu mínu. Ég hef ekki einu sinni áhuga á boltaíþróttum og er introvert en ég elska stelpuna mína og hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín?

Vikan einkenndist af hósta og slappleika. Er búin að vera að hósta í allar áttir í vikunni sem er bagalegt og búin að vera slöpp líka. Var ótrúlega dugleg í gær samt og kláraði heilmikla pappírsvinnu/tölvuvinnu fyrir Svan. Er reyndar starfsmaður hjá honum. Fannst í gær eins og allt væri að gerast í einu og að allt væri með deadline í gær en það var nú ekkert endilega þannig. Hausinn minn setti bara svona sence of urgency á alla hluti og vildi klára hlutina svo ég gæti byrjað á næsta. Allt í einu var verkefnalistinn svo langur. 

Fór og hitti göngufélagann minn niðrí bæ en ég er sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum einu sinni í viku. Það eru dásamlegar stundir. Núna var það hún sem róaði mig niður þar sem ég mætti kvíðin til hennar og var að spá í hvernig ég og öll þessi handboltalið ætluðum að koma okkur til Vestmannaeyja í október. Ég meina er ekki vont í sjóinn í október? Hvernig á allt þetta fólk að komast þangað? Og það sem mikilvægara er, aftur heim?

Held að það hafi veri hápunktur vikunnar, þessi fundur minn með göngufélaganum í gær. Annars er búið að vera mikið um faðmlög í vikunni. Hvort sem það er kírópraktorinn eða yogakennarinn eða göngufélaginn. Það segir mér að ég sé á réttu róli. 

Lágpunktur vikunnar voru klárlega öll hóstaköstin. Vont að hósta svona mikið. Held samt að hugsanlega kannski sé mér að fara batna. 

Framundan er drum circle. Hef ekki mætt í háa herrans tíð! Er búin að vera spennt fyrir því en ég þarf að sækja Styrmi minn strax klukkan 14 þar sem hann er í aðlögun á nýjum leikskóla. Feðgarnir buðu sér í mat líka svo ég þarf að troða bónusferð þarna inn einhvern veginn. 

Er bjartsýn sem er gott:)

Namaste. 

Friday, August 22, 2025

Vaxtarverkir Reykjavíkurborgar

Glansinn og rómantíkin er frekar mikið farin af Reykjavíkurborg að mínu mati. Í bakgrunni hugans heyri ég lagið Í Reykjavíkurborg eftir Jóhann Helgason.

Ætíð mun ég elska þig

bæði ár og síð

og ef þú vilt eiga mig

glöð ég gjarnan bíð

Að búa við Miklubraut er að verða yfirþyrmandi. Sírenuvæl og hróp og köll í hverfinu sem er sífellt að verða fjölmennara og fjölmenningarlegra er því miður yfirþyrmandi. Ásýndin er allt önnur en fyrir 10 árum til dæmis.

Lífið kemur lífið fer

veldur gleði og sorg

heit af ástum ein ég er

í Reykjavíkurborg.

Umferðin er orðin eitthvert grín á köflum. Var í strætóferðum í gær (Stefán tók bílinn) og á leiðinni heim festist ég í troðfullum strætó kl 15 í meira en 45 mínútur. Troðfullur strætó, yfirþyrmandi umferð og allt stopp. Kom í ljós að það var slys sem olli þessum töfum en fjárinn. Mig er farið að langa til að flytja burt. 

Koma tímar, koma ráð

segir máltækið.

Þá ég bara bíða má

í Reykjavíkurborg.

Mér hefur alltaf þótt miðbærinn heillandi. Þingholtin, miðbærinn, Lækjartorg, Tjörnin.. En undanfarið er mannfjöldinn orðin yfirþyrmandi. Íslending hvergi að sjá og rómansinn næstum farinn. Það er enginn vingjarnlegur strætóbílstjóri lengur, verð nojuð ef ég panta leigubíl og já, það á víst að fara troða nýbyggingu inn í Þingholtin. Hver er sjarminn í því?

Ó, ef ég fengi falið þér

mína miklu ást

oki yrði létt af mér

ég þyrfti ei meira að þjást

ég þyrfti ekki að líða þrá

og bera út á torg

mína einu sönnu ást

í Reykjavíkurborg.

Ég þori varla að fara á bílnum niðrí bæ lengur. Bæði erfitt að fá stæði og maður má ekki vera lengur en tvo tíma held ég. Sem er slæmt fyrir mig ef ég vil fara á seremóníu á Mama. Langar eiginlega ekki að taka strætó aftur í bráð eftir gærdaginn þar sem ég var tvo tíma að koma mér heim. Já, ég hefði vissulega getað gert betur og tekið réttan strætó en .. það gerðist því miður ekki. Var þess vegna sein að hitta vini mína á Snorrabar. Mikið var gott að hitta hópinn minn. Skítana mína. Vil eiginlega bara vera í kringum fólk sem mér líður vel með og þau eru í þeim hópi. Ekki spilltu veigarnar nú fyrir..

Komdu til mín komdu fljótt

beðið get ég ei

árin líða svo undur skjótt

segðu ekki nei.

Hvort ástin láti bjóða sér

allt og hvað sem er

er nú orðin eilífleg

spurn á vörum mér.

Það er nú samt ákveðinn lúxus að vera skutlað á barinn og svo frá barnum af syni sínum. Dagurinn í gær hefði samt verið miklu auðveldari ef ég hefði verið á bílnum. Aftur á móti var þetta mitt framlag við bíllausan lífstíl en damn, of margir bílar, of margir í strætó, of mikið af fólki alls staðar. Skólavörðustígurinn undirlagður af túristum.. Hugur minn er hjá þeim sem þurfa að standa í þessum strætóferðum daglega. 

Einn þú hefur svarið við

minni ástarsorg.

Löng er orðin þessi bið

í Reykjavíkurborg.



Namaste.


Wednesday, August 20, 2025

Eitur í mínum beinum

 Nokkur orð um frekju og yfirgang.

Þoli ekki frekju og yfirgang. Ekki það að aðrir geri það en mér líður eins og aðrir höndli það miklu betur en ég. Verð vör við þetta víða; Á vinnustöðum, í stjórnmálum, viðskiptalífinu, í fjölskyldum, fjölbýlishúsum, á húsfundum, félagasamtökum.. Umferðin er frábært dæmi. Hver hefur ekki lent í frekju og yfirgangi þar? Ansi víða sem sagt og út um allt. 

Það er erfitt að útskýra hvað gerist innra með mér þegar ég upplifi frekju og yfirgang. Ætli það sé ekki minn innri sósíalisti sem fyrst vill öskra í allar áttir en koðnar svo niður og deyr í einhvers konar særindum og leiðindum. 

Sú staðreynd að sá sem er frekastur og með mesta yfirganginn vinnur oftast mun að eilífu æra mig. 

Hvernig get ég fundið frið í sálinni í kringum fólk eða fjölskyldumeðlimi sem eru með frekju og yfirgang? 

Mesta frekjan og yfirgangurinn sem ég hef upplifað var þegar ég var heima í fæðingarorlofi með Guðrúnu Höllu veturinn 2013-2014 og manneskjum hinum megin í blokkinni sáu ekkert athugavert við það að mótor sem var staðsettur beint fyrir neðan svefnherbergið mitt ylli mér sálrænu ónæði allan sólarhringinn. Hann hélt kælipressunni gangandi svo þau gætu verið með svona walk in ísskáp. (Eða var mótorinn sjálf kælipressan?) Þegar blokkin var byggð um 1955 voru ekki til ísskápar svo mikið svo þetta var gert. Útbúið kælirými sem hægt var að labba inn í. Það er svipuð blokk í Eskihlíð víst með sama kerfi. Árið 2013 var þetta löngu úrelt og flestir búnir að gera eitthvað allt annað við þessi rými nema nokkrar sálir hinum megin sem virtust standa á sama um geðheilsu mína. Sem betur fer vann ég mál gegn þeim hjá kærunefnd húsamála því þessi læti voru bókstaflega að gera mig geðveika.

Ég mun að eilífu halda með fólki sem verður fyrir ónæði, frekju og yfirgangi og að eilífu vera í nöp við og ekki tengja við fólk sem er með frekju og yfirgang. Tala nú ekki um ef þau valda ónæði.

Namaste.

Friday, August 15, 2025

Home sweet home

Hef sjaldan verið jafn fegin að koma til ÍSlands og í gær. 

Það er eitthvað við hita yfir 36 gráðum, ferðalög í lestum í slíkum hita og moskítóbit sem virkar lamandi á Svövuna. Veit að það fer nú ekkert vel í flesta en ég er nú bara að skrifa um sjálfa mig og mínar upplifandi hérna.

Dásamlegu 11 daga ferðalagi með fjölskyldunni minni er lokið. Eftir sitja bæði góðar minningar en líka erfiðar. Kaupmannahöfn er náttúrulega bara æði. Tívolí og alls konar með fólkinu mínu var nærandi og afslappandi. Köben er svöl og ligeglad. Við flugum þaðan til Florence, Italy til að sameinast stórfjölskyldunni í Belverede Farmhouse í Tuscany til að fagna sjötugsafmæli móður okkar. A hot new bombshell enters the villa

Fann um leið og ég kom út úr flugvélinni að ... þessi hiti var dáldið mikill. Dagdrykkja með fólkinu mínu hjálpaði. Það sem var erfitt var ekki bara að barnabarnið vildi ekkert með mig hafa heldur líka að daginn eftir að við komum gat ég varla snúið mér við án athugasemda. Það var ekkert sem ég virtist gera rétt. 

Vissulega hef ég ekki reynslu af moskítóbitum og spreyjum þeim tengdum, heldur voru athugasemdir um hvernig ég hellti upp á kaffið og setti óvart á langt program á þvottavélinni meira en ég þoldi. En hey, ég er líka viðkvæmasta blómið í fjölskyldunni og þó víðar væri leitað í öðrum fjölskyldum.

Tók eitt meltdown á þriðja degi sem ég réð ekkert við þar sem ég bannaði Svani að fara frá mér. Þessar athugasemdir allar voru sárameinlausar og vel meintar enda eru þessi sprey til varnar bitum eitur og eiga alls ekki að vera nálægt börnum og maður á að spreyja á sig (ekki á bitin) í sérstöku herbergi og þvo hendurnar á eftir. Þær komu bara beint á eftir að ég fattaði að heimferðin væri illa skipulögð. Við flugum frá Mílanó heim til að geta verið í beinu flugi en Mílanó er jú ansi langt frá þar sem við vorum og að fara í lest alla leið þangað samdægurs myndi þýða að frú Svava myndi þurfa að vakna í stressi um nótt. Það var auðvitað ekki í boði svo ég, frú Svava, með mikilli hjálp frá Óla mínum var að græja lestarferð og gistingu nóttina fyrir í Mílanó fyrir mig og táningana mína ÞRJÁ þegar þær komu hver af annarri. Svava klúðraði. Barnið vill ekki einu sinni vera hjá mér. 

Það var eftir að þau (bræður mínir tveir og mágkonur) höfðu kvöldið áður talað lengi um hvað þau væru samstillt í heimilisverkum og verkaskiptingum á heimilinu. Þau eru fullkomin í mínum augum og mér finnst ég lítið passa þar inn. Eina planið mitt er Virk þar sem ég virðist vera í langri en stöðugri kulnun. Kannski einmitt eitthvað tengt umræðunni kvöldið áður.

Ég grét líka þegar Styrmir minn tók smá kast þegar ég var að passa hann svo ég þurfti að hringja í Óla. Hafði aldrei séð barnið í þessum ham. Það var þegar við vorum að horfa á myndband með honum og foreldrum sínum og lagið Home is whenever I'm with you var undir að tárin fóru að renna. Þá sátum við á bekknum fyrir framan húsið og vorum að bíða eftir að þau myndu renna í hlað.

En auðvitað voru góðir tímar líka. Meira segja gulli sleginn augnablik þar sem bróðir minn var að fíflast til að ná góðum myndum af krökkunum sem ég vil aldrei gleyma. Að sjá þennan bróður minn leika svona trúð lætur mig brosa þegar ég hugsa um það. Líka svo dásamlegar stundir að þegar ég horfi á myndir og myndbönd frá þeim fara tárin að renna. Tár gleði og kærleiks og ástar og fjölskyldu.

En þetta er lífið. Good and bad. Love you still. 

Ætlaði nú að vakna í dag og hitta hina fjölskylduna mína, þeirri sem ég get verið fyllilega ég sjálf með, í trommuhring en líkaminn sagði NEI. Þarf að fara með hann í ræktina og infrarauðu sánuna og láta hann hreyfa sig. Held hann sé í smá sjokki yfir hitabreytingunum. 

Namaste.

P.s. Allt í allt var ferðin mjög heilandi. Tryggvi bróðir faðmaði mig samtals þrisvar. Það er nú eitthvað!

Friday, August 1, 2025

Gleði


Þessir hérna færa mér gleði daglega. Mæli með að hlusta og dansa.

Er á sveitahóteli og það er erfitt að blogga í símanum. Later☺️

Namaste


Friday, July 25, 2025

samanburður

 finn að æ fleiri mínútur fara í samanburð.

Æskuvinkonurnar, fjölskyldan, foreldrarnir í vinahópnum hjá Guðrúnu Höllu... öll komin með betra heimili. Ef ekki einbýlishús, þá raðhús eða lítið fjölbýli. Við ennþá í blokkaríbúð með samliggjandi herbergjum fyrir krakkana. 

Smá skondið að þetta er samanburðurinn sem ég er í. Þessi hluti lífsins. Því ekki er ég í samanburði með fatastíl! Nei, nei. Þar er mér slétt sama. Var eins og einhver niðursetningur í gær í bænum þegar ég var að sjálfboðaliðast með 88 ára gömlum félaga mínum. Síminn sagði rigning svo ég fór í regnkápuna. Auðvitað fór ekki að rigna en mér líður svo lúðalega í þessum regnjakka einmitt í svona aðstæðum. Bara sól, engin rigning. Er bara í fötum sem eru þægileg núna og gleymdu því að það sé einhver stíll á þeim. Nei, bara föt.

Finnst þetta smá miður en ekki eins miður og mér finnst þetta með íbúðina. Aðallega vegna þess að hér er margt að grotna og falla í sundur. Parketið, skápurinn undir vaskinum inn á baði.. skóskápurinn.. Aðallega parketið. Held okkur langi bara að fara. Flytja. Það er kominn tími á það. Við Guðrún Halla töluðum saman í gær um að víkka leitina. Þetta þarf ekkert endilega að vera í Hlíðunum. 

Verkefni vikunnar var að kaupa airtags fyrir ferðina. Okkur brá þegar við sáum verðmiðann samt. Eitt airtag á tæpar 6.000 kr og fjögur á tæpar 20.000 kr. Hættum við bara..

Hápunktur vikunnar var á mánudaginn þegar ég átti mjög góðan dag í nuddinu. 

Lágpunktur vikunnar var á þriðjudaginn þegar ég var svo þreytt og kvíðin að það jafnaði sig ekki. Þjófavarnakerfið á bíl hafði farið af stað um nóttina á bílaplaninu fyrir utan og ég hrökk svo upp við lætin að taugakerfið mitt fór á hættustig. Það var ekki gaman. Mætti því með engar skeiðar í fjölskylduboð. Á meðan það var best í heimi að hitta fólkið mitt var það verst í heimi að líða svona illa á meðan.

Namaste. 

 

Friday, July 18, 2025

Það er svo skrýtin tilfinning...

... þegar allt er eins og það á að vera en á sama tíma ekki.

Við Guðrún Halla áttum indæla viku. Bara einn dagur sem henni leiddist. Það er nú eitthvað. Tókum góða ákvörðun um að fara út á land í hjólhýsið þegar veðrið var sem best og gistum eina nótt í Hraunborgum. Þetta var svo gott. Þegar maður er út á landi skilur maður ekki hvað maður er að gera yfir höfuð í borginni. 

Þetta var svona vika sem ég var ekki í stuði fyrir verkefni en keypti mér nú samt hjólabuxur í gær til að vera í á Ítalíu. Undir kjólunum skiljiði. You win some, you loose some. Fékk hjólabuxurnar á mjög góðu verði en svo tapaði ég smá pening þegar ég lagði niðrí bæ þegar ég var að sjálfboðaliðast. Parka skráði mig allt í einu út og þá skráði ég mig aftur inn í símanum og gleymdi svo að skrá mig út. Það er ekki hægt að muna allt!

Hitti Jóa, minn gamla vin á vappinu í bænum sem var gaman. Græddi eitt gott faðmlag. Við göngufélagi minn röltum meðal annars Leifsgötuna sem er svo merkileg gata eitthvað. Staldraði við nr 14 þar sem langamma mín átti heima. 

Ef ég gæti unnið við að sjálfboðaliðast á þennan máta og fengið borgað fyrir það væri lífið mitt reddað. Það er farið að liggja þungt á mér hvernig íbúðin er hætt að henta okkur. Krakkarnir stækka og það er orðið hálf vandræðalegt að hafa þau í þessum litlu herbergjum sem liggja saman. Er komin með á heilann að annað hvort búa til hurð inn til Guðrúnar Höllu eða færa eldhúsið yfir. Það myndi samt ekki leysa þennan vandræðagang með herbergin. Skoðaði fasteignavefinn um daginn og var ekkert sérstaklega ánægð með úrvalið. Það setur auðvitað strik í reikninginn að vilja vera í Hlíðunum, allavega þangað til hún klárar skólann. 

Hápunktur vikunnar var klárlega á þriðjudaginn þegar við stelpan mín fórum til Hveragerðis í veðurblíðunni og svo til Selfossar og svo í Hraunborgir. Það var dásamlegur dagur. 

Lágpunktur vikunnar var í gær þegar ég var að eiga mjög góðan dag en þurfti að leggja mig í hádeginu og sá þá að ég var komin með 38 stiga hita. Aftur.

Ég er svo staðráðin í að veikjast ekki að núna held ég hugsunum mínum hreinum og góðum og fókusa einungis á heilsu og gleði. 

Yahoo!

Namaste. 

Friday, July 11, 2025

Þú getur haft 1000...

 ... vandamál. En þegar heilsan fer þá hefur þú bara eitt vandamál.

Ekki halda að ég samdi ofangreint. Nei nei. Þetta var eitthvað sem ég sá á tiktok en er samt svo satt. Er á brún þess að fara panika en veit samt að ef ég væri ein út á landi til dæmis í smá tíma í algerri hvíld þá myndi vandamálið að öllum líkindum hverfa. Er sem sagt búin að vera með óútskýrðan hita í að verða þriðju viku. Var með 38,3 á þriðjudaginn en 37,6 í gær. Slöpp er orð sem á vel við. Kann ekki að gera ekki neitt svo á hverjum degi geri ég eitthvað. Fer eitthvað út. Get ekki verið heima bara. Svanur er smá miður sín út af þessu en er samt ekki að skilja að ég þarf hvíld. 

Allavegana, fór nú samt í þessu ástandi í vikunni og gerði alls konar. Virðist ekki hafa smitað neinn hingað til svo það er gott. Fór til dæmis í leikhús sem er magnað framtak hjá Afturámóti hópnum. Keypti fernu, sem sagt tvo miða á fjórar sýningar. Þetta er líka algerlega minn tebolli, að skreppa út á stutta sýningu. Hún var bara 50 mínútur sýningin sem þýðir að ég var komin heim kl 21:30 (við Anna Lára vorum að spjalla saman út í bíl.)

Merkur áfangi gerðist í gær þegar við Svanur náðum að greiða niður eitt stykki húsnæðislán. Tilfinningin var svo góð að ég held að ég geri þetta í hvert skipti sem ég fæ smá summu núna. Þetta getur bara ekki verið slæm hugmynd. Alltaf gott að greiða niður lán. Hvað gerist annars? Erfa börnin skuldirnar?

Annars kom eitt þeirra í mat í gær. Elsku kæra Emilía Sól. Það var gott að fá hana til okkar. Gott að hanga aðeins með henni. Gerði falskan héra sem féll vel í kramið hjá öllum. Emilía var að koma heim úr tveggja vikna Spánarferð með vinkonum. Hún fékk sér tattú í ferðinni sem hún tileinkaði okkur Svani. Við sjáum mynd: 


Frekar sætt, ekki satt? 

Verkefni vikunnar var að byrja spá í fyrirhugaðri Ítalíuferð. Aðeins að spá í hvað er mikilvægast að taka með. Það er ótrúlegt hvað mér finnst erfitt að pakka. Tek iðullega eitthvað með sem ég nota svo ekki. Um helmingurinn af ferðatöskunni minni er alltaf þannig. Er að spá í að fara með lítið og þar sem ég versla mér aldrei föt er ég að spá í að versla fötin sem ég verð í á Ítalíu í Danmörku. Þangað sem við förum fyrst.

Hápunktur vikunnar var klárlega leiksýningin á miðvikudagskvöld þar sem Katla Njáls sigraði hjartað mitt með frammistöðu sinni. Ég stóð upp í lok leiksigursins eins og allir aðrir og klappaði og klappaði og kallaði "bravo!" minnst tvisvar í örvinglan. Mér skilst að maður eigi ekki einu að gera það en ... ég var bara mjög impressed. Ok?! Það skemmdi ekki fyrir þessu kvöldi að flottasta konan landsins afgreiddi mig í sjoppunni fyrir sýninguna. 

Lágpunktur vikunnar var klárlega í gær þegar ég var lasin en fór samt að hitta gönguvininn minn niðrí bæ. Er sem sagt orðin gönguvinur hjá Rauða krossinum sem sjálfboðaliði. Ég var það slöpp að ég vissi ekki alveg hvort ég myndi meika þetta. Leið ekki vel með að fara hitta 88 ára gamla konu í þessu ástandi. Var reyndar bara með held ég 37,4 á þessum tímapunkti. Við vorum úti allan tímann svo ég var að öllum líkindum ekki að fara smita hana og ég held að maður geti hvort sem er ekki smitað neinn af einhvers konar manns eigin veirusýkingu. Hef ekki gert það hingað til. Við vonum það besta.

Namaste.

Friday, July 4, 2025

What a week..

 Skrýtin, óhefðbundin vika að baki.

Allan tímann á meðan Guðrún Halla var í Vindáshlíð var ég veik og með hita. Alveg nýtt fyrir mér en þannig skreið ég inn í vikuna. Með hita og næstum óráði. Gerði allt sem var á dagskránni og mætti þangað sem ég átti að mæta en vá, hvað ég er fegin að þetta er búið. 

Sótti baby á Holtaveginn og mikið var hún glöð og ánægð með vistina í Vindáshlíð. Núna er henni farið að leiðast aftur svo ... mamman heldur sig nærri henni. Það er svo erfitt að sjá barnið sitt leiðast.

Ég er bæði komin í Virk og orðinn sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Er komin með fínan ráðgjafa og fína hjálp í Virk. Planið er að mjaka mér aftur út á vinnumarkaðinn í haust. Ég skráði mig sem gönguvin hjá Rauða krossinum og byrjaði þar í gær. 

Gærdagurinn var ágætur. Stefán Máni fékk bílprófið sitt sem er stórmál og við fórum öll í Hliðsnesið að fagna. Svo fórum við Guðrún Halla í sund sem var mjög gott. Óvenju góð sundferð og spontant hvernig við lögðum af stað. Miðað við hversu grumpy ég var þegar ég vaknaði (eða "rotten" eins og Stefán orðaði það) breyttist dagurinn í sumarsælu þökk sé börnunum. 

Verkefni vikunnar var að finna annað hnífasett. Steikarhnífarnir hafa verið að detta í sundur undanfarið. Kominn tími á nýja. Fór fýluferð í Byko og Húsasmiðjuna sem var svekkjandi. Ætla að reyna við Byggt og búið næst. Kokka var of dýr og var heldur ekki með svona sett eins og mig vantar. Ekki fer ég í Ikea ótilneydd en ég frétti að þar eru þessi blessuðu sett sem ég er að leita að.

Hápunktur vikunnar var gærdagurinn um og eftir kl. 11. Hádegismatur með foreldrum mínum úti í Hliðsnesi, Stefán að ná þessum merka áfanga. Gaf af mér til samfélagsins og þessi sundferð með Guðrúnu Höllu kom mér í svo gott skap að ég hló smá. Náðum líka að horfa á tvo House þætti:)

Lágpunktur vikunnar var í byrjun vikunnar þegar ég var ennþá að berjast við kommurnar. Ætli mánudagurinn hafi ekki verið verstur þegar ég var ennþá með 37,7 en svo var hitinn að fara niður. Kann ekki fyrir mitt litla líf að vera bara heima þegar svona ber undir. Það myndi vera dauði og djöfull.

Namaste vinir,

ykkar Svava. 

Friday, June 27, 2025

I´m not up for it

 Vaknaði þannig í morgun.

Ekki það að ég hafi sofið. Í gær, rétt áður en ég var að fara leggja af stað í yoga, setti ég hendina á ennið og fann að ég var að fá hita. í annað skipti í vikunni. Nýji hitamælirinn sagði 37,7. Fór nú samt í yoga en fann að vinstra eyrað átti mjög bágt. Endaði með skrýtnasta savasana (líkstaðan) sem ég hef upplifað hingað til. Suðið í eyranu tók yfir. Eins gott að ég á tíma hjá HNE lækni á eftir. Tilvalið þar sem ég er líklegast með eyrnabólgu. Hef aldrei kunnað að vera með hita og veik. Mæti bara samt allt (smá eins og asni) og er svo bara næstum out. Þoli hitakommur mjög illa. Þetta byrjaði á mánudaginn og er búið að vera on og off alla vikuna.

Ég náði að kenna, sem var mjög gott, sannarlega hápunktur vikunnar. Núna er Guðrún Halla farin í Vindáshlíð í 5 nætur. Það er nú frekar tómlegt heima. En tilvalið þar sem ég er slöpp og Svanur er að vinna mjög mikið. 

Verkefni vikunnar var ekkert að þessu sinni. Þetta var þannig vika. Var að vinna of mikið og er nú bara í basli með heimilisstörfin í þessum slappleika. 

Hápunktur vikunnar var klárlega Mímir á þriðjudaginn þar sem ég kenndi starfsfólki í leikskólum um líkamsstöðu. Hópurinn var frábær, unnu vel í hópavinnunni og ég átti mjög real samtal við einn nemandanna. Bravissimo.

Lágpunktur vikunnar er klárlega núna þar sem ég, eftir lítinn svefn, er að reyna að tjasla mér saman fyrir daginn. Framundan er læknatími og út að borða með Önnu Láru í kvöld. 

Það truflar mig mikið að það er orðin fastur liður að fá mér rauðvín um helgar. Edrú Svava væri gapandi hissa.

Namaste vinir. May the force be with you. 

Friday, June 20, 2025

Hvar getur...

 ... 46 ára góð kona unnið?

Hún óskar þess mest að vera neurotypical manneskja. Getur ekki verið í boxi í 8 tíma, hvað þá 08-16. Hana vantar verkefni eða hlutastarf með engu álagi what so ever. Hmmm..

Var nú samt voðalega fegin að vera ekki í vinnu í vikunni þegar Guðrún Halla veiktist. Það gerðist klukkan einmitt 08 um morgun. Seinna um daginn rauk hún upp í hita og náði hæst 39,8 stiga hita. Þá var gott að geta verið heima með henni og séð til þess að hún fengi allt sem hún þurfti. 

Annars var vikan góð. Hitti Önnu mína í gær. Það er nú alltaf gott að tala við hana. Gaman að fara í bæjarferð á Te og kaffi. Var að nudda líka og elska hvernig ég get bara haft það rólegt í þeim bransa. Voða þægilegt líf í rauninni. 

Er líka að undibúa kennslu sem er á þriðjudaginn. Þá er ég að fara kenna starfsfólki leikskóla líkamsbeitingu. Var að kíkja á listann yfir nemendur í gær og já, ok. Þau eru alveg 21 stykki! Ætla að klára að undirbúa það í dag. 

Verkefni vikunnar var að redda auka lyklum fyrir nuddstofuna. Partnerinn minn á það til að læsa sig úti og þá hef ég stokkið til og hleypt henni inn. Núna er ég nojuð að þetta gerist á óþægilegum tíma. Þegar ég er ekki í bænum eða hreinlega vant við látin. 

Hápunktur vikunnar var allur gærdagurinn. Mér fór allt í einu að líða svo vel. Fann ljósið mitt. Það var óvænt og dásamlegt. Yogatíminn hjá Talyu var góður endir á deginum. 

Lágpunktur vikunnar var þegar Guðrún Halla veiktist á miðvikudagsmorguninn. Mér leist bara ekkert á hana á tímabili.

Namaste. 

Saturday, June 14, 2025

rútínan er ...

... aðeins farin úr skorðum.

Sumarfrí hjá Guðrúnu Höllu, sumar, gleymdi í gær að það væri föstudagur. Á föstudögum blogga ég og vökva blómin. Gleymdi báðu. Var að fara á seremóníu á Þingvöllum og það var nóg til að setja mig út af laginu. 

Ætluðum í sauna og vatnið líka og ykkar kona var að pakka. Það breyttist í smá ofhugsun. Maður veit aldrei hvernig þetta veður verður þó það líti vel út. Enda kom það á daginn að það var kalt en maður minn. Hvað það var gott að komast út úr borginni og á Þingvelli. Vera svo þar að anda hreinu lofti í rúmlega þrjá tíma. Verja dýrmætum tíma með dýrmætri vinkonu og hitta góða fólkið. 


Það var líka svo dásamlegt að hætta við saununa. Við sálarsystir mín vorum báðar ekki í stuði fyrir það. Það var gott að koma heim og beint í fjölskyldufaðminn. Horfa á House með bestu dóttur í heimi og leyfa henni að skoða Pinterest þar sem hún var að skoða veski, töskur, pils og svo framvegis. Ykkar kona naut þess að fá sér smá rauðvín því ekki fær hún sér það í kvöld þegar Styrmir ömmustrákur kemur í gistingu. Amma Svava viðurkennir að vera drullustressuð yfir því. Finnst eins og hann fíli mig ekki. Er líka búin að vera með skrýtna áru undanfarið. 

Enough said.

Namaste vinir. 

Friday, June 6, 2025

Írónía er..

 ... til dæmis þegar Vesturlandabúar sem hafa það nú bara ágætt svelta sig til að líða betur.

Á meðan er fólk í 3ja heims ríkjum og stríðshrjáðum löndum að svelta í alvörunni.

Prufaði sem sagt þetta, að hætta að borða kl 17 og ... já. Þetta virtist í fyrstu vera góð hugmynd, mér leið merkilega vel á mánudaginn og þriðjudaginn, heilmikil vinna að vera fá sér mestu máltíðina um og fyrir hádegi en þetta meikaði alveg sens. Á þriðjudagskvöldið fann ég fyrir svima og þurfti að leggjast niður og fór svo bara að sofa. Á miðvikudagsmorgun leið mér asnalega og þurfti að elda mér máltíð um kl 10:30 til að bjarga lífinu mínu. Þetta er alltaf svona ef ég er eitthvað að fasta. Get ekki ímyndað mér að fasta heilan sólarhring öðruvísi en að liggja inni á sjúkrastofnun. Ég veit að margir taka sólarhringsföstu á tveggja mánaða fresti (eða tveggja vikna) og það er góð hugmynd. Blóðsykurinn minn bara höndlar þetta ekki. 

Botninn sló úr þegar ég mætti föl í ræktina í gærmorgun og gerði æfingarnar mínar. Það eina sem var í gangi í mínum haus var að Local opnaði kl 11 og aftur fékk ég mér máltíð þar til að bjarga lífinu mínu. Bókstaflega. Rakst á einhvern vegg og rifjaði upp þegar við vorum að læra sogæðanudd í nuddskólanum og konan sem kenndi kúrsinn setti okkur á matarkúr þar sem kolvetni vorum tekin út. Engar kartöflur eða hrísgrjón og svoleiðis. Skemmst er frá því að segja að dagur eitt og tvö voru OK, mér leið vel en dagur þrjú. ... Það var eins og ég hefði orðið undir lest. Leið illa og gat eiginlega ekki hugsað. Heilinn minn virkaði ekki sem skyldi. 

Lenti sem sagt á svipuðum vegg í gær. 

Ég er samt hrifin af hugmyndinni um að borða aðal máltíðina í hádeginu (fá sér morgunmat auðvitað líka) og borða svo eitthvað létt um kvöldmatarleytið. Held að það sé alveg málið.

Auðvitað gildir ekki það sama yfir alla. Við erum öll mismunandi. Þó að kíró-inn geti farið á þriggja daga vatnsföstu og unnið mikið með og yogakennarinn borðað eina máltíð á dag um kl. 14:30 þá er ég bara ekki þannig greinilega. 

Allavegana, framundan á þessum föstudegi er útskrift hjá Guðrúnu Höllu (er ekki viss hvort ég eigi að mæta) og reiki heilun í kvöld rétt utan við borgina. Helgin er óráðin,

Namaste vinir:)

Friday, May 30, 2025

Um venjur og aðra siði

 Tók risa stóra ákvörðun í vikunni. 

Þar sem meltingarkerfið fór í fokk (finn kannski fallegri leið til að orða það síðar) fann ég rosalega vel að líkaminn var að biðja um föstu. Eftir að hafa íhugað hvernig fasta hentaði mér ákvað ég að hætta að borða eftir kl. 17 á daginn. 

Verð að fá morgunmatinn minn og svo kaffið. Annars fer blóðsykurinn í uppnám og mig svimar og líður illa. Eftir að hafa talað við nálastungukonuna er þetta einmitt málið fyrir miltað. Að hætta að borða eftir kl. 17. Hey, sleppi líka við að búa til kvöldmat:)

Mér fannst mjög skrýtið í gær að elda mér stærstu máltíð dagsins í hádeginu og borða hana þá. Skrýtið að vera pakksaddur í hádeginu. 

Ég hitti sem sagt og talaði við tvær konur í gær sem hætta að borða kl. 17. 

Mér finnst eiginlega erfiðast að fatta hvernig ég ætla að gera þetta þegar ég er að vinna. En hey, einn dagur í einu og fikra mig áfram. 

Finnst líka mjög skýtið að þetta var ekkert erfitt, ég er ekkert svöng. Fór ekki að sofa svöng sem er einhver skrýtinn ótti úr barnæsku eða eitthvað. Minning um að vera alveg óvart svöng þegar ég fer að sofa. 

Er bara frekar spennt fyrir þessu nýja prógrammi og finn að mér líður betur. 

Ég var auðvitað alin upp við að kvöldmatur er mikilvægasta máltíð dagsins. Svoleiðis. Það var allavegana alltaf kvöldmatur og það var líka samverustund fjölskyldunnar. Ég hef alið mín börn upp við þetta og haft kvöldmat í öll þessi ár frá því að ég fór að búa fyrir alvöru. Í 23 ár. Spurningin "hvað er í matinn?" hefur alltaf verið mikilvægust og líka erfiðust því stundum veit maður ekkert hvað maður á að hafa í matinn og stundum er maður þreyttur líka og nennir þessi kvöldmatarstússi takmarkað. Núna er málið allavegana leyst. Ég ætla hreinlega ekki að spá í því meir. Guðrún Halla er líka farin að sjá um matseldina (það er inn í vasapeningnum.) Jibbýkóla!

Ég er endalaust þakklát fyrir Sophiu frá Ástralíu. Algerlega mögnuð kona. Ég er líka endalaust þakklát fyrir Talyu yogakennara sem þekkir mig svo vel. Ég hana líka kannski. 

Framundan í dag er sjósund með stelpunum og ég er bara frekar spennt fyrir deginum. Er líka að fara sækja elsku besta Styrmi minn. Það er svo langt síðan ég hef verið með hann. Hann má ekki gleyma hver ég er!

Namaste vinir. 

Friday, May 23, 2025

Þrátt fyrir allt

Af gömlum vana leit hún til himins. Tveir hvítir fuglar flugu fyrir hornið á dómhúsinu. Par. Hún vissi að það voru þau hjónin sem myndu líklegast verða saman að eilífu. Þrátt fyrir allt. 

Þrátt fyrir vaxandi óþol í garð hvors annars. Þrátt fyrir yfirvofandi lífsleiða og doða. Skrýtið að fylgjast með hvoru öðru eldast og grána og hrörna. Ekki síst áhugaleysi annarra og þeirra sjálfra bæði í garð hvors annars og annarra.

Flugparið flaug þétt saman. Samhæft áfram veginn. Að vanda.

Þetta er að sjálfsögðu skáldskapur. Er að æfa mig fyrir námskeið í ritlist sem ég er að fara á í haust í Endurmenntun (!)


Námskeið hjá þessum skáldagyðjum er einmitt eitthvað sem ég held að heilinn minn hafi gott af. Er spennt en líka hrædd. Er allavegana forvitin og búin að skrá mig.

Namaste.


Friday, May 16, 2025

Er að elska...

 ... þetta sumar. 

Hressandi að þurfa ekki að dúða sig upp ef maður ætlar að bregða sér af bæ. Samt alltaf jafn ringlandi að klæða sig finnst mér. Vanalega er kaldur vindur einhvers staðar.

Er að ringlast með lífið og hvað skal gera varðandi atvinnu. Fékk smá aukavinnu í Mími, svo fer Guðrún Halla í frí og svo erum við að fara út í ágúst. Hmm..

Hápunktur vikunnar var klárlega á miðvikudagskvöldið þegar við Tinna fórum að sjá Ífigeníu í Ásbrú. Allt svo sneddí. Tjarnarbíó, eitt rauðvínsglas, góður félagsskapur, einstaklega frábært leikrit og Svavan komin heim fyrir kl 22. Fullkomið.

Lágpunktur vikunnar var þegar ég labbaði inn í RUV til að fara nudda og það fyrsta sem tengiliðurinn minn segir við mig er: "þreytt?" Hafði verið með móðurlífsverki um nóttina og frekar kvalin. Líklegast blaðra á öðrum hvorum eggjastokknum. Ái. 

Skýtið að langa svo að vinna eitthvað en svo er oft eitthvað svona vesen. Öfunda mest fólk sem er búið að vera það lengi í fastri vinnu að það er komið með sveigjanlegan vinnutíma og vinnur þegar það getur. 

Annað sem ég er spennt fyrir er að ég fór í acupuncture (nálastungutíma) í gær. Sophia sagði auðvitað að qi-ið mitt væri stíflað og þaðan í verr. Hún ætlar að losa um stíflurnar. Hlakka til:)

Í dag er það sjósund með stelpunum. Hlakka til!

Namaste.  

Friday, May 9, 2025

Art of yoga

 home away from home.

Ég er svo þakklát fyrir að Gummi og Talya, þessir miklu yogar, séu með þessa yndislegu yogastöð einmitt rétt hjá mér. Í Skipholtinu. Labba þangað beint strik yfir Miklubraut og framhjá Háteigsskóla og næstum komin þá. Það er svo gott að fara þangað einu sinni í viku, minn staður, mín stund einmitt á kvöldmatartíma og sleppa einu sinni í viku við það stúss. Talyu minni tekst sérstaklega að minna mig á að allt er þetta hið innra. Allt sem við þurfum. Ég lít upp til þeirra því þau eru að fylgja ástríðu sinni. Vinna við það sem þau elska að gera og gera það vel. Þau eru ekki að leita utan við það sem er innra með okkur og eru sátt í núinu. Alls sem er. 

Vikan var nú fremur róleg. Er búin að ákveða að slaka aðeins á í atvinnuleitinni þangað til eftir sumarfríið hjá baby (Guðrúnu Höllu.) Finn að mamman þarf að vera til staðar fyrir allar þær stundir á sumri sem falla á milli þess að hafa eitthvað að gera. 

Hápunktur vikunnar var á mánudaginn þegar Emilía mín kom í nudd og svo með mér heim og við elduðum pastarétt. Skrýtið að vera með 19, 16 og 11 ára heima í fullu fjöri. Stelpurnar með tónlist á og Stefán að læra fyrir próf. Mikið sem hann er búinn að standa sig vel. Mjög stolt af honum!

Lágpunktur vikunnar var nú kannski bara harkið í kringum nuddið. Finn að ég þarf að auglýsa, helst á tiktok eða eitthvað til að trekkja að nýja kúnna en já, einmitt. Er smá introvert.

Verkefni vikunnar átti að vera að sækja um vinnu aftur en ákvað svo að breyta því yfir í að fara yfir myndir frá árinu 2021 til að framkalla. Fattaði um daginn að ég hef ekki látið framkalla myndir í nokkur ár!

Namaste vinir.

 

Friday, May 2, 2025

Hress og drífandi ...

 ... leiðtogi óskast. 

Á seinni árum er ég orðin að svo strangheiðarlegri manneskju að ég nota ekki einu sinni hvítar lygar. Líður bara ekki vel með það. Þegar segir í atvinnuauglýsingu að leitað sé eftir hressri og drífandi manneskju sæki ég ekki um. Ég get alveg verið hress stundum en er það ekki alltaf. Með drífandi partinn.. tja. Kannski á góðum degi?

Í dag og morgun er ég að flækjast með að vera bæði mamma og amma. Er sem sagt að fara baka helling af muffins og Rice Krispies kökum ekki bara fyrir 2ja ára afmæli Styrmis Orra heldur líka sjoppuna í Val þar sem Guðrún Halla er að fara keppa á móti um helgina og við eigum að koma með eitthvað í sjoppuna til að selja. 

Verkefni vikunnar er að stússast fyrir afmælið. Valdi dýrustu gjöfina og keypti hana. Amma er kannski með ammviskubit eða eitthvað. Veit ekki alveg. Þarf að standa mig betur. Sótti líka um 50% starf sem aðstoðarmaður lögmanna.

Hápunktur vikunnar var kannski bara í gær þegar ég lufsaðist í yoga þrátt fyrir að vera slöpp. Leið miklu betur eftir á. Vantaði að hitta fólkið þar og yogast aðeins. Enda virkaði það eins og vítamínsprauta. 

Lágpunktur vikunnar var þegar það kom draugur í bílinn (aftur) og ég gat bara læst bílstjóramegin og skottinu. Leið ekki vel þá nótt en svaf reyndar smá vegna þess að þrjár bílhurðar voru ólæstar. Ég bý í miðjunni í borg óttans og gettóið er stundum hér finnst mér. Aðallega leið mér ekki vel vegna þess að ég er að leigja barnabílstól sem var fastur í bílnum. Amma stendur ráðþrota með að koma þessum geim, framtíðar, isi fix áfasta margra parta bílstól út úr bílnum! Þetta er ekki bara klikk, klikk, klikk. Þetta er amma klikk!

Annars leggst helgin vel í mig. Fuglarnir syngja, það er sumar og ég er enn frjáls kona. 

Namaste.

P.s. Togstreitan, þetta er hún. Mér hefur þótt gott að vera bara í nuddinu og hef alltaf fundið mér eitthvað að gera með því alla vikuna. Undanfarið eru hins vegar svo margar ástæður af hverju mig langar til að koma mér út í lífið. Á vinnumarkaðinn. Kynnast fólki, gera hluti. Til að nefna eitthvað er það til þess að ég koðni ekki hreinlega niður. 

P.p.s. hvaða orð er koðni?

 

Friday, April 25, 2025

Nú er sumar..

 ... gleðjist gumar, gaman er í dag!

Nú veit ég ekki hver eða hvað þessi gumar er en já mikið er gott að það er komið sumar.

Maður fann árstíðabreytinguna í gær, sumardaginn fyrsta. Það kom svona oggu poggu hiti og man langaði að vera pæja með sólgleraugu í kjól.

Í staðinn fór ég í fermingarveislu og borðaði fremur óhollt. Hélt því áfram þegar heim var komið. Það var eitt páskaegg eftir. Réðst á það. Mér til varnar grunar mig að ég sé að fara á byrja á túr. Fékk tannpínu. Hét því að þetta yrði eini nammidagurinn í vikunni. Svona talar maður við sjálfan sig. 

Vikan er óljós. Fullt af frídögum. Frí, vinna, vinna, frí, vinna. Ekki það að ég sé að vinna mikið en þetta er alveg nóg til ringla mig á dögunum. Við Guðrún Halla erum að horfa á House. Elskum það. Stundum finnst mér þetta aðeins of fullorðið fyrir hana samt.

Spáði í vinnum. Fann eina sem gæti hentað mér en spáði svo aðeins í henni og nei.. Er að fara í viðtal í Virk og er sannfærð um að ég finni eitthvað sniðugt sem henti mér á þessu ári. Háskólagráðurnar eru aðeins að flækjast fyrir mér. Myndi líða vel ef ég gæti allavegana fengið hærri laun eða nýtt þær á einhvern hátt.

Hápunktur vikunnar var kannski bara í gær í fermingunni þegar við vorum samankomnar vinkonurnar og vinirnir að spjalla. Var að spjalla við Óla hennar Tinnu um alls konar. Til dæmis af hverju miðaldra karlmenn mæta sumir allt í einu með skyggð gleraugu í settið og eru svo bara alltaf með þau. Hvað gerðist?

Lágpunktur vikunnar var nú enginn sérstakur sem betur fer. Kannski bara sukkið á mér sykurlega séð sem ég skil ekki. Ég var ekki svona. Bara alls ekki. Tók sykur út úr mataræðinu en svo er eitthvað líffræðilegt að gerast þannig að mig langar í hann. Þessi páskaegg fóru alveg með mig. Þarf að afsukka mig. Helst fasta aðeins. 

Gleðilegt sumar kæru fylgjendur :)

Namaste.

 

Friday, April 18, 2025

Að líða vel...

... með fólki.

Í gærkvöldi fór ég í matarboð til mágkonu minnar og mannsins hennar. Mér líður vel með þeim. Ég get verið ég. Það er enginn að dæma neinn. Ég get verið ég.

Þetta er ekki sjálfgefið. 

Það er algerlega þannig núna í mínu lífi að ég er ekki að púkka upp á fólk sem mér líður illa með. Það er til fólk í mínu lífi sem mér líður virkilega illa með en þarf samt að hitta það af og til. Það tekur á og það er mín helsta ósk að mér líði vel með því. Tímarnir breytast samt og mennirnir með. Það er von.

Annars er ég á fullu í atvinnuleit. Stundum sé ég laust starf einhvers staðar og reyni að máta mig við það en hugsa svo nei.. ég myndi aldrei meika þetta. Til dæmis starf í grunnskóla. Held ég myndi ærast. Það verður sem sagt verkefni vikunnar út árið þangað til ég finn starf.

Hápunktur vikunnar var held ég bara í gærköldi þegar mér leið vel með Óla og Þurý.

Lágpunktur vikunnar var á mánudaginn þegar ég var gjörsamlega miður mín út af dáttlu.

Gleðilega páska vinir:)

P.s. ég er búin að sukka svo mikið í páskaeggjum og sykri að ég er ekki alveg að meika alla þessa frídaga framundan. 


 

Friday, April 11, 2025

Hvað er eðlilegt ..

 ... og hvað er ekki eðlilegt þegar kemur að legi?

Það hagar sér eins og skepna. Vægðarlaust. Það gaf. Núna er það að taka.

Eftir að hafa verið með blettablæðingar í 20 daga leið mér verulega illa í gær. Eins og það væri að fara líða yfir mig. Var eiginlega bara stjörf. Þurfti að gera nokkra hluti og það var erfitt að fara í apótekið og ná í lyf sem stoppar blæðingar. Mér hefur aldrei liðið eins og mér leið í gær. En það var klárlega legið sem var orsökin.

Ef ég væri hugrakkari kona væri ég komin á biðlista fyrir legnám. En er nýbúin að heyra svo erfiðar sögur af eftirköstunum eftir aðgerðina. Ekkert við aðgerðina eða það sem kemur á eftir er eitthvað sem ég vil gera. Það að eiga vera aðgerðarlaus í nokkrar vikur eftir aðgerð hljómar alls ekki vel. Arg. 

Verkefni vikunnar var að undirbúa kennslu í  Mími. Það kemst ekkert annað að þegar kennsla er framundan. Maður verður að vera vel undirbúinn þegar fólk er að koma til að hlusta á mann tala í tvær eða þrjár kennslustundir!

Hápunktur vikunnar var á miðvikudaginn í Mími þegar það var útskrift eftir kennsluna. Allir svo glaðir:) Allir fengu rós. Loksins var ég líka í sjálfri úrskriftinni. 

 
Lágpunktur vikunnar var í gær þegar allt var erfitt. Er á perimenapause skeiðinu í lífinu mínu þannig að ég er á hormónauppbótameðferð. Málið er að ég er að hætta á lyfjunum út af alls konar, síðast var það bjúgur og svo byrja aftur vegna þess að ég sef ekki á næturnar. Núna er aukaverkunin blettablæðing. Samkvæmt internetinu getur hún varið í nokkra mánuði. FML.

Allavegana, núna er allt á uppleið. 

Namaste. 

P.s. er að lesa þetta yfir daginn eftir og langar að bæta við hversu mikið jojo lífið er. Upp og niður, niður og upp. Ekkert fullkomið nema stundum. Myndin af rósinni er með gulu tuskunum okkar í horninu. Ekki fullkomið en það er heldur ekki ég.


 

Friday, April 4, 2025

My inner being

Ég er svo þakklát fyrir Art of yoga. 

Það er yogastöð í Skipholtinu sem ég reyni að komast í tíma í allavega tvisvar í viku. Lítil stöð, alltaf sama fólkið og eðalhjónin Gummi og Talya eiga hana og reka. Sannir yogar.

Talya hefur svo mikinn áhuga á velferð okkar allra svo hún skutlaði mér heim eftir tímann í gær til að vita nákvæmlega hvað væri í gangi með rófubeinið mitt. Mikið er ég ánægð með fólkið í kringum mig. Þá meina ég að kírópraktorinn minn hefur líka áhuga á þessu og er að hjálpa mér mikið. Ekki má gleyma mömmu sem hefur alltaf áhuga á hvað er í gangi með mig.

Ég var að útskýra fyrir Talyu hvernig my inner being sagði mér að afpanta sterasprautuna í dag. Það hefur verið gert einu sinni áður (upp á Borgarspítala.) Þá var mínum fallegu rasskinnum flett í sundur (ok, smá dramtískt) og teipaðar niður. Bómull settur fyrir boruna og huge ass sterasprautu sprautað beint í rófubeinið. Man að þetta var skrýtið fyrstu dagana en svo OK. Eitthvað við þessa aðgerð og að mér líður betur lét mig hætta við. Finn bara akkúrat og nákvæmlega til í sjálfu beininu sem er víst ekki brotið. Beinin eru á sínum stað en það er framsveigja. Þess vegna, eins og þegar ég keyri bíl, sit ég eiginlega beint á því. Meikar ekki sens fyrir mér einmitt núna að sprauta það einhvern veginn til að deyfa það niður eða eitthvað. Held að Óskar læknir hafi líka verið feginn að þurfa ekki að gera þetta. Hef fundið að meðferðaraðilum finnst þetta svæði frekar óþægilegt. Enginn til í að fara inn og rétta það af. Enginn vill lenda í fangelsi held ég. 

Allavega, þessi vika var voða mikið Styrmis og ömmu vika. Fékk að passa hann á mánudagskvöldið heima hjá Óla mínum og Katrínu. Mikið er ég stolt af stráknum mínum og fallega lífinu sem þau hafa skapað saman. Svo falleg íbúð! Brýndi fyrir Óla að við værum komin af slökkviliðsmönnum og að þau yrðu að fá sér eldvarnarteppi og svoleiðis. Byrjaði líka það kvöld að horfa á Adolesence og vá, loksins góðir þættir. Þetta one take er magnað! Sótti Styrmi þrisvar. Að öðru leyti var vikan fáranlega róleg þangað til í gær þegar ég var að kenna nýjum hópi í Mími. Þetta er alltaf smá mál. Kvíði eiginlega alltaf fyrir. Það er líka mjög erfitt finnst mér að finna dínamíkina í hópnum og svona. Ég gat dansað með hinum hópnum en ég þarf aðeins að finna þennan hóp betur.

Verkefni vikunnar var að undirbúa kennslu fyrir Mími. Það komst eiginlega ekkert annað að.

Hápunktur vikunnar voru nokkrir. Vel kannski bara í gærkvöldið þegar við Talya vorum að hlægja saman út í bíl. Hafði held ég ekkert hlegið í vikunni framað því. Allavegana ekki eins mikið og þarna. Þakklát fyrir Talyu. Hún er frá Englandi.

Lágpunktur vikunnar var í gær þegar mér leið illa fyrir kennslu, á meðan að á henni stóð og líka þegar ég kom heim. Þetta er alveg mál. Ég þarf að finna mér aðra aukavinnu, ha?

Namaste.

Friday, March 28, 2025

gott fólk

 Sálfræðingurinn minn útskýrði fyrir mér að manneskjur með OCD væri í raun mjög gott fólk. 

Það sem einkenndi þau helst væri í raun gríðarleg samviskusemi. Þetta get ég vottað. Ef ég fæ verkefni geri ég það. Skila alltaf öllu á réttum tíma ef ég er í námi og geri mitt allra besta í vinnu. Þetta er í raun sjúkleg samviskusemi. Gerði verkefnalista fyrir mig í gær þegar orkan mín var fremur lág en gerði allt á listanum. Ég harðstjórinn, ég þrællinn.

Asnaðist til að gerast bekkjarfulltrúi í bekknum hennar Guðrúnar Höllu. Við erum þrjár. Núna höfum við ekkert gert og samviskusemin plagar mig. Ekki það að mig langi til að gera eitthvað eða að ég hafi orku í það. Nei. Það er bara helvítis samviskusemin.

Vikan var erfið. Ekki það að það hafi verið mikið að gera. Nei. Fyrri hluta vikunnar var það rófubeinið og seinni hlutann blæðingar sem urðu of miklar. Leið bara frekar mikið illa. Er að halda í vonina að þær hætti í dag þegar ég hætti (aftur) á hormónauppbótameðferð. Urg.

Verkefni vikunnar var að hafa Mímis kúrs klárann. Gerði það auðvitað. 

Hápunktur vikunnar var á miðvikudaginn þegar Óli kom með Katrínu og Styrmi. Þá var fjör og amman glöð að sjá Styrmi sinn. Þarna var ég ekki búin að sjá hann í of langan tíma.

Lágpunktur vikunnar var í gær þegar ég var bara ekki viss um að ég myndi hafa sundferðina af sökum hvað, blóðleysis eða eitthvað. Túrinn orðinn of langur. Búinn að taka of mikið, of mikla orku. 

Enough is enough already,

Namaste

 

Friday, March 21, 2025

These are the days of our life

 Svo bar við um þessar mundir að ég heimsótti gamla vinnustaðinn minn. Hreint.

Þetta var starfsferillinn minn liggur við að segja. 6 ár og það sem við tók eftir háskólanámið. Stjórnendastarf í þjónustufyrirtæki. Byrjaði þar 2010. Síðan hefur mikið gerst. Sannarlega the days of our lifes. Nokkrir hafa dáið, nokkrir hafa skilið, fólk hefur komist á aldur og hætt að vinna. Fólk sem var svarthært er orðið gráhært. Fólk breytist í útliti. Það eru nokkrir eftir sem voru þarna þegar ég var og það var gott að hitta þá. Fyrstu árin eftir að ég byrjaði voru bestu árin. Þá var vinnustaðurinn eins og önnur fjölskylda og það var gaman í vinnunni og alltaf eitthvað nýtt að gerast. Ég kynntist mörgum karakterum. Sumum ógleymanlegum. En svo var líka drama og í endann leiðindi og kulnun. Á svo margar minningar frá Hreint árunum og minnist þeirra með hlýju. Þegar ég hugsa dýpra eru líka sárar minningar þarna. Svefnlausar helgar út af einhverju og já, þetta endaði ekki nógu vel.

Er samt endalaust þakklát Rúnari fyrir að hafa tekið á móti Mímis hópnum mínum og kynnt fyrirtækið fyrir þeim.

Vikan var ekkert sérstök. Frekar erfið. Það er búið að vera eitthvað í gangi daglega í sirka þrjár vikur núna og mig langar eiginlega bara komast í burt. Ein.

Hápunktur vikunnar var klárlega yogatíminn hjá Klöru í Yogashala. Vá! Líkaminn og andinn glöööð eftir þann tíma. Fékk líka tvö knús þar (fékk líka tvö knús í Hreint.)

Lágpunktur vikunnar var á mánudaginn þegar ég var svo úrvinda að ég fékk mini þunglyndiskast. Eitthvað segir mér að þessi þrjú vínglös sem ég fékk mér á skítamixinu á föstudagskvöldið hafi eitthvað með það að gera..

Verkefni vikunnar bara á ekki við þegar það er svona mikið í gangi:)

Namaste.

Friday, March 14, 2025

Under pressure

 Þessi vika byrjaði nógu sakleysislega. 

Var að kenna hópnum mínum aftur í Mími og hitta þau. Fékk á tilfinninguna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera með vettvangsheimsóknina sem við áttum að fara í daginn eftir og vúmm! Streita og stress. Þurfti í staðinn að kenna kúrs sem ég var ekki tilbúin með og var því á haus eftir kennsluna á mánudaginn. Það er svo skrýtið að stundum þegar svona gerist þá byrja allir að hafa samband úr öllum áttum með alls konar beiðnir. Kenndi svo kúrsinn eftir svefnlausa nótt. Guð minn góður.

Verkefni vikunnar var klárlega að lifa hana af. Þetta var þannig vika að ég var ekki bara stressöskrandi í bílnum heldur líka á aðra bílstjóra. Hvernig gerir fólk þetta alla daga bara? Verandi í vinnu, eitthvað kemur upp á, redda því og svo repeat. 

Hápunktur vikunnar var klárlega þegar ég kenndi hópnum kúrsinn Meðhöndlun matvæla sem ég hafði lagt mikið í. Sérstaklega þar sem þau voru svo áhugasöm og höfðu skoðanir. 

Lágpunktur vikunnar var nóttin og morguninn þar á undan. Var bara ekki viss um að ég myndi hafa þetta af.

Er svo búin að vera restina af vikunni að jafna mig, með rófubeinið brotið en andann á lofti. Fullt tungl í dag:)

Namaste. 

Friday, March 7, 2025

Sein á vagninn

Fyrir sirka 10 árum eða meir byrjuðum við vinkonurnar að hlusta á Eckhart Tolle. The Power of Now. Tímamótaverk. Sagði okkur að koma í núið. En hvernig þessi bók eftir hann Ný jörð fór svona framhjá mér veit ég ekki. Hafði heyrt af henni hjá andlega fólkinu en ég held að einhver partur af ástæðunni af hverju ég var ekki búin að lesa hana fyrr var að við hlustuðum á The Power of Now á Storytel eða eitthvað svoleiðis og maðurinn er með frekar leiðinlegan talanda þrátt fyrir allt. Allavega, ég er komin með nýja biblíu:

 

Get ekki sagt hvort eða hvenær Hámarksárangur eftir Brian Tracy fari einhvern tímann af náttborðshillunni (sem er engin) en ég ætla að kaupa þessa bók og eiga því að Ný jörð talar mitt tungumál og er það sem ég trúi á og reyni eftir fremsta megni að lifa eftir. Hið andlega There is no I kemur í huga. Egóið er blekking og því fyrr sem við losnum úr viðjum þess því betur líður okkur. Eitthvað svoleiðis.

Að allt öðru: Í gær var ég í infrarauðu gufunni í World Class. Finn strax að það er eitthvað stuðandi samtal í gangi. Tvær vinkonur að tala um innflytjendamál. Önnur þeirra var rasandi um hvað þetta sé gjörsamlega komið úr böndunum og hér ríki næstum því stjórnleysi. Hvernig við séum að missa þetta úr böndunum. Sjáist best á öllum innviðum. Það sem var kannski það sem ég sá var að vinkona dóttur hennar var þarna líka sitjandi undir þessu. Fullklædd í gufunni. Múslimi. 

Vikan var alls konar. Verkefni vikunnar var að koma Emilíu út til Ítalíu og það tókst. Þetta verður þá vika í ágúst sem við verðum með fjölskyldunni í Tuscany. Ætli það verði ekki frábært:) Óli og Katrín eru ekki ennþá búin að kaupa sér miða en einhvern veginn hef ég ekki áhyggjur af þeim. Það reddast.

Hápunktur vikunnar var á þriðjudaginn þegar Guðrún Halla átti afmæli. Þá var allt í gangi og ég var hérna að snúast í kringum hana til að passa að afmælisdagurinn væri góður. Eins og áður fórum við á Grillhúsið Sprengisandi til að fagna. Já, við erum orðin frekar mörg! Borð fyrir 8 manns. Sko við Óli byrjuðum í þessari fjölskyldu bara tvö fyrir 23 árum..

Lágpunktur vikunnar var í gær held ég. Stoðkerfisvandamál cha, cha, cha. Núna er það spjaldbeinið og brotið rófubein. Þvílík veisla. 

Namaste vinir.