Sunday, December 21, 2014

skrýtinn dagur

Á sunnudeginum fyrir jól verður að segjast að þessari húsmóður líður undarlega.

Sé ekkert jólalegt við allt draslið á heimilinu sem krakkahrúgan mín sér til að sé ávallt til staðar. Get nú reyndar ekkert verið mikið pirruð þar sem mest draslið er eftir 1s árs snúlluna. Það er ekki hægt að vera pirraður yfir svoleiðis. Er það samt smá.. Kalla gormana krakkahrúguna í dag því ég náði skemmtilegri mynd af þeim í gær þar sem þau eru í eins konar hrúgu:

Þarna sést einmitt dæmi um draslið líka á gólfunum. Ætli ég verði ekki eins og frú amma Svava þegar ég verð eldri og orðin amma. Allt rosa fínt heima hjá mér og ég á eftir að búa í fínni íbúð sem þolir ekkert drasl. Hver veit...

Annars er þetta svo undarlegur dagur af því að ég varð allt í einu hundveik í gær. Ég er alveg steinhissa því að ég verð ekki veik. Var svo fín á föstudaginn og svo byrjaði ég að líða undarlega og illa eftirmiðdaginn í gær en ætlaði að hrissta það af mér og fara að hitta Tinnu sem er á landinu yfir jólin og Siggú sem er komin alveg á steypirinn. Svo bara líður mér verr og verr og gubba svo bara þvílíkt mikið (í klósettið.) Mikið var þetta ógeðfellt. Reyndi svo að vera í stofunni að horfa á sjónvarpið en þá var jólaþáttur á RÚV með Ragnhildi Steinunni og Hraðfréttastrákunum og Hrefna Sætran kokkur var að matreiða eitthvað hræðilegt, gat ekki horft á það og varð bara bumbult. Hafði enga list. 

Svo er ég bara slöpp núna, fór reyndar í yoga í morgun. En ég varð ekki í rónni i gærkvöldi fyrr en ég var búin að gera aðgerðalista yfir það sem ég þarf að gera í dag og á morgun og hinn sem er nú bara ansi mikið. Smá jólastress í gangi og svo er alveg nóg að gera í vinnunni.

Hlakka til að komast í jólafrí, verður bara að segjast eins og er.....

Verð að segja að það tekur líka dáldið á taugarnar að vera með maka sem gerir jólahlutina bara einhvern veginn og allt í einu með öllu því skipulagsleysi sem einkennir þennan mann. Jólin fyrir honum er að gera hlutina á allra síðustu stundu. Alls ekki fyrr en á þorláksmessu og helst bara korter í jól.

Hjálpi mér allir heilagir....

Saturday, December 13, 2014

desember

ho ho ho!

enn og aftur er desember kominn. Sá 36. í mínu lífi.. Ég var svo heppin að afmælið mitt bar upp á laugardegi í ár og akkúrat á laugardeginum síðustu helgi þegar það var jólakaffi upp í vinnu sem þýddi auðvitað að ég fékk fullt af knúsum:)

Var svo heppin líka í vikunni að vinna léttvínspottinn í vinnunni. Aftur! Í síðasta drátti vann ég 7 flöskur sem eru ennþá hérna heima þar sem ég drekk ekki og svona eiginlega Svanur ekki heldur. Þegar ég vann aftur 4 flöskur núna á fimmtudaginn sagðist ég ætla að gefa þær flöskur. Eina fyrir hvert knús. Ég var ekki á staðnum þegar dregið var í pottinum svo ég var knúsuð í kaf þegar ég kom. Það var ekkert smá nice:)

Ég var líka svo heppin í gær að fá ekkert ofnæmi þegar ég fór í litun á augnhárum og augnbrúnum á snyrtistofu í Kringlunni í gær. Er ekkert smá þakklát fyrir að hafa losnað við það! Grunar að þetta sé breytingin á mataræðinu sem framkallar þessa jákvæðu breytingu eins og svo margar aðrar..

Annars er búið að vera smá vesen heima. Það er eitthvað að lásnum á baðherbergishurðinni svo að krakkarnir hafa verið að læsa sig þar inni í tíma og ótíma. Aðallega ótíma auðvitað.. Ég vona að kallinn nái að kippa þessu í liðinn í dag, dáldið þreytt á að láta allt heimilisfólkið vita þegar ég þarf á klósettið þar sem hann er búinn að taka allt dæmið út... Þetta reddast í dag..

Annars er búið að vera alveg nóg að gera í vinnunni eftir að hafa verið ansi rólegt í langan tíma. Það er ágætt að hafa nóg að gera, ég er eiginlega bara fegin. Missti tvo starfsmenn nýlega sem voru með fullt af fyrirtækjum svo ég er búin að vera í því að manna þau verkefni..

Fór í æðislegt jólazumba í morgun í Valsheimilinu. Æði, æði, æði. Það er orðinn fastur liður að hitta frænkurnar þar sem er frábært af því að við hittumst svo sjaldan núorðið... held mig samt alltaf á sama staðnum og öskra svo alveg eins og brjálæðingur með hinum stuðpinnunum, það er svo gaman.

Mikið ofboðslega er ég jákvæð í dag og mikið ofboðslega er þetta jákvætt blogg. Ég er heppin og svo meira heppin og allt er bara gott og blessað, jei:)

later peeps.


Monday, November 24, 2014

status

Jæja, hvað segir örvæntingafulla húsmóðirin í dag?

Vissulega er hún örvæntingafull þar sem hún situr í sófanum, ritandi þessi orð og lítur í kringum sig á heimilið þar sem allt er á rúi og stúi eins og vanalega. Allt á hvolfi.

Er ekki eitthvað rangt við það að hlakka til að verða eldri bara af því að þá verð ég vonandi laus við öll þessi börn? Andvarp. Hvernig gerðist það að ég er með 6 manna fjölskyldu?

Omg, gleymdi að kaupa í matinn. Shit.

Ég er allavegana skipulögð þó að allt sé á hvolfi eða ég þykist vera það allavegana. Er byrjuð á jólagjöfunum og jólakortunum og langar eiginlega helst til að drulla þessu öllu af svo ég þurfi ekki að spá í þessu meir. Aaahh, alveg jólaandinn, ekki satt:)

Allavegana, set hausinn undir og held áfram. Hvað annað?

Hlakka samt til að verða svona sirka 45 ára, þá hlýtur maður að fara komast í fjallgöngur án þess að þurfa pössun...

ást og friður vinir.

Saturday, November 15, 2014

like

Ja hérna hér.

Ég er orðin háð "like" -um á facebook. Er farin að stunda það um helgar að setja mynd inn og bíða svo spennt eftir "like"-unum. Hversu heilbrigt er það?

:)

Allavegana, er farin að kunna betur og betur við helgarnar. Finn að ég þarf hvíldina. Elska þessa daga, laugardag og sunnudag, þegar ekkert sérstakt er á dagskrá og ég er bara að dunda mér heima. Hvíldin og dúlleríið er nauðsynlegt.

Love it, love it, love it.

Byrjaði þennan laugardag á zumba þar sem ég hitti frænku mína. Elska þessa laugardagszumba tíma. Svo gott að öskra smá og dansa. Hollt fyrir sálina.

Love and light.

Saturday, November 8, 2014

Gratitude

ég er í rauninni mjög ánægð með lífið þessa dagana. Gerði mér ennþá betur grein fyrir því í gær þegar ég var að tala við pólskan samstarfsmann minn sem sagði að ég hefði það mjög gott. Þá var ég á leiðinni í World Class í hádeginu sem er jú alger lúxus. Get ekki hugsað mér að vera í vinnu þar sem ég er ekki frjáls til að koma og fara þegar mér sýnist. Svo ég er þakklát fyrir að vera í þeirri vinnu sem ég er í.

Ég er líka þakklát fyrir það frábæra fólk sem ég er að kynnast núna í gegnum vinnuna. Á mjög auðvelt með að elska sumt af því.

Ég er líka þakklát fyrir að vera sú forréttindapíka (sorry mamma) sem ég er. Maður gerir sér ekki grein fyrir því hvað maður er heppin. Það hafa verið nokkur augnablik í lífinu sem hefðu getað farið mjög illa og ég er svo þakklát fyrir að þau fóru vel. Er staðráðin í að láta gott af mér leiða fyrir þessi augnablik. Be the change (you want to see in the world.) Kindness. Sprinkle that shit everywhere.

Ég er þakklát fyrir heilbrigðu börnin mín og það að ég hef í rauninni aðeins lúxusvandamál en ekki raunveruleg vandamál. Ég er þakklát fyrir heilsuna mína sem ég hef ákveðið að setja í fyrsta sætið. Ég er þakklát fyrir að ég er sátt við sjálfan mig og að ég elska sjálfa mig. Finn að eftir að ég byrjaði að spá í því hafa hlutirnir farið ganga upp.

Ég er þakklát fyrir frelsið mitt. Ég er þakklát fyrir að vera minn eigin stjórnandi í vinnunni og geta skipulagt mínum tíma sjálf. Myndi það vera sorglegt að vera ræstingastjóri þangað til ég verð 67 ára? Gefið að ég myndi halda vinnunni þ.e.a.s....

Allavegana, ég er búin að hlusta mikið á alls konar hugleiðslu og sjálfstyrkingardiska undanfarið enda "self help junkie" og áttaði mig á því í vikunni mér til mikillar furðu og ánægju að ég vil ekki vera nein önnur en ég sjálf.

Sem er frábært.

Æði spæði. Over and out.

 

Tuesday, November 4, 2014

þá sjaldan sem maður lyftir sér upp..

... svo bar við um þessar mundir að örvæntingafulla húsmóðirin okkar skellti sér á ball. Árshátíðin í vinnunni var um síðustu helgi, á laugardagskvöldinu, og þá tjúttaði gamla:)

Leyfði mér þann munað að fara í förðun. Það gerist nú bara einu sinni á ári að ég leyfi mér það og það er einmitt fyrir árshátíðina. Það er reyndar að koma í bakið á mér núna, bókstaflega, þar sem mér er núna illt í bakinu eftir að hafa setið með beint bakið í þennan klukkutíma sem það tók að sparsla mig í framan í baklausum stól. Af hverju er maður látinn sitja í svona óþægilegum stól á snyrtistofu sem ég tengi ósjálfrátt við dekur??

Allavegana, var svo í flottum kjól sem ég keypti í Kjólar og konfekt á Laugaveginum fyrir síðustu áramót, sem sagt fyrir svona ári síðan. Er mjög ánægð með hann og hann vakti mikla lukku þar sem hann er með hauskúpum og byssum. Átti vel við svona á hrekkjavökunni en það var halloween þema í forpartýinu.

Skemmti mér mjög vel, talaði við fullt af fólki og fór á trúnó með starfsmanni. Basic.

En þar sem húsmóðirin okkar er svo reglusöm ringlaðist náttúrlega öll regla vegna þess hversu seint hún kom heim. Ætlaði að fara í yoga á sunnudagsmorgninum eins og vanalega en svaf það alveg af mér.

En, þetta er auðvitað bara einu sinni á ári sem maður lyftir sér svona upp svo að ég ætti nú að lifa þetta af.

Vildi að ég hefði tekið mynd af mér á þessu kvöldi svo ég gæti sett hana hér á bloggið en því miður þá gerði ég það ekki. Fékk alveg tvær viðreynslur sem er nú bara nokkuð gott!

Lenti svo í því að vera kölluð upp á svið í svona karíókí dæmi þar sem ég söng með annarri stelpu og ég fékk engan sviðskrekk eða neitt! Er ekkert smá ánægð með mig:)

Maður getur stundum verið algert æði.

Sunday, October 26, 2014

heads up..

æ, nú er maður farinn að blogga af hálfgerðri skyldurækni..

Virðist vera að maður eigi bara nóg mig sig og sína og daglegt líf. Ætli það sé ekki bara þannig..

Mér finnst tíminn fljúga og allt í einu er október að klárast, voða skrýtið..

Af mér er það að frétta að ég tók mig til og lenti í 2. sæti í ljótupeysukeppni sem var í vinnunni í fyrradag. Ég fann þessa líka hræðilegu peysu í Rauða kross búðinni á Ránargötunni. Hún er svona bleik prjónapeysa sem er það stutt að það sést í allan magann ef maður er bara í peysunni. Ákvað því að vera þannig sem vakti mikla lukku hjá samstarfsfélögunum.

En núna veit ég hvernig fólki líður sem býst við að vinna eitthvað og vinnur svo ekki eitthvað. Dáldið svona eins og á Óskarnum þar sem þær kvikmyndastjörnur sem eru tilnefndar eru myndaðar í nærmynd þegar það er að koma í ljós hver vinnur. Ég var svo viss um að hreppa fyrsta sætið að ég hálfmissti andlitið þegar atkvæðin voru talin. Fékk bara 2 atkvæði! En við vorum þrjú sem fengum tvö atkvæði og svo var dregið um sætin og þess vegna lenti ég í öðru sæti...

Vann einhverja kasettu með lögum sem ég hafði aldrei heyrt af áður svo ég skipti bara við vin minn sem hreppti þriðja sætið og fékk þess vegna Ég var einu sinni nörd á videóspólu. Vinurinn er pólskur svo ekki myndi hann hafa húmor fyrir því hvort sem er.. Horfði svo á videóspóluna í gær og hló og hló. Mikið er hann fyndinn hann Jón Gnarr:)

Allavegana, örvæntingafulla húsmóðurin er í óða önn að leitast við að undibúa jólin. Er búin að grafa upp jólasveinahúfurnar og næst á dagskrá er svo blessaða jólakortamyndatakan. Það getur verið flókið í fjölskyldunni minni þar sem allir krakkarnir eru ekki alltaf heima á sama tíma... svo það er best að hespa þessu af.

Gleðileg jól:)

Sunday, October 12, 2014

Love it, love it, love it!

Það er svo mikið gott búið að gerast eftir að ég tók mataræðið í gegn. Er enn svona sirka 90% á paleo fæðinu og er bara öll önnur.

Meltingavandræði eru úr sögunni, ég sef betur og hef betri einbeitingu og er minna stressuð og minna viðkvæmari fyrir öllu. Svo gott að borða gott.

Ætli það sé ekki eitthvað til í því sem Gillz segir: "If you eat shit, you become shit."

Það er líka svo gott að vera góður við sjálfan sig og gera góðan mat fyrir sig eins og þetta salat hérna sem ég fattaði upp á alveg upp á mitt einsdæmi. Oh, ég get verið svo mikill snillingur:)

Í þessu matarmikla salati er sem sagt salat, túnfiskur, egg, tómatur og agúrka og síðast en ekki síst risarækjur steiktar á lágum hita upp úr kaldpressaðri kókosolíu. Namm, namm:)

Saturday, October 11, 2014

tveir ælandi gormar og tveir starfskraftar í einum

Þetta var ansi hressandi nótt síðastliðin nótt með einn ælandi krakka (Stefán Máni) og annan veinandi (Guðrún Halla.) Ég var svo þakklát í morgun að þetta gerðist aðfaranótt laugardags þegar ekkert er á dagskrá en ekki í síðustu viku þegar mikið gekk á í vinnunni. Thank God for small favours for the desperate housewife.

Er búin að vera tvær manneskjur í vinnunni núna í tvær vikur þar sem partnerinn minn er/var í fríi og því var akkúrat að ljúka í gær þannig að þetta púslast ágætlega saman. Það er bara kennt tvo daga í Hlíðaskóla í næstu viku vegna vetrarfrís, skipulagsdags og foreldradags (díses) svo það er gott að vera bara ég í vinnunni þá.

Annars var ansi gaman að hafa svona mikið að gera í vinnunni, það er stundum skemmtilegra að hafa nóg á sinni könnu heldur en hitt að hafa of lítið á sinni könnu...

Allavegana, er ekki búin að blogga lengi og ákvað að henda einu inn svona til að halda lífi í síðunni. Það er alveg nóg að gera á þessu heimili með eitt barn sem var að byrja í 1.bekk í Hlíðaskóla, annað sem var að byrja í leikskóla, einn ungling og eitt barn sem er í Árbæjarskóla af öllum stöðum en býr samt hjá okkur..... ætla ekki að ræða um skoðanir mínar á því hér en ég er sem sagt ekki hress með það.

bless í bili kæru lesendur, 

lifið heil.

Saturday, September 20, 2014

TGIF

Átti svo æðislegan föstudag í gær. Hitti Önnu Láru mína í hádeginu á Gló á Laugaveginum sem var frábært. Hitti mömmu í beinu framhaldi af því og við fórum og kíktum í búðina Volcano sem ég er búin að vera á leiðinni í í lengri tíma. Labbaði út með svörtu slána sem ég er búin að vera að leita að í svona allavegana þrjú ár:) Takk elsku mamma! Er ekkert smá ánægð með þessa flík.

Endaði svo góðan dag á að hitta nokkra vinnufélaga um kvöldið og kjafta fram á nótt og hlægja mikið. Dásamlegt. Kom ekki heim fyrr en kl. 01 og líður eins og ég sé þunn:) Svo gott að brjóta hversdaginn upp með því að gera eitthvað svona.

Happy:)

Saturday, September 6, 2014

yes yes yes

Loksins fann ég það.

Er búin að vera að reyna að koma lífsviðhorfi mínu í orð í langan tíma. Fann grein um hjúkrunarkonu sem heitir Bonnie. Hún gerði rannsókn í vinnunni sinni þar sem hún vann á líknardeild árið 2013. Hún tók viðtöl við sjúklinga sem lágu banaleguna til að rannsaka hvað það var sem sjúklingarnir sáu mest eftir í lífinu. Meginniðurstaðan hennar er eftirfarandi:

"Our greatest fear should not be of failure, but succeeding at things in life that don't really matter."

Hvers virði er frami og frægð ef maður er ekki í góðum tengslum við sína nánustu og er ekki hamingjusamur? Til hvers að eyða öllum tímanum í eitthvað sem skiptir í rauninni ekki máli?  Við höfum bara eitt líf og dagurinn í dag kemur aldrei aftur.

Vá, þetta quote talaði alveg við mig. Tengdi alveg við þetta. Af hverju að vinna og vinna til að klífa upp metorðastigann ef það kemur niður á fjölskyldunni og vinum?

Af hverju???

Saturday, August 30, 2014

Ja hérna hér...

gekk næstum því frá mér í ræktinni í dag....

en þetta hot yoga er bara of gott:) Fór í óvenju heitan 90 mínútna tíma í dag þar sem maður gerir yoga æfingar í miklum hita. Þetta var heitasti tíminn sem ég hef farið í lengi og í fyrsta skiptið sem ég þurfti actually að fara í barnið eins og það er kallað þegar u.þ.b. klukkutími var liðinn og hvíla mig þar sem mér sortnaði fyrir augunum. Úff..

Allavegana, örvæntingafulla húsmóðirin okkar er bara hress og góð á því svona þegar fer að hausta. Fór í brúðkaupsveislu í gærkvöldi hjá Ásdísi vinkonu og skemmti mér mjög vel, eins og fyrr segir gekk ég næstum því frá mér í ræktinni í dag og svo á morgun er skírn! Fékk gullfallegt boðskort þar sem Tinna mín og Óli eru að fara skíra dóttur sína Sólveigu í Bústaðakirkju. Vil alls ekki missa af því að hitta þetta frábæra fólk, hlakka til:)


Wednesday, August 13, 2014

Dagur 30 - slútt

Jæja, núna fer ég að vinna á morgun...

Skrýtið að besta veðrið sé núna síðustu dagana í fríinu. Liggur við að manni langar til að vera lengur. Pha!

Allavegana. Dagur 30, sem sagt í gær ef ég hef talið rétt, var æðislegur. Ásdís og Hrafntinna komu í garðpartý með krökkunum og svo fór ég til ma+pa út á Álftanes þar sem var kaffiboð í tilefni af afmæli mömmu. Þetta er nú bara uppáhalds konan mín svo að sjálfsögðu kíktum við yfir og hittum stórfjölskyldumeðlimi.

Fór svo og hitti vinkonur sem ég hitti alltof sjaldan; Tinnu, Ingu, Völu, Fribbu og Siggú. Það var æðislegt að hitta þær og ég skemmti mér alveg konunglega. Hentugt að Vala sé í sömu götu og ég en við hittumst heima hjá henni. Alltaf svo gott að hlægja:) 

Allavegana, fer að vinna á morgun svo að þessu count-upi er lokið. Ja hérna hér. Vinnan, here I come....

Tuesday, August 12, 2014

dagur 29 - Nauthólsvík og garðpartý

Dagur 29 var æðislegur.

Það kom mér á óvart hversu gott veðrið var svo að öll plön um að fara í ræktina urðu ekki að veruleika. Fór út að skokka í staðinn á meðan krakkarnir voru hjá nágrannakonu okkar. Við stelpurnar, Emilía og Guðrún Halla fórum svo í Nauthólsvík en það var bara svona la, la. Maður heldur alltaf að það sé alveg bongó þar en svo er ekki nógu hlýtt til að flatmaga í sólbaði. Það var samt bara fínt að kíkja þangað.

Þegar við komum heim eftir að hafa náð í Stefán Mána var búið að myndast ágætis garðpartý í garðinum hjá okkur. Það á svo mikið af börnum heima hérna núna og eftir að formaðurinn henti upp kastala þá er þetta orðið að miðstöð fyrir krakkana til að leika sér saman. Þennan dag útbjó svo hressi formaðurinn heimatilbúna rennibraut í brekkunni sem samanstóð af afar löngu plasti bleytt með vatni og uppþvottalögi. Krakkarnir fíluðu þetta alveg í botn og skríktu af gleði langar leiðir. Þetta var frábært framtak hjá honum. Svo var sett upp svona buslulaug og lítill hoppukastali. Ég bakaði og fór með út til krakkana og svo grillaði formaðurinn hamborgara í matinn. Fullkominn dagur með nágrönnunum sem maður einmitt kynntist aðeins betur:)

Dagur 29 = frábær dagur!


Monday, August 11, 2014

dagur 28 - Olísmótið

Ok, veit ekki alveg hvort ég sé farin að rugla hérna en þetta voru sem sagt þrír dagar sem ég keyrði á Selfoss til Óla. Síðasta daginn, sunnudaginn, áttum við dagvaktina sem hafði það í för með sér að við, foreldrarnir, eða annað hvort okkar þyrfti að vera með strákunum frá kl. 08:20.

Reif mig sem sagt upp kl. 06:30 til að vera mætt kl. 07:20 til barnsföðurs míns. Við fórum sem sagt foreldrar drengsins og stóðum okkar vakt. Þetta var nú bara gaman. Reyndar tognaði Óli í fyrri leiknum, þegar u.þ.b. helmingurinn var eftir. Hann keppti þess vegna ekki í seinni leiknum. En þetta var stemmari engu að síður og ég kynntist hinum foreldrunum aðeins betur.

Hér er Óli með liðinu sínu:

Síðdegis fór ég með hinni fjölskyldunni minni, eða þannig, í afmælisveislu í Hljómskálagarðinum. Strákur sem er á sömu deild á Stefán Máni í leikskólanum bauð félögum sínum á deildinni og foreldrum í afmæli sem var haldið í suðausturhluta garðsins þar sem grillið er.

Við skemmtum okkur konunglega. Þegar við vorum búin að standa dálitla stund í vitlausu afmæli áttuðum við okkur á því að það voru í raun þrjú afmæli í gangi þarna og hvert var með sinn svona bekk. Það var dáldið fyndið.

Við vorum sem sagt búin að vera að spjalla við foreldra hans Rúbars en stóðum við rangt afmælisborð og vorum búin að fá okkur kaffi og með því þar. Löbbuðum síðan skömmustuleg í okkar afmælisboð þegar við vorum spurð hvurra manna við værum. Pha!

Hér er mynd af krökkunum úr afmælinu. Það er reyndar voða erfitt að ná góðri mynd af krökkunum þessa dagana. Þau eru alltaf á hreyfingu!


dagur 27 - Olísmótið á Selfossi

Við fjölskyldan fórum að horfa á Óla keppa tvo leiki á Olísmótinu. Þetta var gullfallegur dagur og frábært að sjá Óla skora í leikjunum. Ég fann að hann er vel metinn innan síns liðs og ágætur markaskorari. Það er góð tilfinning.

Við fórum líka á bæjarhátíðina þar sem Sirkus Íslands var staðsett. Það var yndislegt líka. Tívolítæki fyrir börnin, markaður og fleira. Svo flaug rella yfir og henti karamellum niður þannig að það rigndi karamellum. Það var stemmari:)

Keyrðum svo Eyrarbakka - og Stokkseyrarleiðina heim sem var mjög falleg.

Ágætis dagur. Það tekur samt á að vera með öll þessi börn. Það er bara þannig....

Saturday, August 9, 2014

dagur 26 - Selfoss

Jæja, fórum á Olísmótið á Selfossi þennan dag að heilsa upp á Óla.

Horfðum á einn leik þar sem þeir kepptu á móti flottu stelpuliði. Þeir unnu 3-2 og höfðu náð 0-0 og 2-2 í leikjunum á undan.

Ætlum að fara aftur í dag og horfa allavegana á einn leik:)

Hér eru krakkarnir alveg út um allt


Friday, August 8, 2014

dagur 25 - hair

Mest rólegur dagur eins og dagarnir í sumarfríinu eiga að vera svona að mínu mati. Ákvað að tríta mig og gera eitthvað fyrir hárið og fór því á Ónix á meðan mamma var með krakkana. Veit ekki alveg hvað mér finnst um niðurstöðuna. Þetta var ekki alveg það sem ég meinti.... Hún spurði hvort hún mætti setja smá rautt í hárið en mig langaði nú bara í gamla góða ljósa litinn.. Sé til eftir helgina hvort ég fari aftur og biðji um fleiri ljósar strípur..

Fór svo í Sóltún að heimsækja aldraða frænku mína. Mér finnst voða notalegt að koma við á svona elliheimilum þó ég myndi ekki vilja vinna þar aftur... Skrapp svo í Nóatún og keypti fisk í matinn. Þarf að nótera það hjá húsfreyjunni mér að krökkunum finnst ekki ýsa í raspi úr kjötborðinu gott lengur. Þarf að unplögga þennan ávana hjá mér að kaupa þetta fyrir þau.

Allavegana, mest lítið að gerast. Hlakka mikið til að byrja að vinna aftur:)

Thursday, August 7, 2014

dagur 24 - úff

Omg.

Hélt að ég myndi ekki lifa dag 24 af. Eftir tvær andvökunætur vegna blöðrubólgu var ég alveg búin á því í gær. Var svo þreytt að allt var erfitt. Krakkarnir voru góðir svo það var allt í lagi með þau. Fór í sund með Emilíu og Stefán sem var bara fínt. Það er rosalega gott að hafa Emilíu á svona dögum því hún er svo hjálpsöm og dugleg. Stefán Máni er með aðeins meira vesen.

Allavegana, setti sjálfa mig á Furadantin kúr (aftur) og ætla að hringja í lækni. Ji, hvað hún er óþolandi þessi blöðrubólga:/

Wednesday, August 6, 2014

dagur 23 - Intersex

Dagurinn var ljúfur. Við mamma fórum með krakkana í Elliðarárdalinn sem var mjög fallegur og mildur þennan daginn. Svo fór ég í Ashtanga 1-2 tíma hjá honum Tómasi í Yogashala. Ég elska tímana hans Tómasar og líður oft eins og ég sé komin í himnaríki í tímunum hans. Hann skilur yogað og ausir yfir okkur visku sinni og góðum orðum sem er ómetanlegt. Það er líka ómetanlegt að komast í yoga svo ég hef móður minni að þakka fyrir það. Takk mamma:*

Dreif mig svo í Bíó Paradís þar sem verið var að sýna fræðslumynd um Intersexual fólk. Kona sem er eins og fjölskyldumeðlimur er intersexual og stóð fyrir svörum eftir myndina. Hún stóð sig rosalega vel og er búin að stofna samtök innan samtakanna 78 fyrir intersexual fólk. Þetta var mjög fróðlegt kvöld og ég er mjög ánægð með að hafa farið.

Dagur 23 - góður dagur.


Tuesday, August 5, 2014

dagur 22 - @home

Dagur 22 var mest rólegur dagur heima fyrir. Óli kíkti á okkur og við röltum aðeins um hverfið. Áorkaði þetta:

Okkur vantaði sem sagt vatnshelda gardínu í gluggann hjá baðinu og sturtunni. Keypti sturtuhengi í Ikea (já eða ok, mamma gaf okkur það:), klippti niður og hengdi upp. Fín lausn:)

Dagur 22 - rólegur dagur um verslunarmannahelgi.

Monday, August 4, 2014

dagur 21 - BBQ!

Loksins festum við kaup á grilli.

Svanur er í skýjunum:) Dagurinn fór í að kaupa grillið (í Byko), gasið og setja það svo saman og grilla. Fórum jú líka í Bónus að kaupa grillmat.

Hef sjaldan borðað eins og góðan mat hérna heima hjá okkur. Kjötið var virkilega gott! Skil samt núna af hverju mamma setur alltaf kartöflubáta og sætu kartöflurnar inn í ofninn en ekki á grillið. Held að sætar kartöflur og grill fari ekki saman eða eitthvað..

Jæja, núna fer að styttast í annan endann á þessu sumarfríi. Það er ekki það að ég elski ekki börnin mín. Ég er bara kona sem er komin með leið á að eyða öllum sumrum ein með börnunum. Mér leið nú ekki svona fyrstu 10 árin. Þá var maður allur í þessu, vissi alveg hvenær brúðubíllinn væri í hverfinu, ég var mjög aktív í að finna afþreyingu fyrir börnin og var bara almennt mjög dugleg með börnin. Ég er bara núna á 13. ári komin með smá svona mikið leið á þessu barnastússi. Ég hlakka til að byrja aftur í vinnunni. Að hafa eitthvað að gera, fá símtöl og tölvupósta. .... Það liggur við að ég fari upp í vinnu mér leiðist eitthvað svo.. en það væri asnalegt. Svo ég verð bara að halda í mér.

Guðrún Halla er að fara með mig hún er svo mikið krútt. Þykir ótrúlega vænt um að hún eina orðið sem hún kann alveg er MAMA. Hún notar það óspart. Það er svo sætt að heyra þessi hljóð úr þessum litla líkama. Litla dúllan hennar mömmu sinnar.

Sunday, August 3, 2014

dagur 20 - Gullfoss

Þetta var nú bara indælis dagur í gær. Við fjölskyldan fórum á rúntinn og enduðum á því að skoða Gullfoss.

Enduðum reyndar á því að fá okkur að borða í Þrastarlundi rétt hjá Grímsborgum að ég held. Það er allavegana rétt hjá Selfossi. Það var bara ágætt, hittum frænkur þar og fórum reyndar áður en við lögðum af stað á rúntinn til frænda og frænku í Æsuborgum sem eru að helluleggja garðinn sinn.

Dagur 20 = góður dagur.

Saturday, August 2, 2014

dagur 19 - kæri sáli

Fór til sálfræðings í fyrsta skipti í gær.

Er að leita flestra leiða til að bæta mig og verða betri manneskja og þar sem sálfræðiþjónusta er greidd af stéttarfélaginu, af hverju ekki?

Leið nú bara vel eftir að hafa talað í klukkutíma, hlakka til næsta tíma.

Annars var dagur 19 mjög rólegur dagur en samt gerðist mikið. Óli fór til pabba síns og verður í lengri tíma, líklegast 3-4 vikur. Elsku strákurinn saknar okkar en við erum nú að fara hitta hann næstu helgi skilst mér. Emilía Sól fór líka í mömmuhelgi. Svo við erum bara fjögur í kotinu. Stefán Máni er hálf einmana eftir að eldri systkinin eru farin samt..

Takk mamma fyrir pössunina í gær:)

Friday, August 1, 2014

dagur 18 - virkilega góður dagur:)

Það þarf nú ekki meira til en blessuðu sólina svo að dagarnir verði ljúfir og góðir.

Aldeilis fínn dagur, þessi dagur 18 í sumarfríinu. Byrjaði daginn á að fara í nokkurs konar hnykk þar sem tveir menn þjösnuðust á mér. Mér fannst það ekki slæmt. Líður betur í bakinu og er mjög meðvituð um hvernig ég á að sitja og svo ekki sitja (fæturnir beinir fram, bakið beint, rassinn alveg upp að..)

Fórum svo í fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem krakkarnir fengu armband og hlupu svo frjáls um og skemmtu sér konunglega. Við vorum að hitta Sólrúnu og Öglu Björg sem var bara indælt.

Tók þessa mynd:

Ég er komin með nýtt markmið og það er að koma okkur í sólina í janúar eða febrúar til að bjarga vetrinum. Verðugt markmið það.

Thursday, July 31, 2014

Dagur 17 - chill á Álftanesi

mjög rólegur dagur. Nutum sólarinnar hjá afa og ömmu á Hliðsnesi. Krakkarnir léku út í garði og GH tók blundinn í vagninum. Sólbað og afslappelsi. Svo fór mamman í hot yoga og við borðuðum lax í kvöldmatinn sem afi eða amma veiddu í sumar.

Þessi mynd var reyndar tekin á degi 14 - þriðjudeginum í þessari viku en þá var skýjað. Það var alls ekki skýjað í gær heldur glampandi sól:)

Wednesday, July 30, 2014

dagur 16 - blur

Dagur 16 var sérstakur dagur að mörgu leiti.

Hann hófst öfugsnúinn þar sem yngsta afkvæmið hafði haldið fyrir okkur vöku með öskrum og látum mestalla nóttina. Mér leið svona dáldið eins og ég hefði orðið fyrir strætó eins og ég mér líður oftast þegar ég hef ekki fengið svefninn minn.

Varð mega þakklát fyrir að vera í fríi. Hefði ekki lagt í að bjóða vinnufélögunum upp á svona öfugsnúna konu. Ætlaði meira að segja að fara hitta vinnufélagana í hádeginu en hætti við það sökum svefnleysis og fór í staðinn með GH á heilsugæslustöðina til að kanna hvað væri að hrjá barnið.

Hún er allavegana ekki með eyrnabólgu svo að læknirinn sagði að líklegast væri þetta vegna tanntöku sem getur vel verið þar sem augntennurnar eru að koma upp og það eru virkilega erfiðar "fæðingar" í gangi. Tannholdið undir þeim er búið að vera bólgið í lengri tíma og núna er breiðasti hlutinn einmitt að koma upp.

Ég var svo heppin að vera að fara hitta Ásdísi vinkonu en mér líður vel með henni í svona næstum hvaða ástandi sem er. Sem er gott. Áttum yndælis dag í grasagarðinum í Laugardal. Fundum leiktæki fyrir krakkana sem léku sér út um allt án þess að vilja of mikið fara í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Það er nú bara virkilega fallegt í grasagarðinum.

Svo þegar við komum heim þá var komið svo gott veður að krakkarnir voru að leika sér frameftir öllu út í garði. Formaður húsfélagsins er búinn að vera svo duglegur að vera búinn að koma upp smá svona leiktæki svo að krakkarnir í húsinu eru duglegir að vera út í garði núna að leika sem er auðvitað gott og blessað. Þreytta flakið sem var ég gat svo lekið niður í sólstólinn út á svölum og gleymt mér í smá stund. Munaði mjög litlu að ég hefði brunnið en það gerðist sem betur fer ekki...

Dagur 16 = dased and confused.

Tuesday, July 29, 2014

dagur 15 - hot hot hot yoga

Þetta var frekar mikið rólegur dagur í gær. Aðallega vegna þess að ég þurfti þess. Bakmeiðslin frá því í fyrrasumar hafa tekið sig upp og mín fékk að fara í hot yoga þökk sé frábærri ömmu. Hot yoga-ð gerir svona meiðsl alltaf bærilegri.

Á tíma pantaðan hjá the dude á fimmtudagsmorgun og bind vonir að sá tími komi til með að binda enda á þjáningar mínar.

Hérna er ein mynd frá því í gær hjá afa og ömmu af stærsta strump og minnsta strump:

Ja hérna hér. Þessi dagur var tímamótadagur þar sem fríið er hálfnað. The glas is half ful:)

Monday, July 28, 2014

Dagur 14 - home sweet home

Góður dagur heima. Fullt gerðist framkvæmdarlega séð. Fór á Sorpu með fullt af drasli, ryksugaði bílinn, Svanur setti upp hillurnar, tókum til í kæliherberginu og gerðum það að ísskáp. Elduðum, bökuðum og nudduðum hvort annað.

Stundum, oft reyndar í mínu tilfelli, er best að vera heima.

Dagur 14 - góður dagur.

Hérna er mynd af hillunum komnum upp á vegg. Þetta eru svona myndahillur.


Sunday, July 27, 2014

dagur 13 - good day, sunshine

Dagur 13 í sumarfríinu var góður dagur. Ég vaknaði úthvíld og við fórum í leiðangur öll saman, 6 manna fjölskyldan. Fórum í kaffi til frænda og frænku í Æsuborgum og fórum svo að Úlfljótsvatni að reyna að veiða (af einhverjum ástæðum veiðum við aldrei neitt...) Allir voru glaðir og ánægðir.

Um kvöldið fór ég til Sólrúnar vinkonu sem var bara mjög gaman. Anna Lára hringdi frá Akureyri, búin að fá sér smá í glas, þannig að þetta var líka gott og skemmtilegt kvöld.

Dagur 13 = góður dagur.

Saturday, July 26, 2014

dagur 12 - struck down

Mikið ofboðslega er ég stolt af sjálfri mér.
Aðfaranótt dags 12 var ekki góð, lá andvaka vegna sýkingar og blöðrubólgu og almennt bara mjög kvalin. Var svo heppin að fá tíma hjá sérfræðingi samdægurs og fá svo sýklalyf í kjölfarið. Rosa þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma. Líka rosa þakklát fyrir að þetta vesen kom upp í sumarfríinu en ekki þegar ég á að vera í vinnu.

Var því þreytt og frekar búin á því í gær en fór samt með krakkana (þessa þrjá eldri) í sund. Elsku mamma var með litlu á meðan.

Fórum í Álftaneslaug. Krakkarnir eru samt orðnir frekar leiðir á þeirri sundlaug svo ég verð að fara eitthvað annað með þau næst þegar við förum í sund. Meikaði svo að versla inn í matinn og elda hann. Ég er æði.

Veit þess vegna ekki alveg hvað ég á að segja um dag 12. Ég er fegin að hafa fengið lyf svo að mér batni, er stolt af mér fyrir að hafa almennt séð meikað daginn og þakklát þrátt fyrir allt að ég sé ekki að standa í þessum kvölum og veseni á meðan ég er í vinnunni. Svo ég kalla þennan dag bara bla.

Dagur 12 = bla

Er búin að vera frekar óþekk með vinnupóstinn. Hann kemur beint í símann þannig að maður freistast til að kíkja á hann. Eða er búin að freistast. Ég ætla að hætta því svo ég hafi nú eitthvað að lesa og gera og byrja á þegar ég kem tilbaka.

Thursday, July 24, 2014

Dagur 11 - brjóstahaldaradagur

Í dag fórum við mamma í brjóstahaldaraleiðangur í Kringluna.

Leiðangurinn gekk vel og mamma fann sér tvo og ég einn sem er reyndar nákvæmlega eins og sá sem ég er alltaf í en sá er orðinn svo slitinn og eerrr.. notaður.

Það er auðvitað nauðsynlegt öllum kvenmönnum að eiga góðan brjóstahaldara svo að þetta var mjög svona afkastamikill dagur brjóstahaldaralega séð. Brjóstin á mér verða allavegana mjög ánægð í nýja svarta push up brjóstahaldaranum úr Hagkaup sem er alveg eins og sá sem ég á fyrir. Allir glaðir:)

Takk mamma mín fyrir góðan dag og takk fyrir að vera alltaf svo frábær og til staðar. Held að ég gæti ómögulega getað átt betri mömmu. ("getað"?)


Wednesday, July 23, 2014

dagur 10 - Ikea

Jæja, í dag var Ikea dagur með mömmu.

Stundum nenni ég alls ekki í Ikea og finnst ekkert gaman þarna en í dag fannst mér allt (eða margt réttara sagt) flott og dúllulegt. Fann hillurnar sem ég var að leita að og sem betur fer passa þær í innra barnaherbergið. Þetta eru svona einfaldar mjóar myndahillur. Mjög snyrtilegar og flottar finnst mér. Set mynd af þeim inn á bloggið þegar þær eru komnar upp. Þarf að semja aðeins við karlinn hvenær það gerist, vonandi um helgina.

Fór svo í Fjarðarkaup á meðan krakkarnir voru hjá mömmu. Snilldarbúð finnst mér, þarna er allt, meira að segja apótek:)

Dagur 10 = góður dagur.

(1/3 af fríinu búið....)



Tuesday, July 22, 2014

dagur 9 - aldeilis fínn dagur

Við Ásdís fórum með krakkana í Elliðárdalinn í dag. Til allrar hamingju var bara fínasta veður:)

Örvæntingafulla húsmóðirin okkar fer svo núna í yoga til að anda inn og anda út á meðan krakkarnir eru hjá ömmu og afa.

Langar dáldið mikið til að þetta tattoo verði tekið af....... Þarf að kynna mér nánar hvernig það fer fram og hvað það kostar og svona..

Monday, July 21, 2014

dagur 8 - æðislegur dagur

er voðalega ánægð með þennan dag.

Fór í World Class í hádeginu í pallatíma hjá Önnu Siggu. Alltaf gott að svitna smá:)

Svo kom Sunneva vinkona í heimsókn með dóttur sína Freyju. Það var rosalega gaman að hitta Sunnevu af því að við hittumst svo sjaldan. Hún á sko heima í Svíþjóð. Við getum alltaf hlegið saman og krufið málin.

Er dáldið farin að fíla þetta frí. Dáldið gott að koma hausnum aðeins út úr vinnunni og vinnuumhverfinu. Ó, já.

Sunday, July 20, 2014

dagur 7 - Þingvellir

Í dag fórum við fjölskyldan á Þingvelli.

Sólin lét loksins sýna sig á suðvestur horninu og auðvitað drifum við okkur eitthvað út úr bænum.

Hér er hann Óli minn að myndast við að veiða.


Reyndar þá endaði veiðifærið út í sjó, ekki öll stöngin en svona fremsti hlutinn, og hann skar sig á gömlum öngli. En það er nú önnur saga...;)

Saturday, July 19, 2014

dagur 6 - Lygi

Núna er ég búin með bókina Lygi sem kom út fyrir síðustu jól.

Yrsa Sigurðardóttir kann þetta. Hún hefur þennan hæfileika að halda manni á tánum og vita svo ekki hvaðan á mann stendur veðrið þegar í ljós kemur hver morðinginn er. Ég var búin að ákveða að það væri Örvar en svo var það sonurinn, hhmmmmm.....

Yrsa spinnur listilega þrjá mismunandi söguþræði í þessari bók og maður áttar sig alls ekki á hvernig þeir geta mögulega tengst. Svo kemur það auðvitað í ljós í lokin. Bravó, vel gert.

Það eina sem fór í taugarnar á mér er að það hefði mátt prófarkalesa bókina betur. Það vantaði stundum orð í setningar og svo velti ég stundum fyrir mér orðalaginu, hvort hlutirnir væru rétt skrifaðir, t.d.:

"Um stund stóð hann og horfði á blóði atað hárið sem flóði yfir hvítan koddann en slökkti svo ljósið og fór fram." Segir maður "flóði"? Það eiginlega bara hlýtur að vera.....

Allavegana, mæli alveg með henni.


Friday, July 18, 2014

dagur 5 - halló Hafnarfjörður!

Fór og hitti Siggú vinkonu í dag.

Hún á heima í Hafnarfirði. Finn alltaf hvað það er mikill friður í götunni hennar og í húsinu. Mér finnst það mjög heillandi og það heillar mig meira heldur en stöðugur umferðarniðurinn hérna við Miklabrautina.

Allavegana, alltaf gott að hitta góða vinkonu. Hún er hamingjusamlega gift, á von á sínu þriðja barni í desember. Hún er orðin doktor í matvælafræði og ég er rosalega stolt af henni. Hérna er hún með Halldóri Orra sem er 2ja ára:)


Thursday, July 17, 2014

Dagur 4 - Góðan daginn:)

Í dag fórum við upp í Árbæ á heimaslóðir Emilíu.

Við Emilía og Guðrún Halla löbbuðum hringinn bakvið Árbæjarskóla og Árbæjarlaug, hjá stíflunni og Óli og Stefán Máni spiluðu fótbolta hjá skólanum á meðan. Það standa viðgerðir yfir á skólalóðinni og strákunum fannst þetta nú ekki svo skemmtilegur skóli...

Mér finnst yndislegt hvernig það er eins og maður sé komin inn í einhvers konar friðhelgi mitt í borginni þegar maður labbar þarna. Það bjóða allir Góðan daginn:) Fyrir utan þennan radíus hættir fólk svo flest að bjóða góðan daginn. Skrýtið...


Wednesday, July 16, 2014

Dagur 3 - kósí

þetta gengur ágætlega. Mér gengur illa að kúpla mig úr vinnunni samt enda náði ég ekki að klára allt áður en fríið byrjaði. Það er bara svo margt líka sem maður verður að bíða og sjá hvernig fer. Allavegana, það er bara fínt að hafa svona eitthvað að hugsa um annað en heimilið og börnin.

Í dag fórum við í World Class aftur. Stefán og Emilía voru nú ekkert upprifin en við verðum nú að fara eitthvað út úr húsi. Fór í Dísutíma eins og ég hef gert í mörg, mörg ár. Alveg frá því að World Class var í Skeifunni sælla minninga. Hún klikkar ekki frekar en fyrri daginn og nær að halda manni við efnið. Svo gott að svitna aðeins:)

Erum í kósí fíling heima núna en svo þurfum við nú að fara í Krónuna eða Bónus... Er djúpt sokkin í bók sem ég fékk lánaða úr foreldrahúsum. Bókin heitir Lygi og er eftir Yrsu. Hún heldur mér alveg við efnið líka. Byrjaði á þessari bók bara um helgina og er alveg að verða búin með hana. Þessi bók kom út 2013 fyrir jólin og er bara mjög spennandi. Það eru þrír mismunandi söguþræðir í gangi en núna eru þeir að spinnast saman í skuggalegan þráð. Það er ekki mikið eftir af bókinni og ég er bara frekar spennt. Klára hana líklegast á morgun.

Annars finna krakkarnir sér alltaf eitthvað til dundurs og það er nú ekki að sjá á þeim að þeim leiðist eitthvað mikið. Þeim finnst voða gaman að búa til svona hús og vera svo í því, voða sport...

Dagur 3 = kósí dagur (leiðist smá samt.)


Tuesday, July 15, 2014

Dagur 2 - so far so good

Þetta var virkilega góður dagur:)

Enda ekki annað hægt þegar maður hittir góða vinkonu. Fórum með Ásdísi minni og Hrafntinnu dóttur hennar á Klambratún og slepptum krökkunum lausum. Það vildi líka svo vel til að Brúðubíllinn var akkúrat með sýningu, góð tilviljun;)

Það jafnast auðvitað ekkert við það að hlægja með góðri vinkonu. Fórum svo á kaffihúsið á Kjarvalsstöðum og höfðum það notalegt.

Dagur 2 = virkilega góður dagur.


Monday, July 14, 2014

Dagur 1 - so far so good

þetta var nú bara ágætis dagur.

Maður verður að fara venjast því að vera fótboltamamma því að dagurinn hófst með áhyggjum frumburðarins um keppnisfötin sín. Þau þurfa jú að vera hrein þegar maður er að fara keppa sinn fyrsta leik með C liðinu. Smá stress í drengnum held ég með þessa upphefð en ég hef auðvitað fulla trú á honum.

Dreif hina krakkana með mér í World Class þar sem þau fóru í barnagæsluna á meðan ég fór í pallatíma. Við vorum nýkomin og erum í andyrinu að fara í lyftuna þegar kona bókstaflega veltur um Stefán Mána. Mér fannst það alveg óborganlegt. Hann er jú í þeirri hæð að maður tekur ekki alltaf eftir honum þegar maður er að flýta sér. Allavegana, konan sem augljóslega var að drífa sig í hot yoga tímann datt bara kylliflöt um Stefán Mána og Stefán datt líka. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið! Afsakaði barnið en brosti innra með mér. Af hverju er það alltaf fyndið þegar e-r fullorðinn dettur? :)

Er ennþá að kúpla mig út úr vinnunni sem er alltaf dáldið svona erfitt í þessu starfi. Maður er einhvern veginn aldrei alveg búinn..... Dreif mig á fætur kl. 07:30 í morgun til að byrja daginn. Þetta er enn einn kosturinn við paleo fæðið. Ég sef eins og steinn og vakna á undan klukkunni. Elska þetta svo mikið. Það eru allir hættir á þessu mataræði í vinnunni nema ég og yfirmaður minn. Mér bara líður of vel til að ég tími að hætta. Það er bara þannig.

Þá er bara að drífa krakkana í Bónus og fylla ísskápinn.

Dagur 1 = góður dagur.

Sunday, July 13, 2014

Sumarfrí

Ja hérna hér,

þá er maður komin í "sumarfrí." Dáldið sérstök tilfinning í þetta skiptið. Ég hef ekki verið að telja niður dagana af því að ég hef ekki beint hlakkað til. Var að gantast við vinnufélagana á föstudaginn að núna væri ég að fyrst að fara í vinnuna þar sem það er eiginlega fríið mitt að vera í vinnunni.

Finnst u.þ.b. 5 sinnum erfiðara að vera ein með fjögur börn heldur en að vera í vinnunni. Allavegana, ætla að taka Pollyönnu á þetta og vera ógislega hress og bjartsýn. Ætla hins vegar að gera svona countdown eða svona frekar count up þar sem mér finnst skemmtilegra að vera í vinnunni heldur en að vera með börnunum alltaf.

Þetta er nýja ég, hún er hreinskilin.

Ok, það er spurning um að lifa þetta af og halda hamingjunni. Ætla að gera countup á blogginu. "Sumarfríið" er sirka 30 dagar þar sem 14. júlí er á morgun og er fyrsti dagur í fríi. "Sumarfríinu" líkur svo 14. ágúst eða daginn eftir. Dagmamman var ekki alveg skýr hvort hún byrjaði aftur eftir fríið þann 14. eða hvort hún væri í fríi til og með 14. ágúst.

Allavegana, kem til með blogga um þetta blessaða sumarfrí á morgun á degi eitt og blogga svo alla sirka 30 dagana. Við skulum biðja fyrir örvæntingafullu húsmóðurinni okkar.

Takk og amen.

Sunday, June 15, 2014

Leggst á bæn...

... og bið fyrir vinkonu sem hefur verið týnd í nokkra daga núna.

Aldrei grunaði mig að ég þekkti konuna sem hefur verið saknað í viku núna sirka. Ég var að keyra puttalinginn sem ég pikkaði upp í Baldri heim að næsta bæ sem hann var að fara vinna á rétt hjá Borgarnesi þegar ég heyrði í fréttunum að verið væri að leita að tveimur konum sem hefðu verið í göngu í Fljótshlíð. Ein erlend og ein íslensk. Sú erlenda fannst látin og núna síðast í gær skilst mér að um 170 manns hefðu enn verið að leita að hinni fram á nótt.

Elsku vinkona, ég bið fyrir þér og þínum.

Tuesday, June 3, 2014

shit

Hef aldrei á ævi minni verið eins fegin að sjá kúk og fyrr í dag þegar ég skipti á Guðrún Höllu. Kúkurinn var fullkomlega eðlilegur sem þýðir að hún getur farið til dagmömmunar á morgun sem þýðir að við getum farið að eiga tiltölulega eðlilega vinnudaga!

Niðurgangspestinni miklu er sem sagt lokið (7,9,13) þökk sé skerðingu á mjólkurvörum og möndlumjólk í staðinn. Bara búið að vera mánuður af veseni.

Allir glaðir:)

Thursday, May 29, 2014

nóg að gera...

... í 6 manna fjölskyldunni.

Það er nú kannski ekki við öðru að búast í fjölskyldu sem samanstendur af fullt af börnum og tveimur fullorðnum. Tökum morgundaginn sem dæmi:

Guðrún Halla (14 mánaða) á tíma hjá barnalækni á morgun kl. 09. Örvæntingafulla húsmóðirin er að vonast til að eitthvað sé hægt að gera til að slá á slæman niðurgang sem er búin að vera hjá þessari litlu elsku í á fjórðu viku. Hún má ekki fara til dagmömmunnar á meðan á þessum ósköpum stendur þó hún sé nú hress að öðru leyti. Hvað mamman á að gera við hana restina af deginum til að hún komist í vinnuna er óleyst en mamman ætlar að koma því máli yfir á pabbann þar sem mamman er að fara í sveitaferð með...:

Stefán Máni (6 ára) er að fara í sveitaferð í Guðmundarlund (hvar svo sem hann nú er) með leikskólanum á morgun kl. 13. Þetta er svona ferð sem foreldrarnir fara með í og foreldrafélagið skipuleggur. Mamman vonar að það verði sólkin og blár himinn er býr sig undir það versta. Það er síðasta æfingin í frjálsum kl. 16 á morgun en það er ekki að fara gerast vegna alls neðangreinds...:

Emilía Sól (8 ára) er boðin í afmæli kl. 17. Afmælið er í Árbæ! Það er reyndar allt í lagi af því að...

Ólafur Tryggvi (12 ára) er boðin í afmæli á sama tíma. Afmælið er í Grafarholti! Þannig að það er sama ferðin,

sjálfri mér er boðið í útskriftarveislu í Kópavogi kl. 18:00 en er þá með litlu og Stefán Mána og þetta er svona "no kids" dæmi giska ég á. Gæti kannski hringt í barnapíuna.....

Hvenær ég kem úr sveitaferðinni veit ég ekkert um.

Kannski ég fari með smá bæn núna,


Tuesday, May 13, 2014

YES!!!!!

Það er komin maður. Hann er niðri í kjallara að skipta um kælipressu. Ég heyri ekki í neinni kælipressu núna!!!!! :) :) :)

Dansa stríðsdans í hausnum á mér og dreplangar til að fara niðrí kjallara, banka upp á hjá formanninum, fljúga í fangið á honum og öskra TAKK, TAKK, TAKK, TAKK!

Ég er svo hamingjusöm að ég mynda kannski missa út úr mér að ég elska hann akkúrat núna. Mjög, mjög mikið.

Omg. Hef ekki verið svona hamingjusöm lengi.

Relief.

Mikið var örvæntingafullu húsmóðurinni okkar létt í gær þegar hún las á Smartlandi 10 helstu ástæður fyrir að fólk hættir ekki í vinnunni.

Ástæða númer eitt er, samkvæmt greininni, að fólk veit ekki fyrir hverju það hefur ástríðu fyrir. Ástæða númer eitt af 10. Þetta var samkvæmt einhverri bandarískri könnun eða eitthvað álíka.

Mikið var mér létt. Hélt að ég væri sú eina í heiminum sem veit ekki fyrir hverju hún hefur ástríðu fyrir. Palli er ekki lengur einn í heiminum. Ligga ligga lái.

:)

Saturday, May 10, 2014

Modern society

 
Er að verða fyrir mikilli vakningu um neyslusamfélagið okkar. Allar þessar umbúðir utan um allar þessar tilbúnu vörur með sykri í. Ruglið! Já og draslið!
 
 

Everything is going up

Finn að þetta Paleo fæði og þessi mataráskorun er að gera mér mjög gott. Sem er bara gott.

Finn í fyrsta skipti í langan tíma að orkan mín er jafnari út daginn og ég finn síður fyrir þreytu enda sef ég eins og steinn. Ætla að halda þessu áfram eftir að mataráskorunin er búin. Ekki spurning.

:)

Thursday, May 8, 2014

Girl interrupted.

Finn að geðheilsan er ekki alveg í lagi. Er svo reið. Sem er ekki gott.

Ég er í þeirri afkáralegu stöðu að þurfa að verja geðheilsu mína á mínu eigin heimili. Ég er að tala um kælipressuna niðrí kjallara. Mótornum sem er undir svefnherberginu mínu og heyrist í öllum rýmum íbúðarinnar nema eldhúsinu alltaf nema þegar ég slekk á henni.

Það er húsfundur næsta mánudag þar sem þetta mál verður tekið fyrir. Ef þetta er ekki lagað þá verðum við að flytja.

Núna langar mig út úr Hlíðunum á alveg nýjan stað. Og einbýlishús. Ekki það að það sé eitthvað nýtt;)


Thursday, April 24, 2014

You are what you eat

Game is on.

Keppnisskapið hefur verið vakið í skepnunni hið innra. Áskorun er áskorun. Mataráskorunin hin mikla í vinnunni hefst á mánudagsmorgun kl. 09 upp í vinnu. Ég hef svona aðeins verið að lesa mér til um Paleo mataræðið og verið að undirbúa mig. Tók fyrst glúteinið út, svo mjólkurvörur og í dag er fyrsti sykurlausi dagurinn.

Það er erfiðast finnst mér með sykurinn því hann er út um allt og í öllu. Sem er auðvitað mjög slæmt miðað við þær kenningar sem segja hann orsaka beint og óbeint krabbamein. Ætlaði að fá mér glúteinlausa hrökkbrauðið í morgun sem ég hef verið að kaupa fyrir Óla en já, nei nei. Það er sykur í því líka.

Ég á því eiginlega í fullu fangi með þetta, svoleiðis. Er komin með massa innkaupalista sem samanstendur að mestu leiti af grænmeti... svo þarf maður að redda sem hreinustu kjöti og fisk...

Game on!

Þessi húsmóðir setur markið á að missa 4 kíló.

Wednesday, April 23, 2014

Össur

Ég er hægt og rólega að taka karlinn í sátt.

Er aftur farin að njóta þess að lesa bókina hans Ár drekans en það er nú ekkert eðlilegt hvað ég er lengi með þessa bók. Hún bara rennur ekki og flæðir ekki svo ljúft niður eins og aðrar bækur sem ég les. Hún er samt góð.

Ég var nú líka heillengi með Guðna Ágússon eftir Sigmund Erni.. Það var líka rosa löng bók. En góð.

Sunday, April 20, 2014

35 going on 75

Allt fútt virðist vera fokið út í veður og vind í þessum líkama og þessu lífi.

Andlega líður mér stundum eins og gamalmenni. Veit ekkert betra en að fara snemma í rúmið og taka því rólega.

Þess vegna fannst mér voða skrýtið og erfitt að halda mér vakandi fyrir Channing Tatum í gærkvöldi en það var verið að sýna White house down (seint) á stöð 2. Ég var búin að hlakka til að horfa aftur á myndina en ég fór á hana í bíó. Svo byrjaði helv. myndin rosa seint eða 22:3x á laugardagskvöldi sem þýddi að hún var ekki búin fyrr en 00:3x. Sem var meira en ég þoldi.

Þetta þýðir að ég gat ekki einu sinni haldið mér vakandi fyrir Channing Tatum. Það er bara .... úff.

Þetta þýddi sem sagt að ég fór of seint að sofa sem setti daginn í dag dáldið úr skorðum. Gat nú ekki einu sinni klárað alla myndina alveg, en svo auðvitað vöknuðu börnin snemma og bla.. heyra í mér!

...alveg glatað. En. Þetta er staðreyndin. Get bara ekki haldið mér vakandi lengur en þetta núna, það er bara þannig.

Saturday, April 19, 2014

Mjólkurvörur

Núna ætla ég að prufa að taka mjólkurvörur út úr mataræðinu mínu. Byrjaði í dag.

Það er dáldið skrýtið að geta ekki fengið sér mjólk út í kaffið en ég áttaði mig á að ég hef verið að fá mér voða mikið af mjólkurvörum! Ástæðan fyrir því að ég er að taka mjólkurvörur út tímabundið er að ég er athuga hvort að það hafi jákvæð áhrif á meltinguna sem er ekki búin að vera upp á sitt besta undanfarið.

Svo er ég líka að undirbúa mig fyrir þessa 30 daga mataráskorun sem ég er orðin dáldið spennt fyrir.

Verður nú alveg gott að losna við kviðfituna og nokkur kíló whoop whoop:)


Thursday, April 10, 2014

Mataráskorun

Ég dey. Eða ekki.

Það er komin rosa góð stemmning á vinnustaðnum fyrir að taka þátt í mataráskorun. Byrja eftir páskafríið. Þetta er svona 30 daga dæmi þar sem maður má ekki borða sykur, ekki brauð, ekki mjólkurvörur og ekki .... hrísgrjón.

Kill me. Kill me now!

Eða það var allavegana það sem ég hugsaði fyrst. Svo þegar fólk fór að tala um hvað það væri orkumeira, liði betur og væri búið að grennast mikið (eða þessir tveir í hópnum sem hafa gert þetta) þá komst ég aðeins í stuð fyrir þetta. Svo myndaðist svona hópgleði og spenningur af því að allur hópurinn ætlar að gera þetta saman. Við vorum sko að slútta svona orkustjórnunarnámskeiði sem við erum búin að vera á síðustu fjóra fimmtudaga og stjórnandinn stakk upp á þessari áskorun verandi allur flottur og slank sjálfur eftir að hafa tekið nokkrar svona ákoranir.

Ég bara vona að ég bíti ekki höfuðið af fólkinu þegar ég verð svöng og sykurþurfi.

Þessi áskorun leyfir nefnilega bara þrjár máltíðir á dag!

OMG. Svo ekki til í þetta allt í einu.

Nörd

Oh, ég get verið svo mikill nörd.

Ekki svona nörd sem að veit allt heldur hinn, sá sem er svona dáldið tilbaka.

Var að fatta fyrst í gær, með aðstoð vinnufélaga, hvernig hægt er að taka mynd á símann og senda hana svo STRAX í tölvupósti. Maður þarf sem sagt ekki snúru til að tengja við tölvuna!

Ja hérna hér. Þetta gerir lífið aðeins auðveldara! :)

(And people knew about this?!)

Samstarfsfélagi minn benti mér góðlátlega á að það væru líka komin litasjónvörp...

Takk fyrir það....

Sunday, April 6, 2014

monti mont

Verð nú bara að deila með lesendum hvað ég er stolt af stráknum mínum honum Óla.

Nú er hann allur í boltanum. Hann var að keppa í morgun og við foreldrarnir vorum að horfa á hann og hvetja hann áfram á Hlíðarenda. Valur (liðið hans) tapaði reyndar á móti Víkingum í 5. flokki karla D-hóp en af þeim þremur mörkum sem Valur skoraði í leiknum skoraði hann tvö þeirra og lagði upp þriðja.

Veit að ég er mjög hlutdræg en þetta er alltaf svona. Hann vinnur allt sem hann kemur nálægt og er alltaf bestur.

Er svo stolt af honum:)

Sunday, March 30, 2014

Súkkulaðihjúpaðar kasjúhnetur

Er óð í þetta.

Er alltaf að bíða eftir að ég fái nóg af þessu en það bara gerist ekki! Er búin að hakka þetta í mig í margar vikur núna næstum því daglega. Bara rugl hvað mér finnst þetta gott. Þetta er nú ekkert svo ódýrt heldur...

það mætti halda að ég væri ólétt eða eitthvað...

Sunday, March 23, 2014

hamingjan

Varð hugsi eftir að hafa séð viðtal í Kastljósinu sem Þóra Arnórsdóttir tók við eins konar hamingjusérfræðing frá Hollandi eða Belgíu. Hann talaði um að barneignir drægju almennt úr hamingju.

Ég tengdi við þetta. Ég sé ekki eftir að hafa eignast börnin mín þrjú og ég elska þau en það er að vissu leyti ákveðin frelsisskerðing að vera alltaf fastur heima með þau og sinna þörfum þeirra.

Þess vegna hlakka ég svo til að eldast. Þegar ég verð fimmtug sé ég fyrir mér að ég toppi í hamingjukúrfunni. Það var einmitt verið að tala um þetta á Bylgjunni í vikunni, hvort það hafi ekki verið Virkir morgnar. Þetta meikar svo mikið sens. Þegar maður er fimmtugur þá ætti allt að vera nokkurn veginn komið. Húsið, bíllinn, vinnan og BÖRNIN UPPKOMIN. Þetta þýðir að maður getur bara farið að labba upp á fjöll eða bara eitthvað án þess að það sé eitthvað tiltökumál. Maður getur farið út að borða og í bíó án þess að þurfa að gera hernaðaráætlun um það. Maður getur farið að ferðast og gert það sem manni sýnist!

Svo hlýtur það að vera svo að maður sé orðinn svo sáttur í eigin skinni að maður hætti að spá svona mikið í útlitinu og í því hvað öðrum finnst um mann. Maður setur bara upp rauða hattinn og fer út.

Ji, hvað ég hlakka til!

Saturday, March 22, 2014

sérvitrari með hverjum deginum....

... en ég elska mig fyrir það.

Nýjasta nýtt hjá húsfreyjunni er að sleppa brauði. Finn að það er rosa gott fyrir meltinguna að sleppa því enda segja þeir (hverjir, ha Svava? ;)) að glútein sé eins og lím og ekki gott fyrir líkamann ...

Þá erum við tvö á heimilinu sem reynum eftir fremsta megni að sleppa þessu en Óli er líka í glúteinlausa fæðinu.

Það sem hjálpar mér er að það er svo auðvelt og ódýrt að kaupa hrískökur í staðinn og smyrja áleggi á það eins og það væri brauð. Það er enginn hætta á að aðrir á heimilinu gangi í þetta, he he....


Sunday, March 16, 2014

#partypooper

Við Svanur fórum út úr bænum um helgina og ætluðum að gista á hótel Grímsborgum í annað skipti. Höfðum það voða nice þangað til við uppgötvuðum að það var brjálað fyllerí í gangi í húsinu vegna fimmtugsafmælis. Keyrðum aftur heim og vorum komin heim rétt fyrir miðnættið.

Sem betur fer notuðum við ekki Óskaskrínið svo við eigum það til góða:)

Nutum þess nú samt alveg að kúra þarna en það virðist vera staðreynd að fólk fer á sveitahótel um helgar til að drekka. Höfum lent í þessu flest skiptin sem við höfum farið á sveitahótel. Áttum einmitt inni ókeypis nótt á þessu hóteli vegna fyllerísláta síðast þegar við vorum þarna!

Þetta lið!

Saturday, March 15, 2014

of mikið af því góða..

... á nú við það lúxusvandamál að stríða að hafa verið of dugleg í ræktinni. Mætti alveg þrisvar sinnum í vikunni sem er að líða í World Class og hreinlega ofgerði mér. Fyrirskipa sjálfri mér í tveggja daga hvíld og það er vel.

Framundan er því afslappelsi og lítil áreynsla. Akkúrat sem ég þarf:)

Saturday, March 1, 2014

ströggl

er að ströggla dáldið með bókina sem ég er að lesa núna en það er Ár drekans eftir Össur Skarphéðinsson.

Mér finnst hún dáldið svona þung og flókin, ekki alveg auðlesin, allavegana ekki fyrir mig þó ég hafi gaman af henni af og til. Á hverri blaðsíðu koma fyrir aðstæður, menn og staðir sem ég kannast lítið við og þá líður mér smá minnimáttar af því að fólk með sömu menntun og ég kallar sig sum hver stjórnmálafræðinga plús það að ég er með MA í alþjóðlegum samskiptum. Svo kannast ég ekki við sum nöfnin eða stofnanirnar og finnst aðstæður flóknar og svona í bókinni. Og þetta fer í taugarnar á mér, þ.e.a.s. að ég renni ekki bara eins og vatn sem lesandi í gegnum bókina.

Þannig að ég er eiginlega að þræla mér í gegnum hana með massa minnimáttarkennd í ofanálag.

Urg.

Er nýbúin að lesa ævisögur Guðrúnar Ögmundsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur og þær bækur þóttu mér frábærar og auðlesnar og skemmtilegar. Þær voru ritaðar af konum, hmmmm... og þessi er skrifuð af karlinum sjálfum. Þetta sannar bara það hvað ég botna lítið í karlmönnum.

Finnst þeir ótrúlega flókið fyrirbæri margir hverjir og ég dauðhrædd við suma þeirra af einskærri minnimáttarkennd. Hmmm.. kannski kominn tími fyrir sálfræðing? ;)

Sunday, February 23, 2014

happy

ég er svo ánægð að loksins er korkurinn kominn á í eldhúsinu.

Hart og kalt steingólfið var ekki alveg að gera sig.

Þetta þýðir að ég(/við) get farið að einbeita mér að næsta máli á dagskrá í heimilishaldsmálum:)

Gat fyrst ekki alveg ákveðið mig hvað væri mikilvægast en núna er ég alveg viss.

Það er sjálft klósettið. Við erum svarnir óvinir eða það er að segja ég fíla það ekki. Veit ekkert hvað því finnst um mig og er alveg sama. Ég fíla klósettið ennþá minna eftir að Óli braut setuna eða réttara sagt aðra festinguna þannig að það er orðið að jafnvægisleik að sitja á helvítinu.

Það er vond lykt af því, það er asnalegt og óþægilegt í þrifum og svo veit ég ekkert hver eða hvað notaði það á undan okkur af því að það var þarna þegar við fluttum inn.

urg.

Það er bara spurning hvað maður þarf að bíða lengi eftir að skipt verði um þetta bévítans klósett. Það veltur bara á einum manni og það er kallinn. Ætli ég þurfi ekki að framkvæma svona #100dayssleikjahannupp í anda #100happydays sem maður sér út um allt á facebook.

Day 1. Let the games begin.

Saturday, February 22, 2014

Ignorant to a fault

Skammast mín fyrir skammsýni mína og fordóma.

Ég er bara með fullt af fordómum, því miður. Þetta birtist í því að ég er bangin við karlmenn frá miðausturlöndum og vil helst ekki vera nálægt þeim. Mér finnst þeim ekki verið treystandi. Eins ætla ég aldrei til Indlands því ég er hrædd um að vera nauðgað.

Lenti í þeim aðstæðum að þurfa að vera ein á afviknum stað með manni frá Pakistan vegna vinnu minnar og leið bara hreint alls ekki vel áður en ég lagði af stað. Ég var eiginlega handviss um að hann myndi reyna að nauðga mér. Ég áætlaði að taka með mér kveikjara svo ég hefði nú eitthvað til að verja mig með.

Þvílíkur klikkhaus get ég verið!

Auðvitað var þessi maður hinn kurteisasti og var mjög vandvirkur og vinnusamur. Að mér skuli hafa dottið þessi vitleysa í hug:/

Maður á auðvitað ekki að alhæfa.

Saturday, February 15, 2014

Kaffi

hmmmm...
ég er svo hissa á þessari uppgötvun minni um sjálfa mig og kaffi. Eftir að ég fór að finna fyrir kvíða þá hefur kaffi slæm áhrif.

Ef ég sleppi kaffi (sem ég get reyndar ekki,fæ mér koffínlaust í staðinn) þá líður mér vel. Eða frekar sagt mjög vel, dásamlega.

Núna er laugardagur og ekkert sérstakt á dagskrá svo ég leyfði mér einn alvöru kaffibolla í morgun. Ég finn áhrifin mjög sterkt. Hjartslátturinn eykst, stress eykst og ég verð óróleg.

Ég las mér til um kaffi á netinu og þar kom fram að það (koffínið) hafi bein áhrif á miðtaugarkerfið. Þetta á allt í einu mjög vel við um mig.

Skrýtið!

Sem betur fer er koffínlaust kaffi sjálfsagt mál á kaffihúsum og auðvelt að kaupa sér koffínlaust kaffi þar.

Sem betur fer:)


Sunday, February 9, 2014

zumba

er orðin forfallin fíkill í zumbatímana núna.

Tíminn sem við Emilía fórum í í gær var stórskemmtilegur og ég skemmti mér konunglega. Það rann hins vegar upp fyrir mér að hinar mömmurnar (held að mömmur séu um 97% þátttakenda) voru allar í líflegum sumarlitum og líka stjórnendurnir enda er fílósófían á bakvið zumba lífsgleði og meiri gleði. Það gefur því augaleið að maður á ekki að mæta í öllu svörtu eins og örvæntingarfulla húsmóðirin okkar gerði í gær.

Skamm skamm Svava. "En ég á bara svört æfingaföt."

hmmmm... það stendur til bóta.


Mannasiðir Gillz

Ja hérna hér.

Óli spurði áðan hvort hann mætti fara í bíó. Jú jú, hann mátti það. Það kom síðan í ljós að barnið er að fara að sjá Lífsleikni Gillz, sem nýbúið er að frumsýna, ásamt vini sínum. Mömmuhjartað er ekkert sérstaklega spennt fyrir því að drengurinn fari að læra um mannasiði hjá Gillz en myndin er bara bönnuð inn á 12 ára og barnið er jú orðið 12 ára.

Verð reyndar að segja að mig langar til að fara með til að svala forvitni minni um myndina. Það er smá von í brjósti húsmóðurinnar að umræddur Gillz sé ekki eins dónalegur og hún heldur að hann sé. En hún veit að sú von er borin.


Tuesday, January 28, 2014

Everything is going up

Núna er Stefán Máni að blómstra.

Er kominn í frjálsar íþróttir og æfir tvisvar í viku og svo er félagslífið líka á hraðri uppleið. Hann er kominn með vin á leikskólanum sem kemur stundum heim með honum og hann var hjá honum í gær. Síðan er hann líka kominn með vin hérna í stigaganginum sem kemur stundum í heimsókn núna.

Bara frábært:)



Saturday, January 25, 2014

70 ára kelling

Stundum, æ oftar upp á síðkastið, líður mér eins og kellingu á sjötugsaldri.

Ekki það að ég hafi eitthvað á móti kellingum á sjötugsaldri. Þær eru langflestar yndislegar og æðislegar, allavegana þær sem ég hef kynnst, og búa yfir heillri ævi af visku og kærleik.

Ég hef sem sagt ekkert á móti þeim, málið er bara að ég er 35 ára en ekki á sjötugsaldri.

Það er ekki nóg með að ég sé hætt að reykja, hætt að drekka, hætt að djamma heldur hef ég núna ákveðið að hætta að drekka kaffi. Allavegana, að prufa að hætta í smá tíma.

Come on! Með þessu áframhaldi verður ekkert fútt í mér. Alveg heilög. Drekk ekki einu sinni kaffi lengur.

Ég var reyndar að kaupa koffínlaust kaffi eins spennandi og það hljómar.

Málið er að ég er farin að finna svo sterkt fyrir áhrifunum af kaffi. Finn hvernig hjartslátturinn verður hraðari og svo var ég að lesa á internetinu að kaffi hefur bein áhrif á miðtaugarkerfið og mér finnst ég líka finna fyrir því að mér er hættara að finna fyrir kvíða ef ég drekk mikið kaffi.

So boring old me, komin á koffínlaust kaffi. Og partýið heldur áfram....

Svanur hitti naglann á höfuðið um daginn þegar hann sagði við einhvern vin sinn að ég væri hálf sjötug... ó mæ...

Friday, January 24, 2014

útþrá

Eins og klukka kemur útþráin alltaf í janúar og/eða febrúar. Enda finnst mér það eina rétta í stöðunni að koma sér út í sólina á þessum árstíma.

Það eru í rauninni bara þrír klukkutímar í sumarið eftir því hvaða leið maður fer. Þegar ég verð stór þá ætla ég alltaf að skreppa í vikufrí til Spánar í janúar/febrúar.

Það er bara þannig.

Tuesday, January 21, 2014

pin

Núna man ég kennitöluna hans Stefáns og Óla en er búin að gleyma Guðrúnar Höllu. Eða kannski, held ég viti hana en mér gæti skjátlast.

Hvað er þetta?:/

en hvernig á maður að muna öll þessi pin-númer, lykilorð, notendanöfn og kennitölur?

Er bara spyr...

Saturday, January 18, 2014

verðlaun

Við Svanur ættum klárlega að fá foreldraverðlaunin í ár.

Við getum ómögulega munað kennitöluna hans Stefáns Mána.

Aumingja barnið. Ætli hann fái ekki að kenna á miðju-barns-syndrom-inu hvað svo sem það þýðir,

:/

Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er líka erfitt að muna kennitöluna hennar Guðrúnar Höllu.

Hvað er málið?

Ji, hvað ég skammast mín!

#hauspokatakk

Wednesday, January 15, 2014

black is out

fór í svartan bol í morgun og var steinhissa á áhrifunum.

Mér líður bara alls ekki vel í svörtu núna! Gat eiginlega ekki beðið eftir að koma heim og fara úr bolnum. Ég er eiginlega alltaf í hvítum bolum núna en þar sem ég var nú bara að fara til tannlæknisins í morgun og svo heim ákvað ég að spara hvítu bolina og fara í þann svarta.

Þetta er svo skýtið þar sem ég var alltaf ALLTAF í svörtu þegar ég var yngri. Þá leið mér vel í svörtu.

Ætli ég sé ekki hamingjusamari núna. Er búin að vakna með lagið "Happy" í hausnum á mér undanfarna daga. Ég veit ekki alveg hver syngur þetta en þetta er stundum spilað á Bylgjunni þessa dagana. Ég heyrði það í fyrsta skiptið í Zumba tíma um daginn og bara alveg elska það. Mér líður best í hvítu núna og björtum litum og ákvað á milli þess sem ég var deyfð í stólnum áðan og tönnin var tekin út að ég ætla að leggja svarta bolnum. Hann fær ekki að hanga meðal hvítu bolanna og skyrtnanna í fataskápnum lengur heldur fer hann í e-a skúffuna...

So out with the old in with the new.

Namaste.

Tuesday, January 14, 2014

sterk

Núna er örvæntingarfulla húsmóðirin að fara í tanntöku á morgun. Er pollróleg. POLLróleg. Sultuslök.

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað mál! Ekki neitt.

Slök. Róleg. Bara alveg til fyrirmyndar.

ok. Bæ

Wednesday, January 8, 2014

Jóhanna

What a pleasant surprise:)

Bjóst ekki við svo miklu af einhverri ástæðu af þessari bók en ég hef sjaldan haft mikinn áhuga á bók. Ég elska að lesa hana, hún er vel skrifuð og forvitnileg og áhugaverð. Get bara varla lagt hana frá mér!

Ætli takmarkaður áhuginn megi ekki skrifast á takmarkaðan áhuga karlpeningsins í fjölskyldunni. Mikið er ég áhrifagjörn. Þeir höfðu sko ekki áhuga eða nennu til að lesa þessa bók...

Allavegana, eins og ég segi: love it!


Sunday, January 5, 2014

Maður sem heitir Ove

Ji, hvað þetta er æðisleg bók!

Elskaði að lesa hana og varð leið þegar leið á seinni hlutann því það þýddi að hún var næstum búin. Ég grét yfir henni og brosti mikið út í annað þó ég hafi ekki beinlínis hlegið.

Mæli hiklaus með henni. Ljúfsár bók. Virkilega góð.


Saturday, January 4, 2014

I love Zumba!

Yes!

Fór í æðislegan zumba tíma í morgun (þökk sé mömmu sem kom og passaði á meðan, takk mamma;)) Það var svo ofboðslega góð orka í tímanum, allir svaka glaðir og hressir og greinilegt að öllum fannst gott í fyrsta tíma ársins eftir hátíðarnar.

Ætla pottþétt að halda áfram að stunda þetta en er reyndar í smá bakslagi hérna heima núna. Bévítans rófubeinið er að angra mig.

Til hvers erum við aftur með það?

Vona að það lagist ef ég tek því rólega í dag. Það er ekkert allt of spennandi tilhugsun að þurfa að fara til "meðhöndlarans" aftur...

Friday, January 3, 2014

góður draumur

Mmmmmm... mig dreymdi góðan draum í nótt.

Mamma kom og sagðist hafa keypt nýja íbúð fyrir okkur. Að íbúðin væri í Skipholtinu og að hún væri rúmlega 300 fermetrar! Svo vorum við afganginn af þessum draumi að flytja og græja og skoða nýju íbúðina sem var svo sannarlega stór. Þrjú eða fjögur stór svefnherbergi, þar af tvö held ég með innbyggðum kojum.

Þetta var dáldið svona spes íbúð, dáldið gömul og húsið var frá árinu 1923. Eins og draumar eru þá var allt dáldið svona absúrd. Íbúðin sem við vorum að flytja út úr var ekki íbúðin sem við erum í núna, ég er ekki viss um að Svanur hafi verið Svanur og svo vorum við að pakka hlutum sem við eigum ekki.

En loksins dreymir mig. Langt síðan að mig hefur dreymt svona skýran draum.

En gleðilegt nýtt ár lesendur (mamma og Tinna:))